Klúður í Sotsí – Læknir Magnúsar vissi af lyfjaeftirliti

anand_carlsen_8umfStrax eftir að Viswanathan Anand og Magnús Carlsen höfðu tekist í hendur og samið jafntefli í 8. einvígisskákinni á þriðjudag, mætti læknir á staðinn og tilkynnti þeim að þeir skyldu mæta í lyfjaeftirlit.

Óljóst er hvort keppendurnir vissu fyrirfram að þeir skyldu mæta í eftirlitið, en vitað er með vissu að læknir Magnúsar hafði um það vitneskju. Reyndar verður því ekki neitað, því hann ræddi við fréttamann VG á meðan umferðin (8.) fór fram þar sem kom fram að þeir skyldu mæta í lyfjaeftirlit að umferð lokinni.

Skipuleggjendur einvígisins [FIDE] tóku þessari uppljóstrun læknisins frekar illa – Þeir sendu frá sér yfirlýsingu vegna málsins á Twitter reikningi sínum:

Brede Kvisvik, læknir Magnúsar, segist engar upplýsingar hafa fengið frá FIDE um að leynd ætti að vera um lyfjaeftirlitið.

Ég hafði ekki hugmynd um það. Ég vona að þetta verði ekki mikið vandamál

Sagði Brede Kvisvik við Aftenposten.

Við vinnum mjög náið með mótshaldaranum. Þetta var ekki viljandi gert af okkar hálfu.

Þá segir Kvisvik að þetta hafi verið verst geymda leyndarmálið í Sotsí að lyfjaeftirlit færi fram þennan dag.

Þetta eru sömu eftirlitsmenn og sáu um einvígið í fyrra. Þetta var ekkert sérstakt leyndarmál og allir sem voru hér áttuðu sig á hverjir þeir voru.

Aftenposten hefur óskað eftir viðbrögðum FIDE vegna málsins, en Anastasija Karlovitsj fjölmiðlafulltrúi FIDE hefur ekki svarað fyrirspurnum.

Hrókurinn.is fylgist með framvindu málsins.

Sjáðu, PEÐIÐ ER SKÍTUGT!

Sjáðu, PEÐIÐ ER SKÍTUGT!

IVANCHUCK

Þegar málefið skák og lyfjaeftirlit ber á góma er varla hægt að minnast ekki á hr. Vassily Ivanchuk sem komst í hann krappann hér um árið.

Ivanchuk er fæddur í Berezhany í Úkraínu árið 1969 og hefur verið meðal bestu skákmanna heims í áratugi. Maðurinn með svarta hárið og svefnherbergisaugun er gjarnan nefndur „Big Chucky“ í skákheimum. Af hverju? Vegna þess að þegar hann tapar skák, þá fer hann út í skóg á nóttunni og ýlfrar á Tunglið til að reka burt púkana. Vegna þess að hann gengur um í stuttbuxum í frosti. Vegna þess að hann situr gjarnan í myrkvuðum herbergjum. Vegna þess að hann horfir frekar upp í loft en á skákborðið þegar hann teflir. Vegna þess að hann reynir að brjóta saman risa-ávísanir sem hann fær í verðlaun á skákmótum og reynir að stinga þeim í vasann. Og vegna þess, eins og Viswanathan Anand segir; hann býr á „plánetunni Ivanchuk“.

Óljóst er hvað fór í gegnum huga Sjúkka þann 25. nóvember 2008 í Dresden, á lokadegi Ólympíumótsins í skák, þegar hann tapaði fyrir Gata Kamsky. Það sem vitað er, er að eftir skákina var hann beðinn um að mæta í lyfjaeftirlit. Sjúkki tók ekkert mark á því og stormaði út úr salnum og inn í hliðarsal, sparkaði í steypta súlu í lobbýinu, barði hnefanum í borð í matsalnum og hvarf svo inn í fatahengi. Á meðan á þessu gekk, elti hann her eftirlitsmanna.

Lítið mál að setja þetta í vasann.

Lítið mál að setja þetta í vasann.

Vonlaust reyndist að fá hann til að pissa í glas vegna lyfjaprófsins. Þar sem neitun til að gefa sýni jafngildir sekt skv. lyfjareglum FIDE, var hann fundinn sekur um lyfjamisnotkun og stóð frammi fyrir tveggja ára „leikbanni“.

Atvikið í Dresden og sá möguleiki að Sjúkka yrði bannað að taka þátt í mótum í framhaldinu olli miklu fjaðrafoki í skákheimum. Allir helstu kollegar hans sögðu að það að saka einn úr þeirra hópi um lyfjamisnotkun væri móðgun við mannorð og greindarfar þeirra. Mótmælabréf voru skrifuð, og ásakanir um að skrifræðið væri að eyðileggja skák fóru á flug, enda sögðu þeir að, „eins og öllum ætti að vera ljóst, þá eru lyf gagnslaus þegar kemur að skákgetu.“

Facebook athugasemdir