Hann fæddist árið 1912 og var af Tataraættum frá Kasakstan, varð munaðarlaus í bernsku og var alinn af bróður sínum í sárri fátækt.
Rashid Nezhmetdinov lærði mannganginn með því að horfa á aðra tefla, og sýndi strax afburða hæfileika. Þetta var á þeim tímum þegar veldi Sovétríkjanna var nánast algert í skákheimum: Botvinnik, Tal, Spassky, Petrosjan, Smyslov, Korchnoj, Keres…
Aðeins útvaldir fengu að tefla utan Sovétríkjanna og Nezhmetdinov komst aldrei í þann hóp. Hann varð 5 sinnum Rússlandsmeistari í skák, sem var mikið afrek.
Hann þótti einhver mesti sóknarskákmaður allra tíma, og örugglega hefur Tal margt af honum lært. Þessir tveir miklu sóknarskákmenn tefldu 4 kappskákir, og þar fór 3-1 fyrir Nezhmetdinov.
Skák dagsins tefldu þeir á sjálfu Skákþingi Sovétríkjanna 1961. Nezhmetdinov hefur hvítt og fórnar á báðar hendur. Frábær skemmtun!