Besti skákmaður Íslands undir lok 19. aldar var læknir á Ísafirði: Bráðskemmtileg grein um skáklíf vestra í 60 ár

ESE að tafli 1960-001 5.2.2011 14-56-26

Einar S. Einarsson að tafli á Gamla bókasafninu á Ísafirði

Um aldamótin 1900 fór skákbylgja um Ísland. Taflfélag Reykjavíkur var stofnað um haustið, og í kjölfarið spruttu upp skákfélög um allt land. Maðurinn á bak við þessa vakningu var mesti velgjörðarmaður sem Íslendingar hafa eignast, Daniel Willad Fiske (1831-1904).  Í þessari grein segir skáklífi á Ísafirði og Þorvaldi Jónssyni lækni sem var besti skákmaður Íslands á seinni hluta 19. aldar.

Árið 1961 birtist stórfróðleg grein í blaðinu Vesturlandi, þar sem rakin er saga taflfélagsins í tilefni af 60 ára afmæli. Formaður á afmælisári var kornungur maður, sem átti heldur betur eftir að koma við íslenska skáksögu!

Þessi skemmtilega grein fer hér á eftir, örlítið stytt.

Greinarhöfundur byrjar á því að vitna í bréf sem Þorvaldur læknir skrifaði prófessor Fiske:

 

 

„Síðan ég kom hingað fyrir nálega 37 árum hefur áhugi fyrir skák talsvert glæðst á Vestfjörðum, eins og víðar á landinu, og hinar nú almennt gildandi útlendu skákreglur eru víðast hvar á landinu búnar að útrýma hinni íslenzku „valdskák“ og öðrum gömlum skákkreddum.“

Besti skákmaður Íslands heldur áfram að útskýra stöðuna. Viðtakandi bréfsins er mesti skákfrömuður í sögu okkar, og Þorvaldur segir hvað vantar:

,,En okkur vantar heppilega kennslubók í skák og skákdálk í einhverju vikublaðinu, til þess að áhuginn á þessu „nóbla“ spili verði almennari. Hér í bænum koma nú nokkrir skákmenn saman einu sinni í viku til að tefla, og vona ég, að það verði byrjun til skákklúbbs, auðvitað „en miniature“, þar sem bæjarbúar eru alls ekki nema 1000.“

Willard FiskeÞannig skrifar Þorvaldur Jónsson, læknir á Isafirði, til Willard Fiske veturinn 1901, þess manns, sem íslenzkir skákunnendur eiga hvað mest að þakka.

Frá því í lok marzmánaðar 1900 vann hann í nærri þrjú ár stöðugt að því að útbreiða og vekja áhuga manna á Íslandi á skák. Voru fyrir hans tilstuðlan stofnuð skákfélög víða um landið og gaf Fiske þeim öllum töfl og skákbækur. Landsbókasafninu í Reykjavík gaf hann heilt skákbókasafn, eitt hið fullkomnasta, sem þá var til. Á hvert heimili í Grímsey sendi hann skákborð og bækur, en af skáksnilld Grímseyinga fóru þá miklar sögur.Á þessum árum gaf hann út skáktímarit á íslenzku, Í uppnámi, var það prentað [á Ítalíu] og er enn í dag talið eitt vandaðasta og bezt ritaða skákblað, sem út hefur komið í heiminum.

Þorvaldur Jónsson

Þorvaldur Jónsson

Um aldamótin var Þorvaldur Jónsson, læknir, talinn einn hinn bezti og sterkasti skákmaður á Íslandi. Hann var sá eini, sem fylgdist eitthvað með erlendri skák og stúderaði skák af bókum. Er þess getið að skákir eftir hann hafi birzt í útlendum skáktímaritum, þær fyrstu eftir íslending. Þorvaldur skrifaðist mikið á við Willard Fiske og gaf honum upp nöfn á þeim skákmönnum, sem fremstir stóðu hér um slóðir og fengu þeir allir send töfl.

Þegar stofnun Taflfélagsins var í bígerð gaf Fiske töfl og bækur. Voru taflmennirnir sérstaklega stórir og vandaðir, blýþyngdir, frá Ítalíu.Taflfélag Isafjarðar var svo formlega stofnað veturinn 1901—1902 og voru stofnendur m.a. þessir:Þorvaldur Jónsson, læknir, sem var formaður.Hannes Hafstein, sýslumaður og skáld.Ragnheiður Hafstein, kona hans.Helgi Sigurgeirsson, gullsmiður.Þorvaldur Jónsson, prófastur.Grímur Jónsson, kennari.Jón  Grimsson,  sonur hans,  nú málaflutningsmaður og eini núlifandi stofnandinn.Guðmundur Bergsson, póstmeistari.Jón Laxdal, verzlunarmaður og tónskáld.Gyða Þorvaldsdóttir (læknis), kona hans.

Í garði Þorvalds læknir

Í garði Þorvalds læknir

Eins og sjá má af þessum nöfnum, hefur það oftsinnis sýnt sig að iðkendur skákar hafa margir hverjir reynzt hinir merkustu menn á öðrum sviðum, ekki hvað sízt fyrir sakir þess andlega þroska og skarpleika, sem skákin hefur þjálfað með þeim.Taflæfingar voru að jafnaði haldnar reglulega einu sinni í viku, á laugardögum, og var teflt í „Gamla Sparisjóðnum“, húsi því, sem Haraldur Guðmundsson, skipstjóri, á nú heima í, en þá var húsið aðeins ein hæð. Eitthvað af skákum var skrifað niður, en þær eru nú flestar glataðar. Er árin liðu, og Þorvaldur læknir var fallinn frá, fluttust taflfundirnir upp a „Nord Pól“ (1908—1915) til Sölva Thorsteinssonar, veitingamanns og lóðs, (þá var þar einnig billjard) og bættust nú nýir menn í hópinn, svo sem Guðmundur Hannesson, málaflutningsmaður og síðar sýslumaður á Siglufirði, og Ólafur Davíðsson, verzlunarstjóri, en aðrir heltust úr lestinni.

Sesselía Thorberg og Gyða Þorvaldsdóttir

Sesselía Thorberg og Gyða Þorvaldsdóttir

Stríðsárin [1914-1918] trufluðu að vonum mjög öll félagsstörf, og er stríðinu lauk var starfsemi taflfélagsins í molum, og bar félagið ekki barr sitt lengi eftir það. Þó tefldu menn ávallt nokkuð á þeim árum í heimahúsum. Má þar geta þeirra Sigurgeirs Sigurðssonar frá Kirkjubæ, sem síðar átti mestan þátt í að efla félagið á ný og er enn starfandi félagsmaður kominn að áttræðu, og Halldórs Jónssonar frá Naustum, en báðir voru þeir sjómenn og lengi formenn á bátum.

Á árunum 1930—1936 færist á ný líf í félagsstarfsemina og eru nú taflæfingar haldnar í Alþýðuhússkjallaranum, („Miðfélagið“). Auk áðurnefndra manna komu þar m.a. við sögu þeir Marinó Nordquist, Kristinn Pétursson, Jón Sv. Kristjánsson, en þessir menn voru einnig formenn á bátum, Ingimundur Ögmundsson, smiður, og Steinn Guðmundsson (Tangagötu 10). Á skákmóti, sem haldið var á þessum árum urðu úrslit þau, að efstur varð Marinó með 8 vinninga af 10, Kristinn 6,5, Sigurgeir og Jón 5 vinninga hvor.

Nú kemur annað heimsstríð [1939-1945] og liggur starfsemi félagsins í dái allt fram til ársins 1945. Þá er félagið endurreist á fjölmennum fundi og þessir menn kosnir í stjórn: Lárus Hermannsson, formaður; Rögnvaldur Jónsson, varaformaður; Guðmundur Ludvigsson, ritari og Jón Á. Jóhannsson til vara; Sigurgeir Sigurðsson, gjaldkeri og Jón Jónsson frá Hvanná til vara. Endurskoðendur þeir Sigurður Ásgeirsson og Magnús B. Magnússon, en til vara Gústaf Lárusson og Jóhannes Þorsteinsson. Hefur félagið starað óslitið síðan og félagsmönnum farið fjölgandi. Eru þeir nú 50 talsins.

Ragnheiður Hafstein

Ragnheiður Hafstein

Árið 1950 var ákveðið að skipta félagsmönnum í tvo flokka eftir skákstyrkleika, og síðar var bætt við þriðja flokknum, unglingaflokki. Flutti félagið um svipað leyti starfsemi sína í sal bókasafnsins, þar sem það hefur síðann haft aðalbækistöðvar sínar.

Til viðbótar við undangengina nafnaupptalningu þykir rétt að geta hér nokkurra manna að lokum, sem unnið hafa félaginu vel nú á hinum seinni árum. Guðbjarni Þorvaldsson var formaður félagsins árin 1947 og 1948 og auk þess lengi í stjórn. Stígur Herlufsen var formaður 1953 og skákmeistari félagsins 1954. Óskar Brynjólfsson var formaður 1955 og 1956 og hefur lengi verið og er enn einn af virkustu skákmönnum félagsins. Gísli Kristjánsson var sjö sinnum skákmeistari á árunum 1950—1958 og er enn einn sá sterkasti. Magnús Kristinsson hefur verið virðulegur stjórnarmeðlimur síðan 1957, skákmeistari 1959 og 1960. Núverandi skákmeistari er Magnús Alexandersson, bikarmeistari Birgir Valdimarsson, hraðskákmeistari Magnús Aspelund, drengjameistari Pétur Gunnlaugsson. Formaður félagsins er nú Einar S. Einarsson.

Facebook athugasemdir