Æsispennandi Ólympíuskákmót: Kramnik jarðar erkióvininn — Íslendingar mala blinda

olympiad-round-5-212

Númer 1 og 2 takast í hendur. Aronian saumaði að Carlsen, sem stóðst allt ráðabrugg og niðurstaðan var jafntefli.

Fimmta umferðin á Ólympíuskákmótinu í Tromsö var æsispennandi og dramatísk. Tveir stigahæstu skákmenn heims mættust í viðureign Noregs og Armeníu. Þar átti heimsmeistarinn Carlsen í vök að verjast gegn Aronian, en niðurstaðan varð jafntefli. Vladimir Kramnik var hinsvegar  í engum jafnteflishugleiðingum þegar hann settist niður á móti erkióvini sínum, Veselin Topalov frá Búlgaríu. Þeir tókust ekki í hendur við upphaf skákarinnar, en svo bókstaflega jarðaði Kramnik andstæðing sinn.

Næstum 180 skáksveitir tefla í opnum flokki á Ólympíuskákmótinu. Í hverri sveit eru fjórir keppendur, auk varamanns. Fyrir sigur í viðureign fást 2 stig, 1 fyrir jafntefli og 0 fyrir tap.

Sjö þjóðir eru efstar og jafnar eftir 5 umferðir, með 9 stig af 10 mögulegum: Azerbæjan, Serbía, Kazakstan, Búlgaría, Kúba, Úsbekistan og Georgía.

Wei Yi

Wei Yi. Yngstur í ungu liði Kínverja sem hefur farið á kostum. Hann varð stórmeistari á N1 Reykjavíkurskákmótinu í fyrra, þá 14 ára.

Þarna eru sem sagt fjögur gömul Sovétlýðveldi, en stóru nöfnin vantar: Rússland, Kína, Úkraína, að ekki sé minnst á ríkjandi Ólympíumeistara Armena, sem verða að láta sér lynda 17. sætið í augnablikinu.

Íslenska sveitin hefur staðið sig í samræmi við væntingar og hefur nú 6 stig af 10 mögulegum og er í 45. sæti. Í fimmtu umferð mættu okkar menn skáksveit Alþjóðasambands blindra og sjónskertra, og höfðu öruggan sigur.

Gaman er að segja frá því að Íslendingar mæta Færeyingum í 6. umferð, en frændur okkar hafa staðið sig með miklum ágætum á mótinu.

Fimmta umferðin einkenndist af mikilli baráttu á efstu borðum, enda fara línur nú að skýrast. Rússar eða Kínverjar verða að teljast líklegastir til að sigra á mótinu. Kínverjar tefla fram ungum snillingum á öllum borðum, en Rússarnir eru allir þrautreyndir ofurstórmeistarar.

ivanchuk01

Eitthvað mikið að. Ivanchuk er illa fyrir kallaður og hefur aðeins 1 vinning eftir fjórar skákir með Úkraínu.

Armenar báru sigurorð af Norðmönnum, og halda sig þannig í námunda við toppinn. Firnasterkt lið Úkraínu er heillum horfið, einkum þó sjálfur Ivanchuk, sem aðeins hefur fengið 1 vinning af 4 á efsta borði. Í fimmtu umferðinni tapaði Ivanchuk fyrir Úsbekanum Rustam Kasimzhanov. Úkraínska sveitin, sem er sú næststigahæsta á mótinu, er aðeins í 28. sæti.

Fjöldi skemmtilegra viðureigna var í boði. Englendingar og Víetnamar gerðu 2-2 jafntefli, þar sem jálkurinn Adams vann unga snillinginn Le, en Huginsmeistarinn Jones tapaði á 2. borði. Mikil spenna var í viðureign Kanada og Bandaríkjanna, og stóðu mun stigalægri Kanadamenn til sigurs um tíma í einvíginu. Bandaríska sveitin hefur ekki byrjað vel, sér í lagi hefur Gata Kamsky brugðist, auk þess sem Nakamura hefur ekki dottið í gír.

Það er líka saga til næsta bæjar að Þjóðverjar urðu að sætta sig við 2-2 jafntefli gegn Katar, en léttleikandi Frakkar spændu í sig Argentínumenn, Ulf Andersson þjálfara þeirra til lítillar gleði.

Valentin Iotov

Óvænt stjarna. Búlgarski stórmeistarinn Valentin Iotov hefur sigrað í öllum 5 skákum sínum. Lagði Karjakin og tryggði jafntefli gegn Rússum. Arftaki Topalovs?

Kjörorð skákhreyfingarinnar á vel við á Ólympíuskákmótinu: Við erum ein fjölskylda. Harðsnúin sveit frá Kúbu skellti ofurstórmeisturum Ísraels, og Palestína lagði Tævan…

Sá einstaklingur sem hefur náð bestum árangri hingað til er ungur búlgarskur stórmeistari, Valentin Iotov að nafni. Hann hefur 2553 skákstig, en hefur teflt eins og berserkur og unnið allar 5 skákir sínar. Í fimmtu umferðinni sigraði hann sjálfan Karjakin og tryggði þannig Búlgaríu jafntefli gegn Rússum.

Allt stefnir í háspennu í kvennaflokknum líka. Þar eru þrjár þjóðir efstar eftir 5 umferðir með fullt hús, eða 10 stig. Þetta er Kína, Ungverjaland og Rússland, næst koma Holland og Pólland með 9.

Íslenska kvennasveitin er 51. sæti með 6 stig af 10 mögulegum.

Framundan eru sex æsispennandi umferðir. Við fylgjumst áfram með veislunnii!

Nánar:

Staðan á Ólympíuskákmótinu 

Heimasíða Ólympíuskákmótsins: Úrslit 5. umferðar 

Facebook athugasemdir