Heimsmeistaraeinvígið í uppnámi: Beiðni um frestun hafnað –  Styrktaraðili einvígisins hulinn leyndarhjúp

sochi-olympic-village-rendering

Sochi

Þegar aðeins rúmir tveir mánuðir eru þar til fyrsta leiknum verður leikið í heimsmeistaraeinvígi Magnúsar Carlsens og Indverjans Viswanathan Anands er fjölmörgum spurningum um einvígið enn ósvarað. Áður hafði komið fram að teflt yrði í Sochi í Rússlandi, en hvar í borginni er óljóst; þá er óljóst hversu hár verðlaunasjóðurinn verður. Þá virðist leynd hvíla yfir hvaða fyrirtæki keypti réttinn að mótshaldinu og jafnframt hvílir leynd yfir eignarhaldi fyrirtækisins.

ik

Kirsan og Pútín eru ágætir vinir.

Fjallað er um málið í mörgun fjölmiðlum í Noregi undanfarna daga. Þar kemur fram að umboðsmaður og lið heimsmeistarans, Magnúsar Carlsens, segir keppnina komna í tímaþröng og að skortur sé á upplýsingum frá FIDE.

Þá hefur komið fram í norskum miðlum að Espen Agdestein, umboðsmaður Carlsens, hafi heyrt af Sochi sem mótsstað í fjölmiðlum en ekki frá Alþjóða-skáksambandinu (FIDE).  Þá eru engar fréttir um málið á vef FIDE.

Forseti FIDE, Kirsan Ilyumzhinov, tók skýrt fram á nýafstöðunu Ólympíumóti í Tromsö í Noregi , að mótið færi fram í rússnesku Ólympíuborginni (Sochi) og að einvígið myndi hefjast þann 7. nóvember líkt og gert hafði verið ráð fyrir.

Kirsan lét hafa eftir sér í norska blaðinu Dagbladet:

Við höfum þegar sent samningana vegna einvígisins til Carlsens og Anands. Þeir hafa yfirfarið þá og munu á næstu dögum senda fulltrúa sína til Sochi til þess að velja heppilegan mótsstað og hótel. Aðeins á eftir að ljúka tæknilegum atriðum.

 

Ekki hægt að fresta

Í dag greindi Itar-Tass fréttastofan frá því að umboðsmaður Carlsens hafi haft samband við FIDE og óskað eftir því að einvíginu yrði frestað.

Kirsan Ilymzhinov hélt blaðamannafund í Moskvu í dag og sagði:

Mér hefur borist erindi frá umboðsmanni Carlsens þar sem óskað er eftir því að einvíginu verði frestað. Ég tek fram að ástæður beiðninnar eru ekki keppnisstaðurinn (Sochi), heldur er beiðnin óháð sérstökum atvikum. FIDE hefur þegar svarað erindinu og sagt að ekki komi til greina að fresta einvíginu.

Þá segir Kirsan að gert hafi verið ráð fyrir því að einvígið hæfist þann 7. nóvember og frestun myndi verða til þess að einvígið rækist á aðra viðburði hjá FIDE.

 

Kasparov vildi flytja einvígið

g_image

Garrý Kasparov er ekki á jólakortalistanum hjá Pútín.

Vitað var fyrir einhverju síðan að Carlsen og liðsmenn hans voru afar ósáttir við Sochi sem mótsstað. Í nýafstöðnum kosningum um forsetaembættið hjá FIDE — sem fram fóru samhliða Ólympíumótinu — var annar frambjóðandinn, fyrv. heimsmeistarinn Garrý Kasparov einnig afar ósáttur við staðarvalið og hafði á stefnuskránni áætlanir um að einvígið skyldi flutt og ekki haldið fyrr en á næsta ári.

Carlsen og lið hans studdi framboð Kasparovs og var honum sammála. Niðurstaða kosninganna varð hins vegar sú að Kirsan hélt velli sem forseti og hyggst augljóslega ætla að standa við gerðar áætlanir varðandi einvígið.

 

Fjölmargt óljóst

Fjölmargt er óljóst varðandi einvígið. Espen Agdestein sagði við norska fjölmiðilin NRK í dag að hann hefði sent beiðni til FIDE um að einvíginu yrði frestað. Ein af ástæðunum sagði hann vera ástandið í Úkraínu, en það væri ekki eina ástæðan. Agdestein sagði:

Það eru fjölmargar ástæður fyrir því að við förum fram á frestun einvígisins. Það er margt mjög óljóst varðandi einvígið og við teljum ekki góða lausn að tefla í Sochi í nóvember.

Þá sagði Agdestein að dularfullt fyrirtæki hefði keypt réttinn að keppninni:

FIDE neitar að upplýsa okkur um eignarhald á fyrirtækinu

2001669

Espen Agdestein er ekki par sáttur við FIDE

Aðspurður hvort Carlsen myndi sætta sig við að tefla í Sochi í nóvember og undirrita samninginn sagði Agdestein:

Við höfum ekki tekið ákvörðun um það ennþá. Við viljum skoða málið betur og reyna að finna lausn. Það er afar óheppilegt að ekki hafi verið gengið frá lausum endum varðandi einvígið. Það er mjög mikilvægt að allar aðstæður einvígisins séu fyrirsjáanlegar.

Lið Carlsens hefur ekki gefið út hvenær þeir gefa lokasvar um hvort þeir ætli að undirrita samninginn.

 

Viðskiptabann ESB á Rússland hefur áhrif á einvígið

Ástandið í Rússlandi og viðskiptabannið sem Evrópusambandið setti á Rússland hafa áhrif á ákvörðun Carlsens um hvort hann samþykkir að tefla í landinu eða ekki. Ljóst er að væntanlegur styrktaraðili mótsins, Fylkisstjórinní Krasnodar  Alexandar Tkachyov er á bannlista Evrópusambandsins og það veldur liði Carlsens áhyggjum.

Þegar tilkynnt var um Sochi sem mótsstað kom fram að væntanlegur verðlaunasjóður yrði 3 milljónir dollara, sem er aðeins helmingur upphæðarinnar sem teflt var um í Chennai á síðasta ári. Verðlaunin skiptast þannig að sigurvegarinn fær 60% og sá sem tapar fær 40%. Umboðsmaður Carlsens sagði um málið:

Upphæðin er miklu lægri en hún hefur verið í fjölmörgum heimsmeistaraeinvígjum undanfarin ár. Við viljum sjá sömu tölur og voru í boði fyrir ári.

Að lokum segir Agdestein um undirritun samningsins:

Það þarf að ganga frá mörgum lausum endum sem fyrst. Það sem við viljum vita er hvort 100% öruggt sé að mótið fari fram í Sochi, FIDE heldur því fram en  við vitum það ekki. Sem dæmi þá krefjumst við staðfestingar á því hvort styrtaraðilinn hafi greitt verðlaunaféð.

Agdestein sagði jafnframt við norska fréttablaðið Dagbladed að eitt af vandamálunum sem leysa þyrfti væri hvor þeir fengju hlut af sjónvarpsréttinum vegna einvígisins. FIDE á réttinn en Agdestein óttast að nú verði hann seldur og það verði auðvelt fyrir ríkissjónvarpið í Rússlandi að kaupa hann á niðursettu verði.

 

Facebook athugasemdir