Taskent: Þrír sigrar í fyrstu umferð – Vachier-Lagrave lagði Caruana

Sigurvegarar dagsins: Hikaru Nakamura, Vachier-Lagrave og Dmitry Andrekin

Sigurvegarar dagsins: Hikaru Nakamura, Maxime Vachier-Lagrave og Dmitry Andreikin

Grand Prix mótasyrpa Alþjóðaskáksambandsins er í fullum gangi þessa dagana. Mótinu í Baku í Asjerbæjan er rétt lokið þegar næsta umferð hófst í Taskent, höfuðborg Úsbekistan og fæðingarborg Rustam Kasimdzhanov, fyrrv. FIDE-heimsmeistara.

Teflt er kl. 14:00 að staðartíma sem mun vera 09:00 að íslenskum tíma skv. rannsókn höfundar.

Keppendalistinn er nokkuð breyttur frá Baku en fjórum hefur verið skipt út af alls tólf. Keppendur eru:

Hikaru Nakamura (2764), Dmitry Andreikin (2722), Sergey Karjakin (2767), Boris Gelfand (2748), Teimor Radjabov (2726), Rustam Kasimdzhanov (2706), Fabiano Luigi Caruana (2844) og Shakhriyar Mamedyarov (2764)

Ofantaldir voru einnig með í Baku og nýir eru:

Maxime Vachier-Lagrave (2757), Anish Giri (2768), Dmitry Jakovenko (2747), Baadur Jobava (2717).

Þremur viðureignum lauk með afgerandi hætti í fyrstu umferð, sem tefld var í dag. Bar þar hæst að frakkinn Maxime Vachier-Lagrave gerði sér lítið fyrir og skellti Ítalanum Caruana — og það með svörtu!

Umræðan um velgengni Ítalans hefur kúvent og snýst nú meira um lægðina sem hann virðist vera í, en hann hefur  tapað 19 Elo-stigum í síðustu sex skákum. Skemmst er að minnast þess að Caruana rauf 2800 stiga múrinn í fyrsta sinn á september listanum og tókst við það á mikið flug og var með 2844 stig þann 1. október .

Hann lét ekki þar við sitja heldur komst hann alla leið í 2851 Elo-stig eftir góða byrjun í Baku í byrjun október, en síðan þá virðist hann lentur í svartholi sem enginn veit hvar endar. Trúlega er hann orðinn lúinn, en hann hefur teflt nærri hvíldarlaust í hverju mótinu á fætur öðru síðan í júní.

Capture

Hikaru Nakamura landaði öruggum sigri gegn Jobava sem tefldi nokkuð hvasst. Svartur átti sér ekki viðreisnarvon  eftir 28..Dxc1, en hefði átt ágæta möguleika með 28..De5.

Dmitry Andreikin tókst með herkjum að landa sigri gegn Shakhryar Mamedyarov eftir að hafa verið með nærri tapaða stöðu eftir aðeins 19 leiki. Shakhriyar hélt frumkvæðinu lengi vel en brást bogalistin í 37. leik þegar hann gat leikið Rd6 – Aftur gat hann náð yfirhöndinni með 40. Hb6 en hann kærði sig ekki um það og Dmitry þjarmaði að honum þar til stíflan brast.

Öðrum skákum lauk með jafntefli.

Facebook athugasemdir