Af því ég er Bogoljubov!

Efim Dimitrievich Bogoljubov fæddist 14. apríl 1889 í Kænugarði, sem tilheyrði rússneska keisaraveldinu. Hann var hreint ekkert undrabarn í skákinni en kleif metorðastigann hægt og bítandi. Þegar fyrri heimsstyrjöldin hófst 1914 sat Bogoljubov að tafli á skákmóti í Mannheim í Þýskalandi og var kyrrsettur ásamt tíu öðrum rússneskum skákmönnum. Fjórum var sleppt um haustið (þeirra á meðal Alekhine) en Bogoljubov eyddi stríðsárunum í Þýskalandi þar sem rússnesku félagarnir héldu hvert skákmótið á fætur öðru.

Þegar stríðinu lauk 1918 var Bogoljubov að verða þrítugur og í hönd fóru hans bestu ár. Kommúnistar höfðu steypt Rússakeisara þegar Boboljubov sneri heim á leið og hann varð í tvígang skákmeistari Sovétríkjanna, 1924 og 1925. Og það var í Mosvku 1925 sem hann vann sinn stærsta sigur — varð efstur á gríðarsterku móti þar sem Lasker og Capablanca voru meðal keppenda. Meistarinn frá Kænugarði hlaut 15,5 vinning af 20 mögulegum og var 1,5 vinningi á undan Lasker.

Bogoljubov var hylltur sem hetja í Sovétríkjunum, en sú dýrð stóð ekki lengi, því hann sneri aftur til Þýskalands og var umsvifalaust úthrópaður sem svikari við málstað öreiganna.

Eftir að Alekhine náði heimsmeistaratitlinum af Capablanca 1927 leitaði kúbverski meistarinn allra leiða til knýja fram annað einvígi, sem hinn slóttugi Alekhine vildi fyrir alla muni forðast. Í staðinn tefldi Alekhine tvö einvígi við Bogoljubov og sigraði sannfærandi í þeim báðum.

Meðan á seinni heimsstyrjöldinni stóð tók Bogoljubov þátt í fjölmörgum skákþingum í ríki Hitlers, og það varð til þess að hann var sniðgenginn þegar FIDE úthlutaði fyrstu stórmeistaratitlunum árið 1950. Öllum var þó ljóst að ekki var hægt að neita manni sem í tvígang hafði teflt um æðstu krúnuna um stórmeistaratign, og Bogoljubov var því sæmdur titlinum 1951. Hann dó árið eftir.

Efim Dimitrievich skorti ekki sjálfstraust og eftir honum eru höfð hin fleygu orð: ,,Þegar ég hef hvítt sigra ég, af því ég hef hvítt. Þegar ég hef svart sigra ég, af því ég er Bogoljubov.“

Skák dagsins tefldi okkar maður við Austurríkismanninn Hans Müller í Triberg 1934, og er gott dæmi um skemmtilegan skákstíl Bogoljubovs.

Facebook athugasemdir