Vignir Vatnar Stefánsson sigraði heimamanninn Paul Gluckman í 7. umferð heimsmeistaramóts barna í Suður-Afríku á fimmtudag. Vignir hefur nú 4,5 vinning og er í 22. sæti af 105.
Vignir teflir í flokki drengja, 12 ára og yngri, og er eini íslenski keppandinn. Alls er keppt í sex aldursflokkum, bæði drengja og stelpna, og því má að segja að 12 stórmót fari fram samtímis í Suður-Afríku.
Staðan í flokki Vignis Vatnars sýnir heldur betur að allt getur gerst í skákinni. Stigahæstu drengirnir hafa alls ekki náð sér á strik. Fjórir stigahæstu keppendur voru þannig í 17. til 29. sæti eftir 7 umferðir. Undradrengurinn Awonder Liang, stigahæstur allra, hefur tapað 3 skákum og á enga möguleika á heimsmeistaratitlinum.
Efstir, með 6 vinninga af 7 mögulegum, eru Viachaslau Zarubitski (2130) frá Hvíta-Rússlandi og Pawel Teclaf (1992) frá Póllandi.
Árangur pólska drengsins er sérlega glæsilegur, enda hefur hann unnið sér inn heil 114 skákstig í fyrstu 7 umferðunum! Á sama tíma hefur Awonder Liang séð á bak hátt í 50 skákstigum, en Vignir Vatnar unnið 18.
Stigin segja ekki alla söguna, síst í yngstu aldursflokkunum.
Baráttan verður æsispennandi í lokaumferðunum.
Hvít-Rússinn og Pólverjinn hafa 6 vinninga, en heil úlfahjörð fylgir þeim með aðeins hálfum vinningi minna. Í þessum hópi eru bandarísku piltarnir David Peng (2011), Aravind Kumar (2152) og Rayan Taghizadeh (2026), en stöðugt eru að koma fram ný efnisbörn í Bandaríkjunum, og mikill metnaður í þjálfun og æskulýðsstarfi.
Í 8. umferð teflir Vignir við pólska drenginn Matey Petkov (1912) og sigur fleytir okkar manni áleiðis í toppbaráttuna. Alls eru tefldar 11 umferðir, og er óhætt að bóka háspennu í Durban…
Á morgun verður líka uppgjör milli efstu manna, svo við skulum fylgjast vel með gangi mála.
Áfram Vignir! Baráttukveðjur til Afríku.