Jón Þorvaldsson sigraði á Grænlandsmótinu í Vin

Jón Þorvaldsson og Magnús Magnússon urðu efstir og jafnir á Grænlandsmótinu, sem Vinaskákfélagið og Hrókurinn efndu til í dag. Þeir hlutu 5 vinninga af 6 mögulegum, en Jón var lítið eitt hærri á stigum og hreppti því efsta sætið. Gunnar Freyr Rúnarsson hreppti bronsið með 4,5 vinning. Keppendur á þessu bráðskemmtilega skákmóti voru alls 16.

IMG 9607IMG 9622Hrafn Jökulsson bauð keppendur og gesti velkomna, en heiðursgestur mótsins var Vigdís Hauksdóttir formaður fjárlaganefndar Alþingis og meðlimur í Vest-norræna þingmannaráðinu. Hrafn sagði frá starfinu í Vin, landnámi Hróksins á Grænlandi og því blómlega starfi sem unnið er meðal barna og ungmenna á vegum Skákakademíunnar, taflfélaganna og Skáksambandsins.

Hann benti viðstöddum á að Vigdís kynni margt fyrir sér í skáklistinni, enda gamall skólameistari og hefði auk þess fyrir fáum misserum lagt Flovin Þór Næs og Jón Viktor Gunnarsson að velli í fjöltefli.

IMG 9625Vigdís þakkaði það tækifæri að fá að heimsækja Vin, og lýsti  mikilli hrifningu á því starfi sem unnið er meðal barna og ungmenna í íslensku skáklífi. Skákkunnátta hefði mjög jákvæð áhrif á námsárangur, og væri auk þess gagnleg í daglegu lífi, ekki síst stjórnmálamanna, sem stundum þyrftu að hugsa marga  leiki fram í tímann!

Þá sagði Vigdís að hún hefði nýlega komið til Grænlands í fyrsta skipti og heillast algjörlega af þessu stórbrotna landi. Áður en Vigdís lék fyrsta leikinn fyrir Bjarna Hjartarson tók hún við skákkverinu góða á grænlensku sem Siguringi Sigurjónsson stendur að, póstkortum af starfi Hróksins frá Grænlandi og ægifögrum grænlenskum steini.

Efstu menn fengu allir bækur um norðurslóðir frá Bókinni, Klapparstíg, húfur frá Flugfélagi Íslands síðast en ekki og eðalsteina frá Grænlandi, en þar er elsta berg í heimi, um fjögurra milljarða ára. Hörður Jónasson, hinn knái liðsmaður Vinaskákfélagsins, annaðist verðlaunaafhendingu og skákstjóri var Stefán Bergsson.

Í mótslok var Siguringi Sigurjónsson heiðraður, en grænlenska skákkverinu hans hefur þegar verið dreift í þúsund eintökum á Grænlandi!

Myndaalbúm frá Grænlandsmótinu í Vin 

Úrslit Grænlandsmótsins í Vin 

 

Facebook athugasemdir