Æsispennandi Íslandsmót skákfélaga: TR í efsta sæti — fjögur lið eiga enn möguleika á Íslandsmeistaratitlinum!

Taflfélag Reykjavíkur er í efsta sæti 1. deildar á Íslandsmóti skákfélaga eftir 4 umferðir af 9. TR, sem er sigursælasta skákfélagið í sögu Íslandsmótsins, gjörsigraði Skákfélag Reykjanesbæjar í 4. umferð, 7-1.Huginn er í 2. sæti eftir 7-1 sigur á Víkingaklúbbnum. Fjórða umferðin einkenndist af stórsigrum:Taflfélag Vestmannaeyja sigraði Skákfélag Íslands 7,5-0,5, Fjölnir vann Bolungarvík 5,5-2,5 og B-sveit Hugsins vann Akureyri með sama mun.

Íslandsmótið hefur farið mjög vel af stað og allt stefnir í að baráttan verði ekki síður spennandi en í fótboltanum. TR, Huginn, Fjölnir og Vestmannaeyjar munu berjast um gullið.

Fallbaráttan er ekki síður tvísýn. Tvö lið falla úr 1. deild, og þar verður hörkubarátta milli Víkingaklúbbsins, Reykjanesbæjar og Skákfélags Íslands.

Líklegt er að Bolungarvík, Akureyri og B-sveit Hugsins sigli nokkuð lygnan sjó um miðbik deildarinnar.

1stDiv4Rnds2014

Íslandsmót skákfélaga er fjölmennasta skákmót ársins, og einskonar uppskeruhátíð skákmanna, hvaðanæva að af landinu. Keppendur eru á fjórða hundrað og erlendir meistarar setja mikinn svip á mótið. Alls eru keppendur af tólf þjóðernum.

Stigahæstur allra er Búlgarinn Ivan Cheparinov (2681) sem teflir fyrir Hugin, en alls hafa 20 stórmeistarar tekið þátt í Íslandsmótinu til þessa. Í þeim hópi eru flestir íslensku stórmeistararnir. Stigahæsti skákmaður Íslands, Jóhann Hjartarson (2571), teflir fyrir Bolungarvík.

Tveir skákmenn í 1. deild hafa unnið allar 4 skákir sínar: alþjóðameistarinn Jón Viktor Gunnarsson (2426) sem teflir fyrir TR og hinn ungi og bráðefnilegi Dagur Ragnarsson (2154) sem teflir með Fjölni. Dagur er búinn að hala inn næstum 50 skákstig í fyrstu umferðunum!

Keppnin í 2. deild er afar tvísýn. Taflfélag Garðabæjar er í efsta sæti eftir 3 umferðir með 13 vinninga, TR-b er í 2. sæti með 12 vinninga, og síðan koma Vinaskákfélagið og Akureyri-b með 11.

2ndDiv3rnds2014

Í 3. deild keppa 15 lið og þar er TR-c í efsta sæti, næst koma Skákfélag Selfoss og nágrennis og Ungmennasamband Borgarfjarðar.

3rdDivRnd32014

TR-ingar geta sannarlega vel við unað, því þeir eru líka efstir í 4. deild, en þar keppa 17 lið. TR-d er í efsta sæti, næst koma Skákfélag Siglufjarðar, Skákgengið, Skákfélag Sauðárkróks og Vinaskákfélagið-b.

4thDiv3rnds2014

Síðasta umferð fyrri hluta Íslandsmótsins hefst í Rimaskóla klukkan 11 á sunnudag. Skákáhugamenn eru hvattir til að koma og fylgjast með frábærri veislu!

Fleiri myndir frá helginni:

[slideshow_deploy id=’3652′]

Facebook athugasemdir