Anand á sigurinn vísan í Bilbao

Heimsmeistarinn fyrrverandi, Viswanathan Anand, virðist ætla að mæta í feiknaformi í heimsmeistaraeinvígið við Magnus Carlsen ef marka má frammistöðu hans í Stórmótinu í Bilbao. Ef undan er skilið bragðdauft jafntefli gegn Levon Aronian hefur Anand verið að tefla feykilega skemmtilega og yfirspila andstæðinga sína á strategískan hátt.

Í 4. umferðinni mætti Anand aftur heimamanninum Pons Vallejo og aftur var hann lagður að velli. Vallejo reyndi að koma á óvart með sjaldgæfu afbrigði í móttteknu Drottningarbragði en Anand var með sitt á hreinu og fékk betra tafl. Anand náði yfirráðum yfir opinni línu og nýtti sér jafnframt illa stæðan riddara svarts á g6-reitnum. Stílhrein skák þar sem Vallejo átti í raun aldrei möguleika.

Anand_Paco

Miklir stöðuyfirburðir Anands, hér var stutt í algjört hrun svörtu stöðunnar

Í hinni skákinni stýrði fyrrverandi FIDE Heimsmeistarinn Ruslan Ponomariov hvítu mönnunum gegn Levon Aronian. Ponomariov beitti hinni svokölluðu Katalansbyrjun. Snemma tafls fórnaði Ponomariov peði og fékk í staðinn mikla pressu. Aronian hafði passífa stöðu og gat í raun lítið annað gert en varist og stillti upp sannkölluðum varnarvegg. Á þessum vegg var enga glufu að finna og sömdu þeir um jafntefli.

Engin leið í gegn!

Engin leið í gegn!

Þar sem þrjú stig eru gefin fyrir sigur í mótinu og eitt fyrir jafntefli þá eykur Anand enn við forystuna og hefur nú 10 stig á meðan Aronian kemur næstur með 6 stig. Anand nálgast einnig óðfluga 2800-stiga múrinn en þar hefur hann áður verið. Sigur á morgun og jafntefli í síðustu umferð myndu fleyta honum aftur yfir múrinn sem myndi vissulega líta vel út þegar hann mætir til leiks gegn Magnus Carlsen í Sochi í nóvember næstkomandi.

Facebook athugasemdir