Liðsmenn Skákfélagsins Hróksins héldu í dag áleiðis til Nuuk, höfuðborgar Grænlands, og fara á föstudaginn til hamfarasvæðanna í Uummannaq-firði, 600 km fyrir norðan heimskautsbaug. Með í för verða listamenn frá Sirkus Íslands, Bjarni Árnason og Axel Diego og myndlistarkonan Inga María Brynjarsdóttir sem mun halda teikninámskeið fyrir börnin í þorpinu. Hrafn Jökulsson mun stýra skákskóla Hróksins á meðan á hátíðinni stendur.
Á fimmtudag verður sirkus- og skákhátíð í Nuuk Center, en svo liggur leiðin til Uummannaq þar sem fjölfreytt dagskrá verður. Hápunktur hátíðarinnar verður 11. október þegar íslensku gestirnir leika listir sínar ásamt listamönnum á öllum aldri úr bænum.
Hrókurinn hefur síðan 2003 farið um sextíu ferðir vítt og breitt um Grænland til að útbreiða skák og efla vináttu og samvinnu þjóðanna á sem flestum sviðum.
Þegar hamfarirnar urðu á Grænlandi í sumar efndu Hrókurinn, Hjálparstarf kirkjunnar og Kalak, vinafélag Íslands og Grænlands til landssöfnunar á Íslandi. Jafnframt var ákveðið að skipuleggja hátíðina í Uummannaq og hafa margir hjálpað til við að gera þann draum að veruleika, með Air Iceland Connect og Air Greenland.
Hægt verður að fylgjast með gangi mála á heimasíðu Hróksins: www.hrokurinn.is
Facebook-síða Hróksins: https://www.facebook.com/Skákfélagið-Hrókurinn-Chess-Club-Hrókurinn-230115460483258/