Sinquefield Bikarinn farinn af stað – Magnað jafntefli hjá Carlsen í fyrstu umferð

Eitt sterkasta skákmót allra tíma fór af stað í gær í Bandaríkjunum. Nánast allir sterkustu skákmenn heims eru mættir til leiks og meðalstig í mótinu eru hvorki fleiri né færri en 2802! Sú tala gerir mótið að því sterkasta í sögunni ef tekið er mið af meðalstigunum. Við þorum  þó ekki alveg að fullyrða að mótið sé hið sterkasta í sögunni þar sem margir telja ákveðna stigaverðbólgu vera til staðar miðað við  í „gamla daga“.

 

Við bendum á umfjöllun okkar um mótið og keppendur hér >>

Hinn bandaríski Hikaru Nakamura skrifaði nýverið undir samning við Red Bull...mun það hjálpa honum að bera loks sigurorð af Carlsen?

Hinn bandaríski Hikaru Nakamura skrifaði nýverið undir samning við Red Bull…mun það hjálpa honum að bera loks sigurorð af Carlsen?

 

Í fyrstu umferð var það aðeins hinn knái Ítali Fabiano Caruana sem náði að knésetja andstæðing sinn en hann lagði Búlgarann Veselin Topalov með svörtu mönnunum. Hikaru Nakamura gerði jafntefli með svörtu mönnunum gegn Levon Aronian en sem endanær voru augu flestra hinsvegar á skák Magnusar Carlsen og óhætt að segja að hún hafi ekki valdið vonbrigðum.

Magnús stýrði svörtu mönnunum gegn stigahæsta skákmanni Frakka, hinum hvassa Maxime Vachier-Lagrave. Hinn franski hefur á köflum einkar skemmtilegan skákstíl og má segja að hann hafi skapað þessa hressilegu skák og Carlsen tók þétt á móti!

 

 

Hvítt: Maxime Vachier-Lagrave (2768)
Svart: Magnus Carlsen (2877)
Sinquefield Cup fyrsta umferð, Skoskur leikur

1.e4 e5 2.Rf3 Rc6 3.d4 exd4 4.Rxd4

MVL_Carlsen_1

Hinn svokallaði Skoski leikur. Hér eru aðalleikir svarts 4…Bc5 og 4…Rf6. Leikur Steinitz, 4…Dh4!? er einnig ágætis vopn til að koma á óvart endrum og sinnum.

4…Bc5 5.Rb3

Lagrave velur ekki algengustu leiðina en þegar Skoski leikurinn var hvað mest tefldur léku menn ávallt 5.Be3 í þessari stöðu og svo 5…Df6 6.c3 sem gefur öðruvísi stöðutýpur.

Bb6 6.Rc3 Rf6 7.De2 a5

MVL_Carlsen_2

Byrjendum er kennt að koma mönnum sínum út en Magnus brýtur hér þær reglur. Framrás a-peðsins byggir á því að ef peðið kemst til a4 á riddarinn ekki marga reiti.

8.e5 O-O 9.exf6 a4

MVL_Carlsen_3

Magnus hefur skilið riddarann sinn á f6 eftir í dauðanum og er því manni undir í stöðunni. Þetta er ekki síðasta fórnin í þessari skák! Athugið þó að fórnin er aðeins tímabundin þar sem riddarinn á b3 á enga góða reiti. Rauðu reitina kemst hann ekki á, gulu reitirnir eru valdaðir af andstæðingnum og á d2 (græna reitnum) er hann fyrir biskupnum og þarmeð yrði …He8 leikurinn óþægilegur fyrir vikið.

10.Rd5 He8 11.Be3 axb3 12.Dg4 g6 13.Bc4 Rb4

MVL_Carlsen_4

Aftur og nýbúinn!! Carlsen skildi mann eftir í dauðanum rétt áðan og nú leikur hann manni beint í dauðann. Stórfurðuleg staða þar sem svartur þarf að passa að hvítur nái ekki að koma drottningu sinni á hinn hættulega h6 reit þar sem mát á g7 væri þá í sjónmáli. Mannsfórnin að þessu sinni er einnig tímabundin en um leið og hvítur drepur manninn, opnast d5 reiturinn fyrir svart peð sem myndi opna tvöfalda árás á drottninguna á g4 og biskupinn á c4.

14.Rxb4 d5 15.Df4 dxc4 16.O-O bxc2

MVL_Carlsen_5

Mögnuð staða. Svartur er með þrípeð og býsna óvenjulegt að svo langt sé á milli þrípeðanna. Man ekki í fljótu bragði eftir mörgum dæmum um slíka peðastöðu!

17.Rd5 He6 18.Dxc4 Bxe3 19.fxe3 b5

MVL_Carlsen_6

Enn einn taktískur leikurinn! Magnus getur nú sett biskup sinn á h1-a8 skálínuna þar sem hann stendur vel. Hvítur má ekki drepa á b5 þar sem þá kemur …c6 með gaffli á drottninguna og riddarann.

20.Dc5 Bb7 21.Re7+ Kh8 22.Dxc2 Haa6

MVL_Carlsen_7

Línur eru farnar að skýrast. Magnus hefur náð að fylkja liði um framvörð hvíts á f6 og undirbýr að enda tilvist hans í þessari skák. Um leið og það gerist stendur Magnus betur að vígi þar sem hótanir gegn kóngi hans eru ekki lengur til staðar og biskupar eru almennt betri en riddarar í opnum stöðum með peð á báðum vængjum. Frakkinn verst hinsvegar af krafti í framhaldinu…

23.Hac1 Hxf6 24.Hxf6 Hxf6 25.Dxc7 Dd2

Tölvurnar telja að Magnus hefði getað haldið vinningsmöguleikum með 25…Dd3. Á d2 hótar svartur hinsvegar máti sem er öllu mannlegra.

26.Db8+

MVL_Carlsen_8

Lagrave verður að skáka svarta kónginn eða verjast mátinu á g2. Honum tekst hið fyrrnefnda.

26…Kg7 27.Dg8+ Kh6 28.Df8+ Kh5 29.Hc5+

MVL_Carlsen_9

Nú er svarleikur Carlsen nánast þvingaður. Ef hann fer á stjá með kónginn á hann á hættu að lenda í mátneti þar sem leikir eins og h3, Dh6, Hg5 liggja í loftinu eftir því hvert kóngurinn fer.

29…g5 30.Hxg5+ Kxg5 31.Dg7+ Hg6 32.De5+ f5 33.h4+ Kh5 34.Dxf5+

MVL_Carlsen_10

Ljóst er að hinn franski nær þráskákinni. Hann flakkar á milli f5 og f8 og svartur hefur ekki tök á að sleppa. Taki hann peðið á h4 á hvítur í versta falli Dh3+ og endurtekur svo skákirnar á f5/f8/h3 eftir þörfum.

34…Kh6 35.Df8+ Kh5 36.Df5+ Kh6 37.Df8+ Kh5 38.Df5+

1/2-1/2 niðurstaðan í hreint magnaðri skák! Hver segir að jafntefli séu leiðinleg?
Þegar þessar línur eru ritaðar er önnur umferð í gangi og hægt að fylgjast með á chess24 og fleiri síðum

Skákin í pgn-spilara:

Facebook athugasemdir