Indverska hraðlestin stingur af í Bilbao

Fimmfaldi heimsmeistarinn, Viswanathan Anand, lagði Spánverjann Fransisco Vallejo Pons í 2. umferð Ofurmótsins í Bilbao sem fram fór á mándudag.

CaptureAnand, sem gárungarnir eru farnir að nefna Indversku Hraðlestina, er nú með fullt hús eftir tvær umferðir sem gera 6 stig, enda er notast við stigagjöf sem svipar til þeirrar sem notuð er í knattpyrnu, þ.e. þrjú stig fyrir sigur og eitt fyrir jafntefli.

Anand hefur bætt við sig átta stigum fyrir frammistöðu sína og nálgast nú 2800 stigin; með sigri gegn Levon Aronian á þriðjudag skellir hann sér í þriðja sæti heimslistans á meðan Aronian dettur líklega niður í 5. sæti listans. Hann hefur hæst náð 2820 í janúar árið 2011.

Levon Aronian saltaði Ruslan Ponomariov fyrv. heimsmeistara og á enn möguleika á að ná í skottið á Hraðlestinni áður en fyrsta umferðin er úti, enda mætast þeir Levon og Viswanathan í dag.

Viðureign þeirra félaga er sérstaklega áhugaverð í ljósi þess að Levon er lang stigahæsti keppandinn í Ofurmeistaramótinu og takist Hraðlestinni að vinna, þá gefur það hugsanlega ákveðna vísbendingu fyrir komandi heimsmeistaraeinvígi við Magnús Carlsen  í byrjun nóvember.

Facebook athugasemdir