Maðurinn sem vildi ekki vera stórmeistari

Kári Elíson skrifar

Kári Elíson skrifar

Það er vitað að nokkrir menn í sögunni hafa hafnað Nóbelsverðlaunum fyrir hitt og þetta… Það hefur þó aðeins einn maður hafnað því að vera stórmeistari í skák þótt hann hafi áunnið sér þann titil.

Um áratuga skeið á síðustu öld voru þrír meistarar sem báru höfuð og herðar yfir aðra skákmenn í Svíþjóð eða allt til þess tíma að Ulf Anderson kom fram á sjónarsviðið. Þetta voru þeir Gösta Stoltz,Gideon Stahlberg og Erik Lundin. Þeir voru hið mikla þríeyki Svíþjóðar í skák ekki ósvipað hinni rómuðu íslensku fjórmenningaklíku.

VANDI FYLGIR VEGSEMD HVERRI.

Erik Lundin, Hans Hedström og Lars Hedlund.

Erik Lundin, Hans Hedström og Lars Hedlund.

Árið 1950 útnefndi FIDE ýmsa stórmeistara. Á meðal þeirra var hinn sænski Erik Lundin sem hafði þá unnið marga sigra og verðlaun á stórum alþjóðamótum. Öllum á óvart þá gerðist hið ótrúlega að Lundin hafnaði titlinum! Ástæður þess voru sagðar að hann taldi slíka upphefð vera íþyngjandi hégóma sem hefði í för með sér óþarfa athygli og ferðalög og að hann yrði alltaf að koma fram sem slíkur. Hann sættist þó á að vera skrifaður fyrir því að vera alþjóðlegur meistari.

FIDE lagði hart að honum í mörg ár að þiggja stórmeistaratignina. Það gerðist svo árið 1983 þegar kappinn stóð á áttræðu að hann samþykkti  loks þennan heiðurstitil sér til handa. Hann varð þannig fimmti stórmeistari Svíþjóðar á eftir þeim Stahlberg, Stoltz, Anderson og Karlsson.

Erik Lundin sem fæddur var í Stokkhólmi 1904 lést árið 1988. Hann lærði að tefla um tvítugt og árið 1928 vann hann Skákþing Stokkhólms með fullu húsi og eftir það kom glæsilegur ferill. Hann varð Norðurlandameistari skömmu síðar og stóð sig vel á ótal mótum. Það má nefna í Gautaborg 1931 varð hann í 1-3 sæti ásamt heimsstjörnunni Salo Flohr og landa sínum Stoltz. Lundin sigraði Spielmann í spennandi einvígi 1933 með 3,5 gegn 2,5v. Hann deildi öðru sæti í Munchen 1941 með sjálfum Aljekín!. Það var sko ekkert gefið eftir í stríðinu! Lundin varð 10 sinnum Svíþjóðarmeistari og tefldi á jafnmörgum Olympíumótum og oftast með frábærum árangri í kringum 70% skor. Má þar nefna 1930 í Hamborg fékk hann 12v af 17 á fjórða borði og í Buenos Aires 1939 fékk hann 10,5 af 16 á öðru borði.

Erik_Liundin_bokFÓRN Á H6 STENST EKKI ALLTAF.

Oft er það nú einu sinni þannig að minni spámenn verða skíthræddir þegar þeir mæta stórmeisturum skáklistarinnar og ná ekki þannig að sýna sitt rétta andlit ef svo má að orði komast. Stundum eru þeir alls óhræddir. Á Ol 1936 í Munchen voru nasistar byrjaðir að vaða uppi en það óð samt enginn svo glatt í Lundin. Hann tefldi skemmtilega skák við ítala að nafni Monticelli. Svíarnir héldu fyrst í stað að spaghettíkappinn yrði ekki mikil fyrirstaða en svo fórnaði ítalinn skyndilega 17.Bxh6!? og enginn vissi hvað var að gerast.

Monticelli þessi var þó snjall skákari og hafði unnið ýmis mót í heimalandinu. Síðar árið 1950 varð hann alþjóðlegur meistari og heiðurstórmeistari aldinn að árum árið 1985. Við hann er meira að segja kennd svokölluð Montcelli gildra í Bogo-indverskri vörn og er það efni í annan þátt eiginlega. Svo við komum aftur að skákinni þá tókst „okkar“ manni Lundin að hrekja biskupsfórnina og rétt þegar Monicelli virtist vera að ná alvörusprikli þá lauk skákinni með óvæntri drottningarfórn…

Munchen 1936

Hvítt: Mario Monticelli Ítalía
Svart: Erik Lundin Svíþjóð

Drottningarbragð

Hvítur gafst upp. Hann  neyðist til að gefa drottninguna og verður þá manni undir. T.d.27.Kxg2 Rxe3++ 28.Kh3 Bg2+ 29.Kg3 Rf5+ osfrv.

Facebook athugasemdir