Amman í skákinni gaf engin grið

Birna Norðdahl var orðin 56 ára þegar hún fór í fyrsta skipti til útlanda; það var árið 1975 þegar hún tefldi undir fána Íslands í Sex landa keppninni, sem svo var kölluð. Síðar átti Birna eftir að fara tvisvar til útlanda og í bæði skiptin í þágu skákgyðjunnar — á ólympíumótin í Buenos Aires og Möltu, árin 1978 og 1980. Birna átti allan heiður af því að Íslendingar sendu í fyrsta skipti kvennasveit á ólympíuskákmót og er merkur brautryðjandi í skáksögu okkar. Íslandsmeistari varð hún 1976 og 1980.

Minningarmót Birnu Norðdahl verður haldið á Reykhólum laugardaginn 20. ágúst og eru skákunnendur hvattir til að mæta og heiðra minningu þessarar merku konu, sem kölluð var ,,amman í skákinni“ — reyndar var hún orðin langamma þegar hún tefldi á Möltu 1980!

Í skák dagsins mætti hún norsku skákkonunni Mary Klingen. Birna var ekki mikið gefin fyrir jafntefli: Af sautján skákum sem varðveittar eru í einum gagnagrunni á netinu er ein jafnteflisskák! Sú norska hafði hvítt og lenti snemma í vandræðum, og reyndi að blíðka goðin með því að láta mann af hendi. Birna tefldi skákina hinsvegar mjög skemmtilega og vann laglegan sigur.

Facebook athugasemdir