Stórmeistaraáfangi hjá Einari Hjalta!

Einar_Hjalti_ECCÞrátt fyrir tap í 6. umferð liggur nú ljóst fyrir að FIDE meistarinn (FM) Einar Hjalti Jensson hefur náð sínum fyrsta áfanga að stórmeistaratitli. Ljóst var að áfangi að alþjóðlegum meistaratitli var þegar tryggur en hagstæð pörun í síðustu umferð þýðir að Einar hefur fengið nægilega marga titilhafa og það sterka andstæðinga að 5 vinningar af 7 mögulegum munu duga til. Hann semsagt má tapa í síðustu umferð, það skiptir ekki máli.

Einar hafði farið mikinn í mótinu fram að þessu og unnið allar sínar skákir og þar á meðal gegn einum þekktasta stórmeistara samtímans, Alexei Shirov. Sveit Einars, Huginn, hafði einnig staðið sig vel og aðeins tapað einni viðureign og það naumlega gegn einni af sterkustu sveitum mótsins.

Í dag kom annað tap sveitarinnar og þar þurfti til Evrópumeistara G-Team Novy Bor sem unnu 5,5-0,5 sigur á sveit Hugins. Huginn er nú í 14. sæti en sveitin var sú 21. stigahæsta í upphafi móts. G-Team virðast ekki eiga séns á að verja titil sinn en sveit SOCAR frá Azerbaijan er að fara mikinn í mótinu og virðist sigur þeirra nánast tryggður. Veselin Topalov og Anish Giri fara mikinn fyrir sveitina og hala inn vinningum í hús.

Fabiano_Caruana_Sinq7Ekkert lát virðist vera á sigurgöngu Fabiano Caruana. Eftir stórkostlegan árangur á Sinquefield mótinu heldur hann áfram þar sem frá var horfið og er með 4,5 vinning í 5 skákum. Caruana er nú að hækka um 42,8 stig á einum stigalista sem er í raun algjörlega fráleitt. Bæði af því að hann er yfir 2800 stigum og líka af því að nú eru stigalistar gefnir út mánaðarlega á meðan áður voru þeir á þriggja mánaða fresti. Sveit Fabiano á hinsvegar ekki möguleika á sigrinum þar sem aðrir liðsmenn hafa ekki staðið sig nægjanlega vel.

Elóstigin eru nú 2843 og því munar aðeins 19 stigum á honum og Magnus Carlsen, eitthvað sem hefði talist óhugsandi fyrir ekki svo löngu síðan. Líklegt verður að teljast að Caruana nálgist Carlsen enn frekar eftir Heimsmeistaraeinvígið því líklega tapar Carlsen stigum á því að vinna það með minnsta mun. Frá síðustu tapskák Caruana (einmitt gegn Carlsen!) hefur hann halað inn 16 vinninga í 19 skákum, hreint ótrúlegt!

Í skák sinni í dag gegn tékkneska stórmeistaranum Viktor Laznicka (2675) beitti Einar hinu svokallaða Moskvu-afbrigði gegn tilraun Laznicka til að tefla Najdorf-afbrigði Sikileyjarvarnar. Einar hafði áður beitt því gegn Shirov í mótinu og eins notað það í góðum sigri gegn sterkum ungverskum andstæðingi. Að þessu sinni náði Tékkinn að slá vopnin úr höndum Einars.

Eins og áður sagði þýðir pörun morgundagsins gegn stórmeistara frá Hvíta-Rússlandi að Einar hefur tryggt sér stórmeistaraáfanga. Fyrsta skref Einars er þó að tryggja sér titilinn alþjóðlegur meistari en hann hefur nú tvo áfanga að þeim titli og ljóst að elóstig hans nálgast hratt tilskilin 2400 elóstig sem hann þarf einungis að ná einu sinni á ferlinum til að uppfylla það skilyrði.

Svo við förum aðeins yfir það þá þarf að ná 2400 elóstigum og svo þremur áföngum að tilskildum titli til að hljóta titilinn. Áfangi merkir í raun að í tilteknu móti náðist árangur sem samsvarar yfir 2450 elóstigum fyrir AM-áfanga en 2600 fyrir SM-áfanga. Einar mun því líklega aðeins þurfa nokkur elóstig í sarpinn og einn áfanga til að klára sinn titil. Þegar það er komið í höfn verður fín búbót að búa yfir eins og einum stórmeistaraáfanga!

Skrefið í stórmeistaratitilinn er svo stórt en þar þarf að ná 2500 elóstigum og einnig þrem áföngum að stórmeistaratitli. Einar bætist þar með í hóp nokkra skákmanna sem hafa náð í áfanga á undanförnum árum. Nýjasti áfanginn var hjá Guðmundi Kjartanssyni sem náði sínum öðrum áfanga þegar hann varð Íslandsmeistari 2014. Eins er ekki langt síðan bræðurnir Björn og Bragi Þorfinnssynir náðu í sitt hvorn áfangann. Einnig liggja einhverjir eldri áfangar og næst okkur líklegast áfangi Jóns Viktors Gunnarssonar en hann á tvo og Dagur Arngrímsson náði einnig einum, fleiri man greinarhöfundur ekki eftir á þessari öld.

Hrokurinn.is óskar Einari Hjalta og sveit Hugins til hamingju með frábæran árangur hingað til.

 

Uppfært: Eins og Einar benti sjálfur á í commenta-kerfinu að þá hefur hann þegar náð 2399,8 elóstigum eftir sigur sinn í fimmtu umferð og er það nóg þannig að nú vantar Einari bara einn áfanga!

Facebook athugasemdir