Til allrar hamingju eiga Viswanathan Anand og Magnús Carlsen ekki einkaleyfi á skákeinvígjum, enda eru þeir lítið að slá um sig með skemmtanagildi. Hikaru Nakamura og Levon Aronian tefla einvígi í St. Louis í BNA næstu daga og vonandi eru þeir hugrakkari en kollegarnir í Sotsí.
Nakamura (2775) er stigahæsti skákmaður Bandaríkjanna, en ekki er sjálfgefið að hann haldi þeim titli mikið lengur. Westley So (2762) er nefnilega kominn með ríkisborgararétt og bankar þétt á dyrnar eftir góðan sigur á Milljónamótinu í Vegas í október. Þá er ekki með öllu útilokað að hr. Fabiano Luigi Caruana (2829) skipti um búning og tefli undir fána BNA á næstunni, en hann er bandarískur ríkisborgari; slíkar kenningar hafa verið á lofti eftir Sinquenfieldmótið fyrr í haust en þar sást hr. Rex Sinquenfield ræða við Caruana í einrúmi – Kenningin er sú að hann hafi boðið Fabi peningagreiðslu fyrir fánaskiptin. En kannski voru þeir bara að ræða um bókina „Látið blómin tala„, hver veit!
Í öllu falli er einvígið kærkomin æfing fyrir Naka sem gerir nú atlögu að sæti í Áskorendamótinu fyrir næsta heimsmeistaraeinvígi sem fram fer í byrjun árs 2016. Naka er sem stendur í öðru sæti í Grand Prix mótaseríu FIDE en efstu fjögur sæti í heildarkeppninni veita rétt til þátttöku í Áskorendamótinu.
Þeir félagar tefla í Taflfélaginu í St. Louis (The Chess Club and Scholastic Center of Saint Louis), en þar fór einmitt umrætt Sinquenfieldmót fram. Verðlaunaféð er hvergi nærri jafn hátt og í Sotsí en þó er um að ræða heila $100.000 – eða jafn mikið og sigurvegarinn fékk í Vegas og jafn mikið og 1. verðlaun á margumræddu Sinquenfield móti í haust.
Dagskrá einvígisins
Föstudagur, 21. nóvember, 20:00 | Kappskák 1. umferð |
Laugardagur, 22. nóvember, 20:00. | Kappskák 2. umferð |
Sunnudagur, 23. nóvember, 20:00 | Kappskák 3. umferð |
Mánudagur, 24. nóvember, 20:00. | Kappskák 4. umferð |
Þriðjudagur, 25. nóvember, 20:00 | Hraðskák (16 skákir) |
Aronian og Nakamura eru ekki þeir einu sem tefla í St. Louis umrædda daga, því meðfram einvíginu fara fram tvö 10-manna mót – annars vegar mót fyrir skákmenn sem reyna að næla sér í áfanga að alþjóðlegum meistaratitli og hins vegar stórmeistaraflokkur.
Herlegheitin verða að sjálfsögðu í beinni á heimasíðu mótsins en þar verður stjörnulið skákskýrenda: Stórmeistarinn Yasser Seirawan, stórmeistarinn Maurice Ashley og Jennifer Shahade stórmeistari kvenna.
Hrókurinn.is fylgist að sjálfsögðu með mótinu.