Afhroð Kasparovs í Tromsö: Maðurinn sem var numinn brott af geimverum áfram forseti FIDE

kasparov2014_title010

Kasparov lagði fram metnaðarfulla stefnuskrá og lofaði að útvega 10 milljónir dollara til eflingar skák í heiminum. Kirsan var ekki seinn til svars — hann lofaði 20 milljónum…

Garry Kasparov beið mikinn ósigur gegn Kirsan Ilyumzhinov í forsetakosningum í FIDE, alþjóðaskáksambandinu, sem fram fóru í Tromsö á mánudag. Ilyumzhinov, sem verið hefur forseti FIDE síðan 1995, fékk 101 atkvæði en Kasparov 61.

Þetta er þriðja atlagan sem gerð er að forsetanum. Áður höfðu Bessel Kok, hollenskur kaupsýslumaður og skákfrömuður, og Anatoly Karpov fv. heimsmeistari farið flatt á tilraunum til að fella forsetann, sem virðist ósigrandi. Hann sigraði Kok með 42 atkvæða mun 2006 og Karpov með 40 atkvæðum 2010.

aliens

Kirsan hefur sagt að geimverurnar hafi upplýst hann um hinstu rök tilverunnar.

Ilyumzhinov, sem yfirleitt er bara kallaður Kirsan, er frá rússneska sjálfsstjórnarhéraðinu Kalmykíu. Kirsan varð forseti Kalmykíu 1993, þá 31 árs að aldri, og hélt embættinu til 2010. Hann auðgaðist vel í forsetatíð sinni, og var mjög handgenginn Pútín Rússlandsforseta.

Kirsan hefur greint frá því í bók, að hann hafi verið numinn brott af geimverum sem tóku hann í siglingu um háloftin og trúðu honum fyrir hinstu rökum tilverunnar.

Úrslitin í Tromsö eru Kasparov mikið áfall, en á sama hátt er líklegt að skálað verði í Kreml. Rússnesk sendiráð, vítt og breitt um heiminn, tóku virkan þátt í kosningabaráttu Kirsans. Þannig hefur Gunnar Björnsson forseti Skáksambandsins upplýst að rússneskur sendiráðsstarfsmaður hafi hringt til að spyrjast fyrir um afstöðu SÍ. Sá rússneski fékk þau svör að Íslendingar styddu Kasparov heilshugar.

kirsan og pútín

Besti vinur aðal. Mjög náið samband er á milli Kirsan og Pútíns. Kirsan var við völd í rússneska lýðveldinu Kalmykíu í 17 ár og auðgaðist vel…

Kirsan hefur nú tryggt embætti sitt næstu 4 árin. Stórsigur hans gegn Kasparov gefur honum byr undir báða vængi. Hann hefur yfirburðafylgi í öllum heimsálfum nema Evrópu, en jafnvel þar er drjúgur stuðningur við lærisvein geimveranna.

Kasparov er ekki vanur að tapa. Í viðtali hér á síðunni sagði Dirk Jan Ten Geuzendam, ritstjóri New in Chess, að það hefði verið ,,svakaleg reynsla“ að taka viðtal við Kasparov strax eftir að hann tapaði heimsmeistaratitlinum til Kramniks árið 2000.

Ósigurinn í Tromsö er þó ennþá beiskari, enda lagði Kasparov mikið undir í kosningabaráttunni. Hann hafði með sér úrvalsfólk úr öllum heimsálfum, ferðaðist út um allar koppagrundir og lagði fram afar metnaðarfulla stefnuskrá.

En það dugði ekki til: Kirsan er óhagganlegur og Kasparov bryður járn.

[slideshow_deploy id=’1381′]

Facebook athugasemdir