Tími Asíu runninn upp:  Kínverjar vinna glæsilegan sigur á Ólympíumótinu í Tromsö! Indverjar með brons — keppandi lést í lokaumferðinni

Það var skrifað í stjörnurnar: Ungu, kínversku snillingarnir unnu glæsilegan sigur á 41. Ólympíuskákmótinu í Tromsö. Ungverjar hrepptu silfrið og Indverjar náðu bronsinu mjög óvænt. Ísland tapaði illa fyrir Egyptalandi og endaði í 39. sæti af um 180.

Sorgarfréttir voru að berast frá Tromsö:

Á fimmtudagskvöld var greint frá því í fréttum að keppandi frá Seychelles-eyjum hefði hnigið niður á lokadegi mótsins. Hann var fluttur á spítala og úrskurðaður látinn.  Hann hét Kurt Meier, ættaður frá Sviss. Hans var minnst með einnar mínútu þögn við verðlaunaafhendingu.

Norskir fjölmiðlar greina frá því að uppnám hafi á orðið á skákstað. Mótið var stöðvað en ringulreið varð þegar maður kom hlaupandi með hjartastuðtæki, þar sem einhverjir viðstaddra töldu að hann væri vopnaður.

Sviplegur endir á glæsilegustu skákveislu, sem haldin hefur verið fyrir norðan heimsskautsbaug.

—–

Í fyrsta skipti í manna minnum er ekkert af gömlu Sovétlýðveldunum á verðlaunapalli. Á síðasta ólympíuskákmóti unnu Armenar gullið, Rússar silfrið og Úkraínumenn bronsið.

Yue Wang (Kína)

Yue Wang. Ólympíumeistari án þess að vinna skák!

Armenar komust aldrei í gang og lentu í 8. sæti, ofursveit Rússa var ósannfærandi en náði 4. sæti og Úkraínumenn, með brokkgengan Ivanchuk í broddi fylkingar enduðu í 6. sæti.

En lítum nú á sveit nýju ólympíumeistaranna.

Á 1. borði tefldi hinn 27 ára gamli Yue Wang (2718) 9 skákir — og vann ekki eina einustu! Þetta kallar á rannsókn á því hvort 1. borðsmaður ólympíumeistara hefur nokkru sinni áður farið í gegnum mótið án þessa að vinna skák. Wang gerði 8 jafntefli og tapaði einni skák, fyrir ungverska jötninum Peter Leko (2740). Þetta var eina tapskák Kínverja á mótinu.

Liren Ding (Kína)

Liren Ding er 21 árs og stigahæsti skákmaður Kínverja. Tefldi á 2. borði í Tromsö og stóð sig afbragðs vel.

Wang fékk að glíma við nokkra af bestu skákmönnum heims, og gerði t.d. jafntefli við Kramnik (2760), Giri (2745), Ivanchuk (2744) og Vachier-Lagrave (2768). Árangur hans jafngildir 2673 skákstigum.

Engu skipti þótt Wang væri ekki beinlínis á skotskónum í Tromsö: Félagar hans í liðinu rökuðu saman vinningum.

Kínverjar stilltu Liren Ding (2745) upp á 2. borði, en hann er stigahæsti skákmaður þeirra, aðeins 21 árs að aldri. Hann tefldi 10 skákir, vann 5 og gerði 5 jafntefli. Meðal fórnarlamba hans voru hinn ungverski Balogh (2637), Perunuvic (2602) frá Serbíu — og auðvitað Pólverjinn Gajevski (2659) í lokaumferðinni. Ding gerði jafntefli við garpa á borð við Grischuk (2795), Radjabov (2724) og Bacrot (2720).

R11_Yangyi_Yu_China_069

Yu Yangyi tefldi allar og náði stjarnfræðilegum árangri, 9,5 af 11.

Og þá erum við komin að stjörnu Ólympíuskákmótsins í Tromsö: Yu Yangyi. Þessi tvítugi töfradrengur tefldi í hverri einustu umferð og fékk 9,5 vinning af 11 mögulegum. Stjarnfræðilegur árangur upp á heil 2912 skákstig, og bestur árangur einstaklings á mótinu. Og það sem meira er: Yu tekur með sér 32 skákstig frá Noregi og er nú kominn að brún 2700 stiga múrsins.

Yu tefldi 11 skákir, vann 8 og gerði 3 jafntefli. Hann sigraði meðal annars Ungverjann Almasi (2690), Frakkann Fressinet (2708), Þjóðverjann Markus (2602) og nú síðast Pólverjann Duda (2576), þar semYu tefldi að vanda af mikilli dirfsku og snilld. Yu hefur nú slegið rækilega og eftirminnilega í gegn í skákheiminum og Carlsen ætti að bæta honum á listann yfir hugsanlega keppinauta á næstu árum…

Ni Hua (Kína)

Aldursforseti Ólympíumeistaranna. Ni Hua, 31 árs.

Á 4. borði var aldursforseti kínverska liðsins, Ni Hua, 31 árs. Hann var fyrst í ólympíuliði Kínverja í Istanbul árið 2002 og fékk þá 5,5 vinning af 9. Hann gerði betur í Tromsö: Vann 4 skákir, gerði 5 jafntefli og tapaði engri. Árangur upp á 2723 stig. Ni vann mjög mikilvægan sigur á Gusenov (2613) þegar Kínverjar hristu af sér Azera í 8. umferð. Hann gerði jafntefli við Rapport (2704), Karjakin (2786) og fleiri öfluga meistara.
Og þá erum við komin að varamanninum — sem Carlsen er alveg örugglega með á listanum sínum:

Hinn 15 ára gamli Wei Yi (2638) tefldi 5 skákir — vann 3 og gerði 2 jafntefli. Árangurinn jafngildir 2730 skákstigum, sem sýnir glöggt hæfileika hans. Hann lagði m.a. serbneska stórmeistarann Indjic (2539) og gerði jafntefli við Hollendinginn Van Kampen (2638) og úkraínska ofurmeistarann Moiseenko (2707). Wei er annar yngsti gullverðlaunahafi sögunnar, aðeins Sergei Karjakin hefur gert betur, en hann var 14 ára gamall þegar að hann vann gullið með Úkraínu.

[slideshow_deploy id=’1754′] (Myndir SP)

ungv_silfur

Drottningin kvaddi með silfri. Ungverjar unnu langþráð verðlaun. Judit Polgar var í liðinu og tefldi sína síðustu skák sem atvinnumaður í Tromsö.

 

Helsta stjarna silfurliðs Ungverja var Balogh (2637) sem tefldi á 2. borði og fékk 7 vinninga af 9 mögulegum. Þessi 27 ára stórmeistari sigraði m.a. Sargissian (2686) og Rodshtein (2671) og gerði jafntefli við Eljanov (2723). Árangur Baloghs jafngildir 2839 stigum.

1. borðs maður Ungverja, Peter Leko, fékk 5 vinninga af 10. Hann sigraði Wang, eins og kom fram hér áðan, en tapaði fyrir Aronian (2805).

Samuel L Shankland (Bandaríkin)

Samuel L. Shankland

Mótsins verður líka minnst sem síðasta skákmóts Juditar Polgar, sem ætlar nú að hætta atvinnumennsku í skák, eftir 25 ár á toppnum. Judit tefldi 6 skákir í Tromsö. Hún vann stigalægri andstæðinga í fyrstu 4 skákunum, gerði jafntefli við Akopian (2655) en tapaði svo fyrir bandaríska meistaranum Shankland (2624) sem fór með himinskautum á mótinu, fékk 9 vinninga í 10 skákum.

Fyrst við minnumst á bandaríska liðið: Shankland var með stöðu varamanns í bandarísku sveitinni, en tefldi flestar skákir af öllum í liðinu. Frammistaða hans bjargaði því sem bjargað varð hjá Bandaríkjamönnum: Kamsky (2706) tefldi skelfilega á 2. borði og fékk aðeins 3,5 vinning í 9 skákum. Trúlega var þetta síðasta ólympíuskákmót Kamskys, sem hefur sterklega gefið til kynna að hann hyggist hætta atvinnumennsku innan tíðar.

[slideshow_deploy id=’1592′]

 

En þetta var útúrdúr: Við eigum alveg eftir að tala um bronslið Indverja. Þeir hirtu 3. sætið með því að skilja sterka sveit Úsbeka eftir í vegkantinum í síðustu umferð.

Þetta eru fyrstu verðlaun Indverja á ólympíumóti og þau eru sérlega sæt fyrir þessa miklu skákþjóð. Anand sat heima og enginn af liðsmönnum Indverja hefur náð 2700 skákstigum. ,,Gamla“ undrabarnið Negi (2645) fór fyrir þéttri sveit, og var mjög öruggur á 1. borði. Allir í indversku sveitinni skiluðu sínu með sóma, og óvæntur árangur þeirra fyrst og fremst sigur liðsheildarinnar.

BvA8qU0CYAAHZ56

Það tókst. Rússnesku stúlkurnar fengu sitt gull, þótt nýja stjarnan þeirra á 1. borði hafi ekki brillerað. Rússar ,,stálu“ Katarynu Lagno frá Úkraínu nú í vor. Mjög viðkvæmt mál, eins og gefur að skilja.

Ísland, já. Við biðum mikinn ósigur gegn Egyptum, þar sem Hjörvar Steinn Grétarsson náði hálfum vinningi í hús. Hannes Hlífar Stefánsson, Þröstur Þórhallsson og Helgi Ólafsson töpuðu. Þetta voru fyrstu tapskákir Hannesar og Helga á mótinu. Ísland endaði í 39. sæti. Við fjöllum nánar um frammistöðu íslenska liðsins á næstunni.

Rússnesku stúlkurnar unnu gullið í kvennaflokki, eins og við var búist. Kína varð í 2. sæti og Úkraína í 3. sæti.

Kvennasveitin okkar sló hressilegan botn í mótið með því að bursta Jamæka, 3,5-0,5. Íslenska sveitin endaði í 55. sæti af rúmlega 130.

Glæsilegri veislu er lokið.

Kínversku drekarnir rokka!

Lokastaðan á 41. Ólympíuskákmótinu í Tromsö 2014

Lokastaðan í kvennaflokki

[slideshow_deploy id=’1749′]

Facebook athugasemdir