Aumingja Magnús!

R9_Magnus_Carlsen_laugh_023

Hættur, farinn. Carlsen tapaði tvisvar í Tromsö og vængbrotið lið Noregs er í 39. sæti fyrir lokaumferðina.

Heimsmeistarinn Magnus Carlsen er farinn frá Tromsö, þótt enn sé ein umferð eftir af 41. Ólympíuskákmótinu. Hann teflir því ekki gegn Malasíu, en þar hefði alþjóðameistarinn Lim (2311) fengið uppfylltan þann draum allra skákmanna að kljást við heimsmeistara. Viðureign Noregs og Malasíu í síðustu umferð hefur engin áhrif á toppbaráttuna: Carlsen og kempur hans eru í 39. sæti…

Bjartar vonir Norðmanna um gott gengi á heimavelli brugðust. Carlsen virtist eitthvað annarshugar, eins og töp gegn Naiditsch (2707) og Saric (2671) eru til marks um. Meistarinn mikli skilur eftir 7,3 skákstig í Tromsö.

Árangur Carlsens væri flestum samboðinn: 5 sigrar, 2, jafntefli og 2 töp. Árangur upp á 2799 skákstig. En þetta er ekki uppskera sem er samboðin heimsmeistara, enda var Carlsen aðeins í 10. sæti yfir bestan árangur einstaklinga á mótinu, með hliðsjón af skákstigum. Búlgarski bragðarefurinn Topalov (2772) trónir á þeim tindi. Topalov hefur aðeins stigið eitt feilspor á mótinu, þegar hann tapaði fyrir erkióvininum Kramnik í 5. umferð. Meðal fórnarlamba Búlgarans eru Vallejo Pons (2698), Dominguez (2760) og Wojtaszek (2735).

Kramnik-in-Round-7

Kramnik vann erkióvininn Topalov, en tapaði svo 2 skákum í röð. Rússar eru í 5 sæti og mæta vaskri sveit Frakka í siðustu umferð.

Frá sálfræðilegu sjónarhorni er hinsvegar áhugavert að eftir sigurinn gegn Topalov tapaði Kramnik 2 skákum í röð — sem er fáheyrt, þegar þessi mikli meistari á í hlut. Hann steinlá fyrir Kasimdzhanov (2700) og Vallejo Pons (2698), og andlaust, rússneskt ofurlið á nú enga möguleika á gullinu.

Árangur Topalovs fyrir síðustu umferð jafngilti 2903 skákstigum, en kínverski snillingurinn Yu (2668) andaði í hnakka hans með 2902. Í þriðja sæti var stjarna bandaríska liðsins, Sam Shankland (2624) sem rakaði saman 8,5 vinningi í 9 skákum. Af öðrum sem hafa farið á kostum í Tromsö má nefna hinn unga Ungverja Balogh (2637) sem var með árangur upp á 2858 stig, Víetnamann Nguyen (2634) og Hollendinginn Giri (2745). Allt eru þetta kornungir menn, svo Topalov sem óðfluga nálgast fertugt má teljast góður.

Önnur ,,gömul“ kempa er Adams, fæddur 1972, sem verið hefur helsta aflakló Englendinga, og er með árangur upp á 2856 stig. Adams hefur hækkað um 7 sæti á heimslistanum og er nú númer 14. Ólíkindatólið Short, sem verður fimmtugur á næsta ári, hefur hinsvegar verið dragbítur enska liðsins, svo mildilega sé að orði kveðið. Hann lagði stigalágan Wales-búa í 1. umferð, gerði jafntefli við alþjóðlegan meistara í 2. umferð — og hefur síðan tapað 3 skákum í röð, nú síðast fyrir Svíanum Hillarp-Persson (2549)…

Íslenska liðið?

Strákarnir okkar!

Hannes Hlífar og Hjörvar Steinn hafa ekki tapað einni einustu skák á efstu borðunum tveimur. Ofur-varamaðurinn Helgi Ólafsson er taplaus líka.

Hannes Hlífar Stefánsson (2536) hefur staðið sig frábærlega á 1. borði. Hann gerði jafntefli í fyrstu 3 skákum sínum, en hefur fengið 4,5 vinning í síðustu 5 skákum. Árangur upp á heil 2693 stig. Fyrir síðustu umferð hafði Hannes teflt við 5 stórmeistara og 3 alþjóðameistara, og ekki tapað skák. Hannes vann frækilegan sigur á hinum serbnesk-ættaða Solak (2632) þegar Íslendingar og Tyrkir gerðu 2-2 jafntefli í 9. umferð.

Hjörvar Steinn Grétarsson (2543) sem teflir á sínu þriðja ólympíuskákmóti stendur sig með miklum sóma. Hann var taplaus eftir 9 skákir, hafði unnið 4 og gert 5 jafntefli. Meðal andstæðinga hans voru 5 stórmeistarar og tveir alþjóðameistarar. Hjörvar hafði í tvígang teflt á 1. borði fyrir Ísland og sjö sinnum á 2. borði. Hann vann báðar skákirnar sem hann tefldi á 1. borði. Árangur hans eftir 10 umferðir jafngilti 2581 stigi.

Íslandsmeistarinn Guðmundur Kjartansson (2448) á erfitt uppdráttar á 3. borði. Hann tefldi 7 skákir í fyrstu 10 umferðunum, vann 2, gerði 2 jafntefli en tapaði 3. Verst var bylta sem hann hlaut gegn færeyska FIDE-meistaranum Berg (2320), en sigrana vann Guðmundur í viðureignum Íslands við Eþíópíu og skáksveit blindra. Árangur Guðmundar jafngildir 2337 stigi. Hann er nú að tefla í fyrsta skipti á ólympíuskákmóti, en verður örugglega lykilmaður í liðinu á komandi árum.

Þröstur Þórhallsson (2426) hefur fyllilega réttlætt þá ákvörðun Jóns L. Árnasonar landsliðseinvalds að velja hann í liðið, framyfir stigahærri stórmeistara á borð við Héðin Steingrímsson og Henrik Danielsen. Þröstur tefldi 8 skákir í fyrstu 10 umferðunum, vann 4, gerði 3 jafntefli og tapaði 1. Árangur Þrastar jafngildir 2507 skákstigi.

DSC_1357

Helgi Ólafsson teflir nú í 15. skipti á ólympíuskákmóti.

Helgi Ólafsson (2555) ber titil varamanns, þótt hann sé stigahæstur í liðinu. Hann hætti sem landsliðseinvaldur í vor, og gaf kost á sér í landsliðið aftur, skákunnendum á Íslandi til mikillar gleði. Helgi var kominn með 5,5 vinning eftir 8 skákir, taplaus eins og Hannes Hlífar og Hjörvar Steinn. Árangur Helga jafngildir 2486 skákstigum.

Í fyrstu umferðunum 10 tefldi íslenska liðið 40 skákir: 17 sigrar, 19 jafntefli og aðeins 4 töp.

Vel gert, og Ísland er í 27. sæti fyrir lokaumferðina og er efst á óformlegu Norðurlandamóti. Næst kemur hin lúskraða A-sveit Noregs í 39. sæti, þá B-sveit Noregs í 43. sæti.

Svíar eru í 47. sæti, Finnar í 50. sæti. Færeyingar eru í hinu heilaga 64. sæti og C-sveit Noregs er í 83. sæti…

Sigur gegn Egyptum í síðustu umferð væri frábær endapunktur á alveg hreint prýðilegt mót hjá íslenska liðinu.

Gaman verður að sjá Hannes Hlífar glíma við Bassem Amin á 1. fyrsta borði, í lokaumferðinni, enda Amin mikill Íslandsvinur og fastagestur á Reykjavíkurskákmótinu.

Já, og svo mætast Pólverjar og Kínverjar…

Ungu snillingarnir í kínverska liðinu eru í dauðafæri. Síðasta umferð Ólympíuskákmótsins er tefld á fimmtudag. Þá ræðst hvort Kína sigrar í fyrsta skipti á ólympíumóti.

 

Sjá nánar:

Lið Póllands á Ólympíuskákmótinu í Tromsö 2014

Lið Kína á Ólympíuskákmótinu í Tromsö 2014

Lið Eygptalands  á Ólympíuskákmótinu í Tromsö 2014

Lið Íslands á Ólympíuskákmótinu í Tromsö 2014

Facebook athugasemdir