Smella á mynd fyrir street view

Skákfjör og fatasöfnun í Pakkhúsi Hróksins um helgina

KK treður upp í Pakkhúsi Hróksins klukkan 15 á laugardag.

KK treður upp í Pakkhúsi Hróksins klukkan 15 á laugardag.

Skákfjörið í Pakkhúsi Hróksins heldur áfram um helgina. Í dag klukkan 14 teflir Jóhann Hjartarson fjöltefli við félaga úr skákdeild eldri borgara og ungmenni úrvalsliðs Björns Ívars Karlssonar skákkennara. Klukkan 15 mun tónsnillingurinn og skákáhugamaðurinn KK troða upp.

Samhliða skák- og tónlistarveislu verður tekið við fatnaði í söfnun Hróksins fyrir börn á Austur-Grænlandi. Óskað er eftir hreinum og óslitnum fatnaði á börn á aldrinum 0-15 ára. Beðið er um hverskyns fatnað: útiföt, hversdagsföt, spariföt, íþróttaföt, kuldaskó, íþróttaskó — yfirhöfuð allsskonar föt og skó sem börn og unglingar þarfnast.

Jóhann Hjartarson teflir fjöltefli við gamlar kempur og efnileg börn og ungmenni á laugardag.

Jóhann Hjartarson teflir fjöltefli við gamlar kempur og efnileg börn og ungmenni á laugardag.

Söfnun Hróksins teygir sig nú vítt og breitt um landið, og taka 12 grunnskólar þátt í verkefninu. Í skólunum er víðast hvar tækifærið notað og Grænland sett á dagskrá. Hver skóli um sig skipuleggur sjálfstæða söfnun og Grænlandskynningu, sem getur tengst landafræði, samfélagsfræði, sögu, náttúrufræði og dönsku, svo dæmi séu tekin.

Hrókurinn hvetur fólk til að líta við í Pakkhúsinu við Reykjavíkurhöfn um helgina. Pakkhúsið er í vöruskemmu Brims, Geirsgötu 11, þar sem áður var heildverslun Jóns Ásbjörnssonar. Fánaborg vísar veginn!

Tekið er við góðum fréttum og hugmyndum í netfanginu hrokurinn@gmail.com.

Facebook athugasemdir