Baku: Enn tapar Fabiano Luigi Caruana – Sex efstir þegar tvær umferðir eru eftir

Caruana_MVL

Fabi tapar og tapar.

Það er ekki bara í Vegas sem menn keppast um hylli Caissu. Í borginni Baku í Azerbæjan tefla 12 misjafnlega ung ungmenni í hinu svonefnda Grand Prix móti alþjóðaskáksambandsins FIDE.

Mótaröðin veitir keppnisrétt í næsta áskorendamóti, sem fer væntanlega fram árið 2016. Áskorendamótið veitir svo aftur sigurvegaranum rétt til þess að skora á sitjandi heimsmeistara, sem verður annað hvort Magnus Carlsen eða reynslubankinn hann Wisvanathan Anand – allt eftir því hvernig vindarnir blása nú í nóvember, þegar þeir mætast í Sochi í Rússlandi.

Fabiano Luigi Caruana tók forystuna snemma móts og hélt áfram ótrúlegri velgengni sem hófst í St. Louis í ágúst. Fabi komst hæst í 2851,3 skákstig á lifandi listanum (2700chess.com) eftir 6. umferð, en þá virðist bensínið á flugvélinni hafa klárast. Hann tapaði nefnilega fyrir Dmitry Andreikin (2722) í 7. umferð. Hann haltraði svo í mark í 8. umferð með jafntefli við fyrv. heimsmeistarann Rustam Kasimdzhanov (2706). Í níundu umferð bætti hann um betur og tapaði enn, nú fyrir hinum mjög svo litríka karakter, Alexander Grischuk (2797).

Önnur úrslit í dag eru eitthvað á þessa leið:

baku_stadan

 

Sú sérstaka staða er nú uppi í mótinu að nánast allir keppendur eru efstir, eða svo gott sem. Þannig eru sex efstir með 5 vinninga af 9 mögulegum, sem er afar lýsandi fyrir hversu jafnt mótið er, tveir eru með 4,5 vinninga og þrír koma þar á eftir með fjóra.

Í raun hafa allir fræðilega möguleika á að vinna mótið, enda tvær umferðir eftir, ja, nema kannski kúbverjinn Perez Leinier Dominguez,  sem hefur aðeins þrjá vinninga.

Capture

 

Ljóst er að ónefndur heimsmeistari í skák, hvers nafn byrjar á M og endar á agnus, getur andað léttar, enda bendir fátt til annars en að hann verði bæði áfram heimsmeistari og stigahæsti skákmaður heims, en um tíma leit jafnvel út fyrir að Fabi gæti náð honum og jafnvel farið framúr, áður en hinn ónefndi léki svo miklu sem peði í nóvember. Stigamunurinn er nú 26 stig og gæti jafnvel aukist áður en um lýkur í Baku.

 

Caruana_live_rating

 

 

Facebook athugasemdir