Áfram Búrúndí!

1. borðsmaður Búrúndí

Yves Ndikumana. Þetta er allt að koma.

Gaman er að segja frá því að allar sveitirnar á Ólympíumótinu eru komnar á blað. Sveit Búrúndí er að vísu neðst hinna rúmlega 170 keppnissveita, en getur engu að síður státað af 4-0 sigri gegn Salomons-eyjum. Búrúndí er agnarlítið land — svona fjórðungur af stærð Íslands — í suðaustanverðri Afríku. Íbúar eru rétt innan við 10 milljónir svo landið er afar þéttbýlt.

Stúlka frá Solomon eyjum

Glaðbeittur telpa á Salomons-eyjum.

Sveit Búrúndí leiðir hinn 35 ára Yves Ndikumana (2030) sem fékk 3 vinninga í 9 fyrstu umferðunum. Hann er alls búinn að tapa um 80 skákstigum, rétt eins og 3. borðs maður Búrúndí, Deo Ntagasigumwami (1817).

Deo Ntagasigumwami

Deo Ntagasigumwami. Búrúndí teflir við Swasiland í síðustu umferð í Tromsö.

En þeir Yves, Deo og félagar í sveit Búrúndí höfðu sem sagt ástæðu til að gleðjast þegar þeir mættu liði Salomons-eyja, sem eru í Kyrrahafinu og rata einkum í fréttir á Íslandi vegna tíðra jarðskjálfta. Eyjamenn byrjuðu illa á mótinu, og höfðu aðeins náð í 1 vinning af 20 mögulegum í fyrstu 5 umferðunum. Eftir afhroðið gegn Búrúndí hafa þeir hinsvegar bitið í skjaldarrendur og gert jafntefli við 3 þjóðir.

Hér er skák sem Búrúndí-maðurinn Yves Ndikumana tefldi gegn Hernandez (1845) frá Palau í Vestur-Kyrrahafi. Íbúar Palau eru aðeins um 20 þúsund, en er plássið ekki mikið, rétt um 460 ferkílómetrar. Áfram Búrúndí!

Facebook athugasemdir