Það haustaði snemma árið 1199 á Íslandi. Páll biskup Jónsson í Skálholti hafði falið prestmaddömunni Margrétu hinni högu og völundinum Þorsteini skrínsmið að ljúka sem fyrst við gerð taflmanna sem þau höfðu unnið kappsamlega við að skera út úr rostungstönnum og hvalbeini ásamt lærlingum sínum allt sumarið. Þeir voru hluti af handverksmunum sem ætlaðir voru til útflutnings. Sendingu sem átti að fara til Mangarastaðar (Mhangarstadh), nærri Íslendingavík (Islivik) á eyjunni Ljóðhús (Lewis) í Suðureyjum og síðan þaðan á markað í Dyflinni (Dublin) á Írlandi.
Þetta hafði verið mikil þolinmæðisvinna, listrænn útskurður og efniviðurinn óþjáll. Fátt truflaði einbeitingu þeirra annað en tíðasöngur í kirkjunni enda hver dagur öðrum líkur þarna í fásinninu í sveitinni. Tíminn var því oft lengi að líða og því gott að hafa eitthvað krefjandi og skapandi viðfangsefni við að fást. Nógir aðrir voru til að sinna búverkum og heyskap.
Hafbúið langskip lá við festar við Eyrarbakka – verslunarstaðinn við suðurströndina. Síðasta haustskipið þetta árið tilbúið til siglingar yfir hafið til Suðureyja vestan Skotlands meðan enn viðraði vel og vindátt var hagstæð. Handverksstofan í túnjarðinum í Skálholti hafði verið undirlögð af þessum gripum sem mynduðu 4 skáksett um nokkurt skeið. Nú var öllum taflmönnunum safnað saman, enda þótt sumir þeirra væru ekki alveg fullgerðir, búið um þá í leðurskjóðu (128 talsins, þar af 64 peð) og þeir fluttir til skips ásamt öðrum varningi.
Síðan var látið úr höfn. Það byrjaði bærilega vel yfir hafið, hagstæðir vindar og vestanátt. Siglingin gekk því vel og að óskum uns skipið var komið undir Skotlandsstrendur. Erfitt var að sjá hvar skipað var statt þegar nær dróg Suðureyjum. Þétt þoka lagðist yfir með brælu, roki og rigningu. Skyggni nánast ekkert dögum saman. Engin skýr kennileiti mátti greina á vesturströnd eyjunnar Lewis. Það voru því góð ráð dýr þegar taka átti land. (Enginn kompás, talstöð né GPS-tæki komin til sögunnar) Breið og mikil vík virtist fyrir stafni. Þar mætti freista þess leita vars og liggja við festar uns veðrið lagaðist og hægt að halda suður með stöndinni til Íslendingavíkur. En skyndilega og áður en rönd yrði við reist tók skipið niðri á sandbakka og sat þar kyrfilega fast og haggaðist ekki. (Engir dráttarbátar í námunda né aðra hjálp að fá.) Þegar rofaði til kom í ljós að skipið var strandað skammt undan landi í stórri eyðivík (Uik). Fátt til bjargar. Af harðfylgi og herkjum tókst nokkrum skipbrotsmönnum samt að svamla til lands með hluta af varningnum.
En þá tók ekki betra við – hvert skyldi halda? Inn eftir ströndinni að fjarðarbotninum til að byrja með – bara endalausir sandhólar og auðnir framundan. Enga mannabyggð að sjá. En áfram skyldi haldið. Hyggilegt að létta klifjarnar og fela skjóðuna með taflmönnunum dýru í einum þessara sandhóla allt um kring – þangað mætti kannski sækja þá seinna, ef vel gengi. Nú riði á að reyna að bjarga sjálfum sér – þó halda yrði út í óvissuna. Forlög myndu ráða för.
……………………………..
Um afdrif skipverja fer síðan engum sögum, örlög þeirra er hulin ráðgáta. Enginn þeirra átti afturkvæmt til felustaðarins né til síns heima – hvað sem um þá varð. Það var svo ekki fyrr en vorið 1831 eftir mikið hvassviðri, rúmum 6 öldum síðar, að taflmennirnir fundust aftur ásamt sylgjunni af leðurskjóðunni. Sandinn hafði skafið ofan af þeim í tímans rás svo nú eftir storminn blöstu þeir allt í einu við á förnum vegi.
Þessir forkunnarfögru og leyndardómsfullu skák- og listmunir „The Lewis Chessmen“ eru nú taldir meðal mestu gersema í eigu Breska þjóðminjasafnsins og þess Skoska. Sumir telja þá vera norska að uppruna frá Þrándheimi af þvi að þeir vita ekki betur. En margvísleg söguleg og málfræðileg rök hníga að því að þeir séu gerðir á biskupssetrinu í Skálholti. Hið íslenska handbragð og listfengi leynir sér ekki ef vel er að gáð – segja þeir sem gerst þekkja.
Höfundur óþekktur.