Íslandsmótinu í skák lauk með yfirburða sigri Héðins Steingrímssonar, stórmeistara, sem hlaut 9.5 vinning af 11 mögulegum og landaði sínum þriðja Íslandsmeistara titli með glæsilegri lokaskák.
Mótið sem fram fór við kjöraðstæður í Háaloftum Hörpu snerist upp í einvígi milli Héðins og Hjörvars Steins Grétarsson, yngsta stórmeistara okkar, en þeir voru komnir með 2.5 vinning umfram næstu menn að 7 umferðum loknum.
Fyrir umferðina í gær var Héðinn með hálfs vinnings forskot á keppninaut sinn svo um hreina úrslitaskák var um að ræða milli þeirra í lokaumferðinni.
Eftir vænlega byrjun Hjörvars Steins sem hafði hvítt hrifsaði Héðinn til sín frumkvæðið með beittri leiftursókn, h5 í 16 leik, í krafti góðar stöðuuppbyggingar og mannsfórn í kjölfarið. Eftir það varð ekki við neitt ráðið og hinn ungi andstæðingur hans sem staðið hafði sig frábærlega vel í mótinu varð að leggja niður vopnin aðeins sjö leikjum síðar.
Héðinn varð fyrst Íslandsmeistari aðeins 15 ára að aldri 1990, sá yngsti sem það hefur afrekað og síðan aftur árið 2011.
Mótið núna var það sterkasta á pappírunum sem haldið hefur verið. Í því tóku þátt hvorki meira né minna en 7 stórmeistarar og átta fyrrverandi Íslandsmeistarar í skák, þar á meðal Jón L. Árnason sem ekki hafði teflt um titilinn í 24 ár. Hann varð í 3.- 4. sæti ásamt Hannesi Hlífari Stefánssyni, 12 földum Íslandsmeistara með 6.5 vinning. Jóhann Hjartarson náði sér ekki fyllilega á strik eftir langa fjarveru en vann þó Hannes Hlífar í mikilli baráttuskák og þrjá aðra. Íslandsmeistarinn frá í fyrra Guðmundur Kjartansson varð sjöundi að þessu sinni með 4.5 v. Einar Hjalti Jensson, náði lokaáfanga sínum að alþjóðlegum meistaratitli og varð fimmti með 5.5 v.
Önnur úrslit:
Skákþinginu lauk svo með lokahófi í gærkvöldi þar sem Gunnar Björnsson, forseti SÍ, afhenti Íslandsmeistaranum verðlaunastyttuna eftirsóttu og þakkaði öðrum keppendum og starfsmönnum ómetanlegt framlag þeirra til eflingar skáklistinni.
Meðf. eru skjámyndir frá lokaumferðinni og úrslitaskákinni sem fjölmargir fylgdust með á mótsstað og í beinni útsendingu bæði upp til fjalla og eins um heim allan á ChessDom og ChessBomb.
Mótshaldarinn Skáksamband Íslands verðskuldar besta lof fyrir frábæra framkvæmd.
- Heimasíða mótsins
- Chess-Results
- Myndaalbúm (Gunnar Björnsson)