Mesta sigurganga sögunnar: Dáleiðir Caruana andstæðingana?

Ítalski snillingurinn Fabiano Caruana heldur áfram ótrúlegri sigurgöngu á sterkasta skákmóti allra tíma. Caruana, sem er 22 ára, hefur sigrað í sjö skákum í röð og er langefstur, þegar þrjár umferðir af 10 eru eftir. Í sjöundu umferð vann Caruana Frakkann Vachier-Lagrave sem er 23 ára og númer 9 á heimslistanum. Caruana hefur þotið upp heimslistann síðustu misserin og nú hefur hann náð 2. sæti af Armenanum Aronian. Ítalinn hefur nú 2835 stig og er skyndilega í sjónmáli við Carlsen heimsmeistara, sem trónir á toppnum með 2866 stig.

Sex meistarar keppa á þessu sterkasta skákmóti sögunnar. Meðalstig keppenda eru í fyrsta sinn yfir 2800 stigum. Tefld er tvöföld umferð. Carlsen hefur ekki náð sér á strik, enda stendur hann í stímabraki við FIDE, en situr þó í 2. sæti með 4 vinninga, heilum þremur vinningum á eftir Caruana. Þeir mætast á morgun og þar hlýtur að sverfa til stáls…

Menn eru komnir í full störf við að skúra kjálkana sem menn eru að missa yfir frammistöðu Fabiano Caruana í Sinquefield Bikarnum. Í kvöld vann hann enn einn sigur, að þessu sinni gegn stigahæsta skákmanni Frakka, Maxime Vachier-Lagrave.

Í síðustu frétt bárum við árangur Caruana saman við árangur Anatoly Karpov árið 1994 í Linares.

Karpov hér gegn Judit Polgar í Linares 1994

Þar byrjaði Karpov með 6 vinninga af 6 mögulegum og fékk ótrúlega 11 vinninga af 13 mögulegum. Andstæðingar Karpov voru goðsagnir eins og Vladimir Kramnik, Garry Kasparov, Gata Kamsky, Boris Gelfand, Alexey Shirov, Alexander Beliavsky, Judit Polgar o.fl.

Í raun er bæði erfitt og ósanngjarnt að bera saman árangur manna á svona mismunandi skeiðum. Caruana sjálfur þverneitaði fyrir að vera tefla nálægt þeim styrkleika eða af þeirri list sem Karpov gerði á þessu móti. Engu að síður verður að gefa Caruana mun fleiri prik fyrir sína frammistöðu en hann vill sjálfur þiggja. Mótið í St. Louis státar af hæstu meðalstigum í sögunni og aldrei í slíku móti hefur keppandi byrjað með 7 vinninga af 7 mögulegum.

Menn spyrja sig hvar þetta endar. Ljóst er að Caruana er nánast öruggur með sigur í mótinu. Hann hefur augljóslega 7 vinninga á meðan Magnus Carlsen hefur 4 vinninga. Það liggur við að Caruana geti skellt sér í frí til Bermuda síðustu þrjár umferðirnar, líklegast myndi hann samt vinna mótið. Magnus Carlsen mun þó að öllum líkindum reyna að rétta úr kútnum þegar þeir mætast á morgun í 8. umferð.

Nakamura_Sfield6_2

Nakamura hefur verið algjörlega heillum horfinn í þessu móti!

Magnus vann í dag fádæma öruggan sigur á Hikaru Nakamura.

Nakamura hefur átt einstaklega lélegt mót og í dag voru skákskýrendur og skákreiknar á því að tafl hans væri í raun tapað eftir aðeins 11 leiki!

Einhver vildi meina það á samskiptamiðlinum Twitter að Hikaru Nakamura hefði teflt sína verstu skák líklega á ferlinum gegn Carlsen.

Ef farið er í sögubækurnar er það aftur Karpov sem kemur upp á radarinn en að þessu sinni á neikvæðan hátt. Karpov á fræga tapskák í aðeins 11 leikjum gegn Bandaríkjamanninum Larry Christansen þegar Karpov lék klaufalega af sér manni og varð að gefast upp.

Nakamura barðist þó áfram en sigur Carlsen var aldrei í hættu og Carlsen aðeins að rétta úr kútnum með tveim vinningsskákum í röð.

 

Caruana mætti eins og áður sagði Maxime Vachier-Lagrave í dag. Caruana hafði svörtu mennina og beitti drottningarbragði.

Á efstu stigum skákarinnar þýðir drottningarbragð með svörtu að öllu jöfnu að sá er stýrir svörtu mönnunum er sáttur við að jafna taflið og sættir sig yfirleitt við jafntefli. Vladimir Kramnik hefur t.a.m. notað það í mörgum einvígjum til að ná auðveldum jafnteflum með svörtu mönnunum.

Af þessum sökum kom það mönnum  nánast í opna skjöldu þegar eftir aðeins 20 leiki var einungis spurning hversu miklir yfirburðir Caruana voru í stöðunni gegn Maxime Vachier-Lagrave. Það er líkt og andstæðingar Caruana séu beittir einhverskonar dáleiðslu sem einungis hefur sést áður þegar kemur að andstæðingum Garry Kasparov eða Magnus Carlsen.

Eins og áður í mótinu nýtti Caruana sýna möguleika til hins ítrasta og sigldi vinningnum örugglega í hús….allt meðan kjálkar skákskýrenda voru ýmist skúraðir af gólfum eða komið aftur í lið!

Á meðan þessu stóð gerðu Topalov og Aronian jafntefli en líklegast hefur sjaldan verið jafn lítil athygli á skák hjá jafn sterkum skákmönnum!

Á fimmtudag mun Magnus Carlsen freista þessu að stöðva þessu ótrúlega sigurgöngu en athugið að Fabiano Caruana stýrir hvítu mönnunum. Greinarhöfundur spáir jafntefli nema Carlsen reyni um of að sanna sig og gefi færi á sér!

Að lokum endum við þetta á brandara. Hikaru Nakamura lýsir því yfir í viðtali við New In Chess að hann sé líklegastur til að stela krúnunni frá Evrópu. Óhætt að segja að hann hafi ekki staðið við stóru orðin síðastliðin ár!

Facebook athugasemdir