Nú um helgina mun fara fram uppáhaldsmót/keppni flestra skákmanna. Um er að ræða fjölmennasta mót hvers árs, Íslandsmót skákfélaga. Keppt er í fjórum deildum og fer fyrri hluti keppninnar að þessu sinni fram í Rimaskóla. Að öllu jöfnu fer keppnin fram yfir tvær helgar, sú fyrri í október og sú seinni jafnan í mars.
Efsta deild hófst raunar nú á fimmtudaginn með einni umferð en föstudagskvöldið hófu allar deildir sínar fyrstu viðureignir á meðan efsta deild háði sína aðra viðureign. Keppnin mun halda áfram um helgina með tveimur umferðum klukkan 11 og 17 á laugardeginum og svo 11 á sunnudeginum. Við hvetjum skákáhugafólk að líta við í Rimaskóla. Kaffi og kökur til styrktar nemendum skólans, bóksala og hægt að kíkja á alla helstu skákmenn þjóðarinnar etja kappi.
Í efstu deild telja flestir að sveit Hugins sé sigurstranglegust en þeir tefla fram stigahæstu sveitinni og heilum sex stórmeisturum!
Hér eru fleiri svipmyndir úr efstu deild:

Stefán og Hjörvar Steinn eru báðir stórmeistarar og tefla fyrir Huginn og alþjóðlegi meistarinn Dagur Arngrímsson glímir hér við Stefán. Athyglisvert er að Stefán er nánast undanteknigalaust í sigurliði keppninnar.

Neðstu borð liðs Taflfélags Vestmannaeyja. T.V. hefur gjarnan verið á palli undanfarin ár en ekki náð gullinu enn

Luis Galego er mikill Íslandsvinur og hefur komið hingað oftar en tíu fingur geta talið. Galego er ávallt kátur og teflir með Víkingsklúbbnum að þessu sinni.

Þessir hafa marga orustuna háð saman. Það þarf varla að kynna þa Jóhann Hjartarson og Jón L. Árnason til leiks!

Aloysas Kveinys, annar mikill Íslandsvinur og mannvinur mikill. Ætið stutt í brosið hjá þessum reynda stórmeistara
Þó mikið sé um reynda meistara og jafnvel erlenda meistara þá er Íslandsmót Skákfélaga fyrir alla og að margra mati hálfgerð árshátið skákmanna. Kíkjum á fleiri svipmyndir:

Þessar vantar yfirleitt ekki á mót, Ingibjörg Edda (efnilegasti skákdómari landsins) og forsetafrúin, Andrea

„Doninn“ sjálfur, Róbert Lagerman. Nýkominn úr landsliðsferð í kotru þar sem 5. sætið var tekið á EM. Það er bara einn Don og ástæða fyrir því!
Ritstjórn Hróksins er að mestu upptekinn við taflmennsku yfir helgina en hirðljósmyndari Hróksins hefur verið duglegur eins og sjá má! Þeir sem hafa áhuga á að fylgjast með gangi mála er bent á Skak.is og Chess-Results.
Hrókurinn mun svo vafalítið gera helgina upp og eins uppfæra gang mála frá Grand Prix mótinu í Baku þar sem Caruana er mættur aftur til leiks og gerir atlögu að efsta sæti heimslistans.