Bakarí Friðriks Ólafssonar

Hollendingar eru sögufrægir skákmeistarar. Á sjötta áratug 20. aldar ríkti Jan Hein Donner yfir hollensku skáklífi, varð meistari þar í landi 1954, 1957 og 1958. Hann jafnaðist að sönnu ekki á við Max Euwe (1901-1981) sem borið hafði krúnu heimsmeistara 1935-37, né var hann jafn eitursnjall og Timman (f. 1951) sem var um langa hríð meðal heimsins bestu skákmanna.

Donner varð iðulega á vegi Friðriks Ólafssonar, fyrsta stórmeistara Íslands. Friðrik fæddist 26. janúar 1935, tefldi fyrstu kappskákina 11 ára, varð Íslandsmeistari 17 ára og Norðurlandameistari í kjölfarið. Friðrik var einn af örfáum meisturum vestan járntjalds sem veitti bryndrekum sovéska skákskólans keppni.

Donner var mistækur skákmaður og náði aldrei alveg á toppinn. Hann var svo óheppinn að vera á hátindinum meðan sovéski skákskólinn ríkti yfir heiminum — Donner var lítið annað en bóla á flatasta landi í heimi, í augum sovésku meistaranna. Donner tefldi 4 skákir við Tal um dagana og tapaði þeim öllum. Hann náði þremur jafnteflum á móti Keres en tapaði sex skákum. Hollendingurinn hafði ,,tak“ á mulningsvélinni Geller: þeir gerðu 8 jafntefli en Geller vann eina.  Fleiri afrek? Átta jafntefli (og þrjár tapskákir) gegn Petrosjan. Einn sigur (og fimm tapskákir) gegn Spassky. Einn sigur í 10 tilraunum gegn Smyslov, 5 töp og 4 jafntefli…

Alveg þokkalegt, svona eftir á að hyggja. Donner hinn mistæki náði líka einu sinni höfuðleðrinu af Fischer, það var á ólympíuskákmótinu 1962. Svo hann var öllum skeinuhættur á góðum degi. Friðrik og Donner tefldu 9 kappskákir á árunum 1954 til 1976. Donner sigraði í fyrstu skákinni, sem tefld var á ólmypíumótinu í Amsterdam 1954, þegar Friðrik var 19 ára. Í næstu 8 skákum sá Hollendingurinn aldrei til sólar, náði þremur jafnteflum og tapaði fimm skákum.

Og hér er ein þeirra! Bregðum okkur til Lugano í Sviss árið 1970. Friðrik hefur hvítt. Jarðarförin er afstaðin áður en svartur vaknar til lífsins.

Facebook athugasemdir