Hrafn, Guðni forseti, Bergsteinn í UNICEF og Róbert eftir velheppnað maraþon 2018 í þágu barna í Jemen.

Afmælismót Hróksins í Ráðhúsi Reykjavíkur 14.-15. September 

Fatasöfnun Hróksins í þágu barna á Grænlandi hefur staðið síðan 2014. Verndari söfnunarinnar er Vigdís Finnbogadóttir fv. forseti Íslands.

Hrókurinn 20 ára:

Í næstu viku eru 20 ár frá stofnun Skákfélagsins Hróksins, og verður því fagnað með margvíslegum hætti, jafnt á Íslandi sem Grænlandi. Dagana 14. og 15. september verður Afmælismót Hróksins í Ráðhúsi Reykjavíkur, og meðal keppenda eru flestir bestu skákmenn landsins af báðum kynjum, gamlir liðsmenn Hróksins af Íslandsmóti skákfélaga og ýmsir vinir og samferðamenn. Heiðursgestur mótsins er stórmeistarinn Regina Pokorna, sem tefldi með hinum sigursælu sveitum Hróksins á sínum tíma.

Meðal keppenda í Ráðhúsinu verða stórmeistararnir Jóhann Hjartarson, Hannes Hlífar Stefansson, Helgi Ólafsson, Helgi Á. Grétarsson, Bragi Þorfinnsson og Þröstur Þórhallsson, auk landsliðsmannsins Guðmundar Kjartanssonar, og fjölda annarra sterkra skákmanna. Þá munu margar bestu skákkonur landsins taka þátt í afmælismótinu, m.a. Lenka Ptacnikova, Guðlaug Unnur Þorsteinsdóttir, Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir, Jóhanna Björg Jóhannsdóttir og Nansý Davíðsdóttir.

Afmælismótið hefst með setningarathöfn í Ráðhúsinu föstudaginn 14. september klukkan 17. Dóra Björt Guðjónsdóttir forseti borgarstjórnar flytur setningarávarp, og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra leikur fyrsta leikinn. Þá mun hópur grænlenskra barna syngja við setningarathöfnina. Verðlaunafé á mótinu nemur 3000 evrum, en að auki er fjöldi sérverðlauna í hinum ýmsu flokkum.

Hrókurinn hefur komið víða á 20 árum, og nýtt marga farkosti í þágu málstaðarins. Myndin er frá Grænlandi. (1)

Skákfélagið Hrókurinn var upphaflega stofnað á veitingastaðnum Grandrokk, með það yfirlýsta markmið að senda lið til keppni í 4. deild Íslandsmóts skákfélaga, og vinna sig rakleitt á toppinn á minnsta mögulega tíma. Það tókst og Hrókurinn varð Íslandsmeistari skákfélaga 2002, 2003 og 2004. Á þessum árum hélt félagið jafnframt fjölda alþjóðlegra móta.

Árið 2004 ákváðu Hróksliðar að einbeita sér alfarið að útbreiðslu skáklistarinnar á Íslandi og Grænlandi, og fóru næstu árin í þúsundir skólaheimsókna um allt land, og dreifðu skákbókinni Skák og mát til fimm árganga þriðju bekkingu, alls 25.000 eintökum.

Katrín Jakobsdóttir leikur fyrsta leikinn á Afmælismóti Hróksins í Ráðhúsinu. Hér í maraþoni Hróksins í vor.

Skáklandnámið á Grænlandi hófst 2003 og sama ár hófust vikulegar heimsóknir Hróksliða í Hringinn, og umfangsmikið starf meðal fólks með geðraskanir. Hróksmenn stóðu að stofnun Vinaskákfélagsins í Vin, fræðslu- og batasetri Rauða krossins í Reykjavík, sem síðan hefur blómstrað og dafnað.

Í gegnum 20 ára sögu hefur Hrókurinn heimsótt öll sveitarfélög á Íslandi og staðið fyrir ótal viðburðum, jafnt í skólum, athvörfum, fangelsum, sjúkrahúsum, dvalarheimilinum aldraðra og víðar, undir kjörorðum félagsins: Við erum ein fjölskylda.

Miðvikudaginn 12. september, þegar rétt 20 ár eru liðin frá stofnun Hróksins, mun hefjast hátíð í Kullorsuaq, á norðvesturströnd Grænlands. Kullorsuaq er 450 manna bær, sem fagnar 90 ára afmæli á þessu ári. Með í för verða sirkuslistamenn og skákkennari, auk þess sem efnt verður til listsmiðju fyrir börnin í bænum.

Facebook athugasemdir