Winnipeg árið 1900

Íslendingur ,,Taflkappi Canada“ — Við erum fullkomnir jafnokar hinna bestu að andlegu atgervi!

Magnus Smith

Magnús Magnússon varð þrisvar skákmeistari Kanada. Var hetja í Íslendingasamfélaginu, enda sýndi hann með afrekum sínum við skákborðið að Íslendingar voru engir bjánar!

Magnús Magnússon Smith fæddist á Íslandi árið 1869, varð mestur skákmaður í Kanada kringum aldamótin 1900, Kanadameistari 1899, 1904 og 1906. Á undanförnum áratugum höfðu þúsundir Íslendinga freistað gæfunnar í Ameríku, og víða voru öflug íslensk samfélög í Vesturheimi. Íslendingar vestanhafs þurftu sínar hetjur, eins og aðrir, og afrek Magnúsar við skákborðið glöddu Íslendingana ósegjanlega — Magnús sannaði að Íslendingar voru engir aular!

Eftir fyrsta sigur Magnúsar á meistaramóti Kanada, 1899, var mikið um dýrðir. Hér er skemmtileg frétt úr Heimskringlu, blaði Íslendinga í Kanada. Fréttin birtist 13. apríl 1899 og það er fögnuður og stolt í textanum:

Íslenski hornleikaraflokkurinn tók á móti Magnúsi Magnússyni Smith, nýbökuðum skákmeistara Kanada:

Landi vor Magnús Smith, frá Winnipeg, hefir nú unnið taflþraut sína í Montreal og er nú viðurkendur besti taflmaður í Canada.

Magnús Smith kom hingað til bæjarins fyrir rúmlega hálfu ári síðan. Hafði hann áður verið nokkur ár vestur við Kyrrahaf, og æft þar manntafl. Var hann færastur allra taflmanna þar vestra.

Eftir að hafa sigrað hina bestu taflmenn í California, British Columbia og Norðvestur-héruðunum, tók hann til að þreyta við færustu menn í þeim tveimur taflfélögum sem eru hér í bænum.

En það kom brátt í ljós að það var enginn sá taflmaður í þessum tveimur félögum, er mætti við honum.

Þeir sem aður höfðu haldið þeim heiðri að vera viðurkendir taflkappar, urðu nú að lúta í lægra haldi fyrir þessum glöggskygna landa vorum og skal það sagt þeim til heiðurs, að þeir höfðu þeim mun meiri mætur á Magnúsi, sem hann lék þá ver í tafiþrautunum.

Svo kom það fyrir, að það var stofnað til almenns taflmannafundar í Montreal og skildi þar teflt um bikar einn mikinn og nafnbótina: Taflkappi Canada.

Taflfélögin hér gengust þá fyrir því að Magnús yrði sendur austur á þennan taflmanna fund. Íslendingar tóku að sjálfsögðu vel í þetta mál og Heimskringla og Lögberg urðu einu sinni sammála.

Var svo skotið saman dálitlum sjóð í þessu skyni, og Magnús sendur austur. Og þetta hefir nú haft þann árangur sem að framan er sagt, og er það Mr. Smith og oss Íslendingum öllum til hins mesta sóma.

Á taflfundi þessum í Montreal mættu margir menn. En 18 af þeim tefldu um taflkappaheiðurinn og skyldi hver þeirra tefla 12 skákar. Magnús fékk 9½ vinning, tapaði einni og gerði 3 jafntefli, en hvert jafntefli er talin hálfskák á hvora hlið.

Winnipeg árið 1900

Winnipeg í kringum aldamótin 1900. Íslendingar settu sterkan svip á ört vaxandi borg. Þarna bjó og tefldi Magnús í nokkur ár.

Sá sem næstur honum stóð að leikslokum var að eins hálfa skák á eftir. Að unnum þessum sigri, rigndi að hr. Smith lukkuóskum úr öllum áttum, og þar á meðal frá taflfélögunum hér í Winnipeg.

Framkoma hans öll þar eystra heflr verið hin sómasamlegasta, og andstæðingar hans í taflrauninni láta mikið af honum og telja hann vel að þeim heiðri kominn sem hann hefur náð í þessari ferð.

Íslendingar og aðrir hér í bænum, sem lögðu fé til fararinnar, eiga þökk skilið fyrir þá framtakssemi. Þeir þurfa ekki að sjá eftir útlátunum, því Magnús hefir unnið þjóðflokki vorum til sóma, og sýnt og sannað það sem margir hérlendir menn hafa áður viðurkent, að Íslendingar eru, að því er snertir andlegt atgervi, fullkomnir jafnokar hinna bestu manna hér í landi, af hvaða þjóðflokki sem þeir eru.

Það er búist við að Magnús komi hingað til bæjarins að austan á morgun, og að íslenzki hornleikaraflokkurinn mæti honum á vagnstöðvunum hér.

Það er og talið sjálfsagt að taflfélögin hér og Íslendingar haldi honum samsæti einhverntíma innan skamms.

Ítarefni:

 

Facebook athugasemdir