Skák er áhættuíþrótt!

carlsen2

Carlsen er í hörkuformi. En það verður ekki sagt um alla skákmenn…

Dauði tveggja keppenda á Ólympíuskákmótinu í Tromsö vakti mikla athygli um allan heim. Skákáhugamaðurinn Stephen Moss greinahöfundur hjá Guardian segir að skák útheimti mikla líkamlega og andlega áreynslu og sé áhættuíþrótt. Margir skákmenn eru hinsvegar í slæmu líkamlegu formi og hugsa lítt um hreyfingu eða mataræði.

Moss skrifar: Mér fannst þetta einhver sérkennilegasta tilviljun sem sögur fara af: tveir skákmenn dóu sama daginn við lok Ólympíuskákmótsins í Noregi. En þegar ég spjallaði við vin minn sem er skákmaður sagði hann: ,,En er þetta nokkuð skrýtið? Það voru næstum 2000 keppendur á Ólympíuskákmótinu. Býsna margir, sérstaklega karlarnir, kyrrsetumenn í lélegu formi, og farnir að reskjast. Heilsu þeirra var stefnt í voða. Ættum við að verða undrandi á tveimur dauðsföllum?“

Aronian and his coach Tigran Ghaghramian played football.

Aronian (til hægri) byrjar daginn á því að skokka. Hann leggur stund á ýmsar íþróttir.

Moss sagði að vinurinn hefði hitt naglann á höfuðið þegar hann benti á að skákmenn væru undir miklu álagi. ,,Þau sem tefla ekki sjálf eiga kannski erfitt með að trúa því,“ segir Moss, ,,en skák er áhættuíþrótt (extreme sport).“

Það fylgir því mikið álag að sitja klukkustundum saman við taflborð, með einbeitingu á efsta stigi. Markmiðið er að drepa andstæðinginn. Spennan getur orðið óbærileg í tímahraki, þegar minnstu mistök geta leitt til taps.

Sumir af fremstu skákmönnum heims takast á við streituna með aðstoð geðlækna. Og þeir huga líka sífellt betur að mataræði og líkamsformi. Moss, sem er mikill skákáhugamaður, var viðstaddur stórmótið í Wijk aan Zee í Hollandi í janúar. Hann segir að Aronian, sem er númer 2 á heimslistanum, hafi jafnan byrjað daginn með því að skokka, en sest síðan að staðgóðum morgunverði.

tal3

Tal með hina eilífu sígarettu. Það flóði út úr öskubakkanum eftir hverja skák.

Magnus Carlsen heimsmeistari leggur mikið upp úr að halda sér í góðu formi. Hann er skíðamaður, spilar tennis, fótbolta og körfuknattleik og þykir mikill keppnismaður.

En það eru bara þeir allra bestu, segir Moss, sem eru í aðstöðu til að hafa sérfræðinga á sínum snærum, og leggja mikla áherslu á líkamlegt form. Skák tekur á: Því hefur verið haldið fram að í langri kappskák missi keppendur jafnmikla þyngd og fótboltamaður í leik.

Þeir allra bestu passa sem sagt vel upp á hreyfingu, mataræði og heilbrigða lífshætti, en sama er ekki upp á teningnum hjá þeim sem eru neðar í fæðukeðjunni.

Moss segir að hinir stórkostlegu meistarar Sovétríkjanna, sem lögðu undir sig skákheiminn eftir seinni heimsstyrjöldina, hafi lifað afar óheilbrigðu lífi. ,,Þeir lifðu á vodka, sígarettum og skák, og margir þeirra dóu ungir. Tökum Leonid Stein sem dæmi. Hann varð þrisvar skákmeistari Sovétríkjanna á sjöunda áratugnum, en dó úr hjartaáfalli 1973, aðeins 38 ára gamall. Mikail Tal, sem var heimsmeistari 1960-61, átti við vanheilsu að stríða alla tíð og dó 55 ára — óbætanlegur missir fyrir skákheiminn. Og Vladimir Bagirov, heimsmeistari öldunga 1998, var 63 ára þegar hannn dó fram á taflborðið á móti í Finnlandi árið 2000.“

leonidstein

Stein. Einn besti skákmaður heims. Dó á besta aldri.

Bestu skákmenn heims á okkar dögum hafa lært af mistökum sovésku meistaranna, segir Moss, en heilsubyltingin hefur ekki náð til annarra skákmanna. Of margir eru of þungir, finnst gott að fá sér í staupinu, hreyfa sig of lítið, hugsa ekki nógu vel um mataræðið. Taflmennska kostar mikið álag á hug og líkama, segir Moss, og hann veit um hvað hann er að tala:

Bagirov

Bagirov. Dó við skákborð í Finnlandi.

,,Þegar ég er búinn í vinnunni stekk ég heim, gleypi í mig kvöldmatinn, og fer síðan í skákklúbbinn minn. Þar sit ég yfir skák í þrjá klukkutíma og verð iðulega veikur, sérstaklega ef ég tapa. Um klukkan hálfellefu fer ég heim og í háttinn, en oft tekst mér ekki að sofna af því leikirnir og mistökin úr skák kvöldsins svífa um í hausnum á mér.“

Skák er áhættuþrótt og við ættum að viðurkenna það, segir Moss. Þannig heiðrum við á vissan hátt minningu skákmannanna sem dóu í Tromsö.

Facebook athugasemdir