Aldurhniginn Íslandsvinur í stuði

Margir af helstu skákmeisturum síðustu áratuga sitja nú að tafli í Dresden. Gullaldarliðið okkar keppir á HM skáksveita 50 ára og eldri, en fjörið er síst minna í flokki skáksveita 65 ára og eldri. Þar eru Rússar í fararbroddi, þegar tvær umferðir eru eftir. Í sveit þeirra eru kempur á borð við Evgeny Sveshnikov, Yuri Balashov og Evgeni Vasiukov. Sá síðastnefndi er aldursforseti sveitarinnar, 83 ára, og er stigahæsti stórmeistari heims yfir áttræðu með 2409 skákstig. Þegar þetta er skrifað hefur Vaisiukov teflt þrjár skákir og unnið þær allar.

Vasiukov fæddist 5. mars 1933 og var í áratugi meðal sterkustu skákmanna Sovétríkjanna, þótt hann stæði lengstum í skugganum af meisturum á borð við Smyslov, Tal, Spassky, Petrosian, Keres og Bronstein. Hann náði þó oft fantagóðum árangri og varð m.a. skákmeistari Moskvu sex sinnum á árunum 1955 til 1978 og vann einatt góða sigra á alþjóðlegum mótum.

Vasiukov var meðal keppenda á II. Reykjavíkurskákmótinu 1966 og varð í 2. sæti á eftir Friðriki Ólafssyni. Tveimur árum síðar gerði hann betur á III. Reykjavíkurskákmótinu: varð efstur ásamt landa sínum Mark Taimanov en Friðrik varð í 3. sæti. Enn tefldi Vasiukov í Reykjavík 1980 þar sem Viktor Kupreichik stal senunni.

Skák dagsins tefldi Vasiukov á sovéska meistaramótinu 1972 en þar varð hann í 6. sæti af 22 keppendum. Liðsfélagi hans í Dresden var þarna líka, en sigurvegari var hinn ástsæli Mikael Tal. Andstæðingur Vasiukovs í þessari skák var 27 ára gamall Úkraínumaður, Lev Alburt, sem sjö árum síðar flúði Sovétríkin og gerðist bandarískur ríkisborgari. Alburt var sterkur skákmaður, þótt hann lenti í neðsta sæti á sovéska meistaramótinu þar sem þessi skák var tefld. Hann var í þrígang skákmeistari Úkraínu og jafn oft varð hann skákmeistari Bandaríkjanna — og hann sigraði á Reykjavíkurskákmótinu 1982. En Vasiukov var í bílstjórasætinu í skák dagsins og Alburt gafst upp eftir 19 leiki. Takið eftir 15. leik hvíts!

Facebook athugasemdir