Andlát: Arinbjörn Guðmundsson skákmeistari — Hann tefldi við Fischer og Tal

arinbjorn_leipzig_1960

Arinbjörn að tafli á Ólympíuskákmótinu í Leipzig. Hann náði frábærum árangri með íslenska landsliðinu.

Látinn er í Ástralíu Arinbjörn Guðmundsson skákmeistari og járnsmiður, sem var meðal bestu skákmanna Íslands milli 1955 og 1970. Hann var fulltrúi Íslands á fjórum Ólympíuskákmótum með frábærum árangri.

Arinbjörn fæddist 22. maí 1932 á Efstu-Grund undir Eyjafjöllum, sonur Guðmundar Björnssonar verkamanns frá Efstu-Grund og Guðmundu Ágústsdóttur úr Skagafirði.

Arinbjörn var orðinn 17 ára þegar hann lærði mannganginn, og var hann lærisveinn Árna Stefánssonar sem var kunnur skákkappi um miðbik síðustu aldar.

Sjaldgæft er að þeir sem læra mannganginn svo seint nái mjög langt, en þess eru þó dæmi. Þannig var Johannes Zukertort, sem tefldi fyrsta heimsmeistaraeinvígið við Steinitz 1886, kominn undir tvítugt þegar hann lærði að tefla.

Arinbjörn þótti einstaklega traustur skákmaður, eins og árangur hans á Ólympíuskákmótum er til marks um. Hann tefldi fyrst á 12. Ólympíumótinu í Moskvu 1956 sem 2. varamaður og náði 3,5 vinningi í 5 skákum. Árangurinn var ívið lakari í Munchen tveimur árum síðar, en Arinbjörn náði frábærum árangri á mótinu í Leipzig árið 1960. Þar tefldi hann á 2. borði, vann 7 skákir, gerði 9 jafntefli og tapaði ekki einni einustu. Síðasta Ólympíuskákmót Arinbjörns var í Varna 1962 og þar var árangurinn sömuleiðis prýðilegur.

arinbjorn_teikning

Teikning Halldórs Péturssonar.

Arinbjörn var um hríð í stjórn Taflfélags Reykjavíkur og átti árið 1954 þátt í endurreisn tímaritsins skákar, ásamt þeim Friðriki Ólafssyni, Einari Þ. Mathiesen og Birgi Sigurðssyni.

Arinbjörn tók þátt í flestum helstu skákmótum sem haldin voru á Íslandi á árunum 1955 til 1965, auk þess að standa sig með sóma á Norðurlandamótum. Árið 1960 náði hann 3. sæti á Minningarmóti Eggerts Gilfer á eftir Inga R. Jóhannssyni og Friðriki Ólafssyni, en á undan Norðmanninum Svein Johannessen og flestum bestu skákmönnum Íslands. Sama ár mátti Arinbjörn sætta sig við að verða neðstur fimm keppenda á skákmóti þar sem ungur og tápmikill Bobby Fischer var meðal keppenda.

Viðureign  Arinbjarnar og Fischers varð fræg, enda þótti bandaríski undradrengurinn sýna hreinræktaða skyggnigáfu í skákinni. Fischer valdi skákina í hina ódauðlegu bók sína My 60 Memorable Games.

urklippa_18_astralia_1977Árið 1964 var Arinbjörn meðal keppenda á fyrsta alþjóðlega Reykjavíkurskákmótinu, og komst þannig í tæri við sjálfan Mikail Tal. Arinbjörn mátti eins og allir — nema Guðmundur Pálmason — sætta sig við tap gegn Tal á þessu sögulega móti.

Upp úr miðbiki sjöunda áratugarins dró mjög úr taflmennsku Arinbjarnar, enda var vinnudagurinn langur, eins og hann sagði síðar frá í viðtali. Undir 1970 var kreppa á Íslandi og margir fluttu til útlanda. Flestir fóru til Norðurlanda, en sumir alla leið til Ástralíu.

Og þangað fór Arinbjörn ásamt konu sinni, Ragnheiði Bryndísi Jónsdóttur, og börnum þeirra, Kristjönu (f. 1961) og Guðmundi (f. 1962). Þau settust að í Melbourne í Ástralíu og farnaðist vel.

 

Facebook athugasemdir