Ásmundur Ásgeirsson

Íslenskir skákmeistarar: Ásmundur varð 6 sinnum Íslandsmeistari

Ásmundur Ásgeirsson

Ásmundur Ásgeirsson þótti einstakur heiðursmaður.

Ásmundur Ásgeirsson var einhver albesti skákmaður Íslands 1931-1946.  Ásmundur varð sex sinnum Íslandsmeistari og tefldi á fimm ólympíuskákmótum. Hann var kóngurinn í íslensku skáklífi þegar ævintýraprinsinn Friðrik Ólafsson kom fram á sviðið um miðbik 20. aldar.

Ásmundur tefldi tvisvar við Alexander Alekhine heimsmeistara. Aðra skákina tefldi Alekhine í fjöltefli, en Ásmundur var þá Íslandsmeistari. Þetta var ein af perlum Alekhines. Þegar Ásmundur lést, 2. nóvember 1986, skrifaði Baldur Möller um hann minningarorð í Morgunblaðið.  Baldur varð Íslandsmeistari þrisvar sinnum, afar slyngur skákmaður, og einstakur sómamaður í hvívetna. Ásmundar naut ekki langrar skólagöngu, segir Baldur, en hann var margfróður heiðursmaður.

Alexander Alekhine

Alexander Alekhine var fyrsti heimsmeistarinn í nokkurri keppnisgrein sem kom til Íslands. Það var 1931 og þá tefldu þeir Ásmundur fræga skák.

Baldur skrifar: Í dag er borinn til grafar Ásmundur Ásgeirsson, skákmeistari, en hann lézt í Reykjavík 2. þ.m., rúmlega áttræður að aldri. Ásmundur fæddist í Reykjavík 14. marz 1906, en foreldrar hans voru Ásgeir Ásmundsson, sjómaður og leiðsögumaður í Reykjavík, og Þórunn Þórsteinsdóttir. Ásmundur var tvíkvæntur og átti tvö börn í fyrra hjónabandi sínu, Ásu, f. 15. nóv. 1928, búsetta í Reykjavík, og Ásgeir, f. 2. júní 1938, mjólkurverk fræðing, búsettan í Svíþjóð.

Ásmundur naut ekki langrar skólagöngu, en aðstæður hans leyfðu það ekki. Hann hefur þó án efa verið mjög vel til náms fallinn, enda var hann t.d. að upplagi mjög góður stærðfræðingur og úr skólum var hann þó margfróður um ýmis efni, svo sem hæfileikar hans gáfu efni til.

Rúmlega tvítugur var Ásmundur orðinn einn bezti skákmaður Íslendinga og átti

Ásmundur

Ásmundur: ,,hugkvæmni, keppnisþrek og óbilandi jafnvægi.“

stóran þátt í þeirri grósku sem varð í íslenzku skáklífi á þriðja áratug aldarinnar, en varð skákmeistari Íslands í fyrsta sinn árið 1931, en skákmeistari Reykjavíkur 1930. Þessa titla vann hann á 15 ára tímabili alls átta sinnum og tefldi 5 sinnum í landsliði Íslands á Ólympíuskákmótum frá 1930 til 1939 og vann þar marga athyglisverða sigra.

Einkenni Ásmundar sem skákmanns voru ekki sízt hugkvæmni, keppnisþrek og óbilandi jafnvægi hans, en eðlisgáfur hans voru eflaust sú kjölfesta, sem allt þetta byggðist á. Með þessum línum vil ég að leiðarlokum flytja honum þakkir fyrir samfylgdina á gróskuárum skáklistar „millistríðsáranna“, þótt engan gæti grunað þá hvað á eftir mundi fylgja.

Ég minnist jafnframt hlýju hins eðliskurteisa heiðursmanns, sem hann ætíð var í íþrótt sinni. Fjölskyldu hans flyt ég samúðarkveðjur.

Alexander Alekhine – Ásmundur Ásgeirsson, Reykjavík 1931. Teflt í fjöltefli(!) þegar Ásmundur var ríkjandi Íslandsmeistari.

Facebook athugasemdir