Stórtíðindi í Tromsö! Carlsen tapar, Tékkar rústa Rússum — Íslendingar gjörsigra Pakistan

Chess Olympiad round 7 289

Magnus Carlsen og Arkadij Naiditsch. Þjóðverjinn vann í 11. tilraun og Noregur á nánast enga möguleika á verðlaunum.

Þvílíkur dagur í Tromsö! Azerar sigruðu Kúbverja og eru einir á toppnum. Heimsmeistarinn Magnus Carlsen (2877 skákstig)  tapaði fyrstu skák sinni á mótinu, fyrir Þjóðverjanum Arkadij Naiditsch (2709) sem er þessa stundina í 35. sæti heimslistans. Öðrum skákum lauk með jafntefli, svo Þýskaland sigraði Noreg með 2,5 vinningi gegn 1,5. Vonir Norðmanna um verðlaun á mótinu eru nú að litlu orðnar. Þetta var fyrsti sigur Naiditsch í 11 skákum gegn Carlsen. Áður hafði Norðmaðurinn unnið 3 skákir en 7 lokið með jafntefli.

Azerar hafa 13 stig af 14 mögulegum eftir sjö umferðir, en alls eru tefldar 11 umferðir á 41. Ólympíuskákmótinu í Tromsö. Rúmlega 170 lönd og nokkur sérsambönd eiga fulltrúa á mótinu, sem er fjórði stærsti íþróttaviðburður ársins í heiminum, að sögn mótshaldara.

Einu stigi á eftir Azerbæjan koma Kína, Tékkland, Búlgaría og Rúmenía með 12 stig. Ólympíumeistarar Armeníu hafa 11 stig einsog átta aðrar þjóðir. Íslenska liðið er í 28. sæti eftir stórsigur á Pakistan.

_DSC0099

David Navara. Þessi geðþekki Tékki, sem er alltaf vel til hafður, leiddi lið sitt til sögulegs stórsigurs á Rússum.

Rússar steinlágu fyrir Tékkum, þar sem fóstbræðurnir Grischuk (2795) og Svidler (2751)  töpuðu á efstu borðunum fyrir Navara (2716) og Laznicka (2676). Jafntefli varð í öðrum skákum og Tékkar unnu því 3-1. Tapið er vitaskuld mikið áfall fyrir Rússa, sem tefla fram langstigahæstu sveit mótsins.

Kínverska skáksveitin heldur áfram að fara á kostum. Ungu snillingarnir í kínverska liðinu tefla af mikilli sókndirfsku og í dag tættu þeir í sig sterkt lið Serbíu, fengu 3,5 vinning af fjórum mögulegum. Eftir tap Rússa í dag eru Kínverjar líklegastir til að sigra á mótinu — en fjórar umferðir eru eftir og allt getur gerst…

Hannes Hlífar Stefánsson (2536) gladdi augað með skák sinni á 1. borði í viðureign við Pakistana. Andstæðingur hans var alþjóðameistarinn Mahmood Lodhi (2335) sem er 53 ára og stigahæsti skákmaður Pakistan. Lodhi var reyndar eini liðsmaður Pakistan með alþjóðleg skákstig…

Andstæðingur Hjörvars Steins Grétarssonar (2543)  á 2. borði var svo vinsamlegur að afhenda honum heilan riddara að gjöf, og Helgi Ólafsson (2555) vann snotra sóknarskák á 4. borði. Þröstur Þórhallsson (2426) varð að sætta sig við jafntefli á 3. borði enda tefldi andstæðingur hans, Younus, alveg ljómandi vel. Younus hefur ekki skákstig, en frammistaða hans í Tromsö til þessa jafngildir 1995 stigum.

Hannes

Hannes Hlífar bætti enn einu höfuðleðrinu í safnið.

Ólympíumeistarar Armena virðast ekki líklegir til að verja titilinn. Þeir gerðu nú jafntefli við Ungverja í hörkuviðureign, þar sem Levon Aronian (2805) sigraði hinn ólseiga Peter Leko (2740) á 1. borði. Sargassian (2686)  tapaði hinsvegar á 2. borði fyrir Balogh (2637) en öðrum skákum lauk með jafntefli, og þar með viðureigninni. Armenar hafa nú tapað 3 stigum á mótinu (eitt tap og eitt jafntefli) og ekkert nema kraftaverk getur komið þeim efst á verðlaunapallinn.

Búlgarar unnu góðan sigur á Hollendum, 3-1. Topalov (2772) og Giri (2745) gerðu jafntefli á 1. borði, en Iotov (2553) og Rusev (2548) unnu skákir Búlgara á 3. og 4. borði. Þar með er Iotov kominn með 6,5 af 7 mögulegum!

Indverjar unnu spútniklið Katar, 3-1, og bandarískin sveitin hristi af sér slenið og rústaði Usbekistan. Nakamura  (2787) sigraði Kramnik-banann Kasimdzhanov (2700) og Onishuk (2659) og Shankland (2624) unnu líka sínar skákir. Kamsky (2706) gerði jafntefli, en hann hefur ekki enn fundið taktinn í Tromsö.

ivanchuk

Ivanchuk er okkar maður. Nú er hann kominn í stuð eftir afleita byrjun.

Það hefur hinn mikli og óútreiknanlegi Ivanchuk (2744) hinsvegar gert. Eftir afleita byrjun hefur hann unnið tvær skákir í röð. Hann sargaði líftóruna úr Isamagambetov (2531) þegar Úkraína og Úsbekistan mættust.  Ponomariov (2717) og Korobov (2680) unnu líka, Moiseenko (2707) gerði jafntefli á 4. borði og niðurstaðan var þrír og hálfur vinningur gegn hálfum. Eyjólfur er að hressast!

Englendingar geymdu Short á bekknum þegar þeir unnu Kanada af öryggi, 3-1. Jones (2665) og Howell (2650) unnu, en Adams (2740) og Sadler (2653)  gerðu jafntefli. Þetta er mikilvægur sigur hjá Jones, sem hafði ekki unnið síðan í 1. umferð. Howell og Sadler hafa teflt einsog englar, en Short er úti á þekju þegar hann teflir við virkilega sterka andstæðinga.

Shankland

Sam Shankland hefur rakað saman vinningum fyrir bandaríska liðið. Á samt enn eftir að tefla við stórmeistara.

Hetjur mótsins? Bandaríski stórmeistarinn Sam Shankland hefur teflt 6 skákir í fyrstu 7 umferðunum þrátt fyrir að vera varamaður liðsins. Shankland hefur unnið hverja einustu skák og árangur hans jafngildir 3150 skákstigum. Hér verður að vísu að geta þess að Shankland hefur ekki teflt við einn einasta stórmeistara það sem af er.

Valentin Iotov, vinur okkar frá Búlgaríu, er í 2. sæti með árangur upp á 2948 stig, en hann hefur teflt við miklu sterkari andstæðinga en Shankland og er tvímælalaust maður mótsins til þessa. Fimm af andstæðingum Iotovs eru öflugir stórmeistarar, og Karjakin er meðal fórnarlamba hans.

Vinum Palestínu til mikillar gleði telst Christian D. Michel Yunis (2311) með þriðja besta árangurinn hingað til. Hann er alþjóðlegur meistari að tign og varamaður í liði Palestínu, þrátt fyrir að vera langstigahæstur í hópnum. Yunis hefur rakað saman 5 vinningum í jafnmörgum skákum, og árangur hans jafngildir heilum 2913 stigum. Ber að geta þess að stigahæsta fórnarlamb hans var jórdanski meistarinn Hader (2352)…

Lítum aðeins á lið dagsins, áður en lengra er haldið.

Wei

Söguleg stund. Wei Yi tekur við skjali frá Gunnari Björnssyni forseta SÍ sem staðfestir að hann hafi náð lokaáfanga að stórmeistaratitli. Kínverjinn ungi fer nú á kostum í Tromsö.

Kína hvíldi 1. borðs manninn Wang You (2718) í viðureign 7. umferðar gegn Serbum. Hann er 27 ára, og er sá eini í hópnum sem ekki hefur unnið skák. Wang hefur gert fjögur jafntefli og tapað einni skák.

Aðrir í kínverska liðinu eru í miklu stuði. Ding Liren (2742) hefur fengið 5 vinninga í 6 skákum. Árangur þessa 21 árs gamla meistara jafngildir 2866 stigum.

Yu Yangvi (2668) er tvítugur og hefur líka farið á kostum í Tromsö. Hann hefur teflt allar skákirnar 7 og fengið 6 vinninga, sem jafngildir 2877 skákstigum.

Ni Hua (2666) er aldursforsetinn í kínverska liðinu, 31 árs. Hann teflir á 4. borði og er kominn með 4,5 vinning af 6.

Svo er það varamaðurinn — hinn 15 ára gamli Wei Yi, sem hefur náðarsamlegast leyft eitt jafntefli í 4 skákum. Árangurinn er upp á 2772 stig.

Íslenskir skákáhugamenn hafa sérstakar taugar til Wei Yi, enda náði hann þriðja og síðasta áfanganum að stórmeistaratitli á N1 Reykjavíkurskákmótinu í fyrra.

Kína er lið dagsins. Spurningin er aðeins hvort hinir ungu snillingar verða líka lið mótsins.

Í öðrum fréttum var þetta helst: Færeyingar steinlágu fyrir Singapúr, Bangladesh malaði San Marinó og Sýrland gjörsigraði Eþíópíu, en Líbýa og Afganistan gerðu jafntefli…

Sérstakur pistill væntanlegur um stöðuna í kvennaflokki.

 

Facebook athugasemdir