Jafntefli í Sotsí – Þráseta varð að þrætuepli

Viswanathan Anand

Viswanathan Anand

Viswanathan Anand varðist af mikilli hörku í 7. skákinni í dag og hélt jöfnu. Árangurinn er gríðarlega mikilvægur í ljósi þess að nú á Anand þrjár hvítar skákir eftir en Magnús Carlsen aðeins tvær, en eins og bent var á í síðustu grein þá er Maggi í bullandi vandræðum með svörtu mennina gegn 1.d4.. Þá virðist Anand loksins hafa teflt það sem þarf til að halda með svörtu, blessaðan Berlínarmúrinn.

Það rímar reyndar skemmtilega við einvígi Kasparovs og Kramniks frá árinu 2000 en þá var Kaspi í bullandi vandræðum með svart gegn 1.d4 og tókst ekki að brjótast í gegnum Berlínarmúr Kramma.

Veik von fyrir Anand að vinna eina af þessum þrem og halda jöfnu með svart. Jafntefli í einvíginu tryggir úrslitakeppni.

Komi til úrslitakeppni, þá fer hún þannig fram:

Sé enn jafnt eftir tólf skákir, skal dregið um liti að nýju. Fjórar úrslitaskákir skulu tefldar. Skákirnar skulu tefldar með stafrænni klukku og tímamörk skulu vera 25 mínútur á mann með 10 sekúndna viðbótartíma á leik. Verði enn jafnt, skal tefla tvær hraðskákir með 5 mínútna umhugsunartíma að viðbættum 3 sekúndum á leik. Verði enn jafnt skal tefla tvær hraðskákir til viðbótar með sömu tímamörkum. Verði enn jafnt (eftir 10 úrslitaskákir í heildina), skal tefla bráðabanaskák (sudden-death).

Skákin í dag var mjög löng og verður rannsökuð – En fyrst þetta:

Samsæriskenning dagsins

'Looks like Bob from the London branch got dragged into the fax.'Til er sú kenning að fyrir einvígi Kasparovs og Krammniks árið 2000 hafi margir úr heimi skákelítunnar verið ansi þreyttir á óslitinni setu Kasparovs á heimsmeistarastóli í 15 ár, eða allt frá einvíginu við Karpov árið 1985. Sagt er að margir hafi því lagst á sveif með Kramma og sent honum alla helstu gullmola og nýjungar úr gagnagrunnum sínum sem skýri hversu gríðarvel undirbúinn hann var gegn Grunfeldvörn Kaspa. – Elítan hafi þannig tryggt endalok Kaspa á veldisstóli og þannig rutt veginn fyrir aðra úr þeirra hópi sem jafnframt varð grunnur að sameiningu FIDE og sambandi Kasparovs sem hafði um árabil staðið fyrir sjálfstæðum heimsmeistaratitli.

Heyrst hefur að svipað sé uppi á teningnum nú og elítan hafi tekið sig saman og undirbúið Anand fyrir einvígið. Af hverju? Líklega til þess að losna við Magga sem hefur verið og er langbestur og margt bendir til samskonar þrásetu.

Engar fregnir hafa þó borist af Anand hlaupandi um Sotsí með 70 metra langt telefax frá Kramma undir hendinni.

Þetta er að sjálfsögðu aðeins samsæriskenning – Þær eru alltaf skemmtilegar!

Stóra gagnafleiksmálið

Boris Gelfand

Boris Gelfand

Talsverð umræða fór fram í gær um hvort afleikur og gagnafleikur sem áttu sér stað í 6. skákinni séu einsæmi í heimsmeistaraeinvígi.

Að sjálfsögðu eru mörg dæmi um afleiki í einvígum – Sem dæmi á Anand metið í að vinna í fæstum leikjum í einvígi eftir grófan afleik hr. Boris Gelfand í 8. skák þeirra frá 2012. Eftir 16..Dxh1 missti Gelföndin af 17. Df2 og gaf því drottningin er lokuð inni.

dr. Alexander Aljekín og Dr. Max Euwe 1937

dr. Alexander Aljekín og Dr. Max Euwe 1937

Chessbase.com hefur greint stóra gagnafleiksmálið og bendir á tvö dæmi:

Í því fyrra voru það dr. Alexander Aljekín og dr. Max Euwe sem báðir misstu af einfaldri taktík í 16. skák seinna einvígis þeirra árið 1937.

Hvítur lék síðast 25. Rc3. Svartur svarar með 25… De5?? og hvítur á nú einfalda taktík –

Dr. Aljekín missti af hótuninni og lék 26. Bb2?? – Euwe tók rakleitt við boltanum og lék 26..Bc6?? – Dr. Aljekín var enn ekki búinn að átta sig á þessu og lék 27. a3?? og Euwe svarar 27. Bd6 og sleppur fyrir horn.

Hverju misstu þeir af? – Eftir 25.. De5 á hvítur hinn einfalda Dh8+! Kxh8 og Rxf7 og Rxe5 í framhaldinu og svartur er tveim peðum undir sem er snartapað.

Michail Bitvinnik

Mikhail Botvinnik

Næsta dæmi er úr 18. skák heimsmeistaraeinvígis þeirra Mikhail Botvinnik og Vasily Smyslov frá árinu 1958, sem var þriðja einvígi þeirra.

Við grípum niður eftir 22. leik svarts Hcd8??. Hér á hvítur einfalda taktík sem gerir út um skákina, en Botti lék 23.Bh3 eins og fínn maður. Hann missti af 23.Rd4! og svartur verður að gefa.

Ef 24..Rxd4 þá vinnur 25. He7 Hf7 og 26. Bd5 – Ef 23..cxd4 24.Bd5+ Kh8 25.He7 og hvítur vinnur.

Næst á svartur sviðið því eftir 26. Dg5 lék Smyssi Hde8?? – Hann varðaði ekkert um 26..Hd2 sem vinnur – t.d. 27. Be6+ Hf7 28. Bxf7 Kf7 og hvítur á ekki fleiri skákir og verður sjálfur mát.

Krúttlegt!

7. skákin

Fyrir skákina hafði Carlsen unnið tvær af þrem með hvítt og sú þriðja var jafntefli; 2,5 af 3 með hvítt er augljóslega allt of mikið í einvígi sem þessu.

Anand beitti Berlínarmúrnum gegn 1.e4 og ætlaði greinilega ekki að tapa enn einni svörtu skákinni.

Óvenjulegt var að Magnús tók áskoruninni og dældi út teoríu. Eftir 23 leiki og tæpar 30 mínútur hjá Anand en aðeins tæpar 20 hjá Magga var staðan svona:

Staðan eftir 23. leik svarts - Be6

Staðan eftir 23. leik svarts – Be6

Staðan hefur þrisvar áður sést í skákum milli stórmeistara og alltaf endað með jafntefli. Maggi var greinilega vel undirbúinn og lék hér fyrsta leiknum sem ekki hefur sést áður; 24. g4.. Hvítur heldur enn nokkurri spennu í stöðunni.

Staðan eftir 31. leik hvíts - Hh5

Staðan eftir 31. leik hvíts – Hh5

Eftir skákina sagði Anand að honum hugnaðist ekki að leyfa hvítum að vera með f og g peðin á borðinu eftir að hvítur tekur á e5, það væri einfaldlega afar vond staða á svart, kannski jafntefli en mjög erfitt að verjast í þeirri stöðu. Maggi var sammála og sagði að líklega væri hægt að halda stöðunni, en jafnteflisleiðin væri mjög langsótt og beita þyrfti mikilli nákvæmni. Anand lék því 31..Bxg4! og ákvað frekar að verjast manni undir en þó með 2 peð fyrir.

Staðan eftir 70. leik svarts - bxc4

Staðan eftir 70. leik svarts – bxc4

Eftir miklar tilfærslur, sem einkenndust helst af því að Maggi lék fram og til baka í von um að þreyta andstæðing sinn áður en hann legði til atlögu, kom þessi staða upp. Anand drap á c4 og gerir út um sigurvonir hvíts, sem verður að hafa peð á borðinu ef hann ætlar sér eitthvað í stöðunni.

Staðan eftir 104. leik hvíts - Kxc6

Staðan eftir 104. leik hvíts – Kxc6

Maggi drepur síðasta peð svarts og hefur 50 leiki til þess að reyna að gera eitthvað í stöðu sem er vel þekkt jafntefli. Það þýðir þó lítið að rökræða stöðuna við Magga, enda vann hann samskonar endatafl gegn Erwin L’Ami árið 2011 í Wijk aan Zee.

Þegar þarna var komið fóru hugmyndir á flug um að Maggi ætlaði sér að setja met með því að tefla lengstu skákina í heimsmeistaraeinvígi – Metið í dag er frá árinu 1978 og það eiga „vinirnir“ Viktor Grimmi Kortsnoj og Anatoly Karpov en skák þeirra fór í 124 leiki!

Staðan eftir 121. leik hvíts - Hc1?

Staðan eftir 121. leik hvíts – Hc1?

Það kom því gríðarlega á óvart þegar Maggi ákvað að skipta upp á hrókum og semja jafntefli eftir aðeins 122 leiki!? Svidler sem lýsir skákunum á heimasíðu mótsins skildi ekkert í hvað hann var að gera – til hvers var hann að tefla svo lengi og klára ekki 50 leikina sem hann hafði eða amk sló metið með þrem leikjum til viðbótar?!

Margir lýstu þeirri skoðun að Maggi hefði sýnt andstæðingi sínum vanvirðingu með því að tefla skákina svo lengi eftir að ljóst var hver niðurstaðan yrði – Jafnvel töldu einhverjir að hann væri einfaldlega að tefja skákina eins lengi og hann gat svo Anand hefði minni tíma til að undirbúa sig fyrir skák morgundagsins. Hafa verður í huga að það hefur ávallt verið stíll Magga að tefla allar stöður til enda, en kannski var þetta heldur langt gengið.

Staðan eftir sjö umferðir er 4-3 fyrir Magga og Anand á eftir þrjár skákir með hvítt af síðustu fimm. Spennan er því alsráðandi í lokaumferðunum og jafnteflið í dag gæti dugað Anand, takist honum að vinna eina af þessum þrem.

Facebook athugasemdir