Heimsmeistaraeinvígi Carlsens og Anands: Geta Íslendingar höggvið á hnútinn? Sögulegasta einvígi síðan 1972

Hrafn Jökulsson skrifar.

Fimmtudaginn 6. nóvember — eftir 69 daga — eiga Magnus Carlsen og Vishy Anand að setjast að tafli í Sochi í Rússlandi. Heimsmeistaratitillinn er í húfi. Tekst indverska tígrisdýrinu að hrifsa aftur til sín krúnuna frá norska undradrengnum? Eða verður kannski ekkert einvígi? Er klofningur yfirvofandi í FIDE? Það er nú það. Í veðbanka Hróksins eru nefnilega taldar nánast engar líkur á því að Magnus Carlsen sé á leið til Rússlands á næstunni. Geta Íslendingar höggvið á hnútinn, bjargað heimsmeistaraeinvíginu og komið í veg fyrir klofning FIDE?

Anand-Carlsen

Anand og Carlsen. Nánast útilokað að þeir mætist í Rússlandi.

Allt er í uppnámi innan skákheimsins. Andrúmsloftið er eldfimt og hápólitískt.

Rússar eru þessa dagana önnum kafnir við stríðsrekstur í Evrópu, og Magnus Carlsen vill ekki láta sjá sig í Sochi. Hvorki Carlsen né Anand voru spurðir áður en FIDE tilkynnti að einvígi þeirra ætti að fara fram í Rússlandi. Þaðan af síður voru þeir spurðir hvort þeir sættu sig við að verðlaunapottur yrði helmingi minni en í einvígi þeirra á Indlandi í fyrra.

Það var Kirsan Ilymzhinov forseti FIDE sem ákvað að einvígið færi fram í Rússlandi, án þess að spyrja kóng eða prest — nema náttúrlega Vladimir Valdimirovich Pútín.

Kirsan-with-Putin

Annar er í stríði við Evrópu, hinn var numinn brott af geimverum.

Forseti Rússlands og forseti FIDE eru góðvinir og makkerar og finnst gaman að láta mynda sig saman. Skák er í hávegum höfð í Rússlandi, og júdókappanum Pútín hentar vel að koma fyrir eins og slunginn skákmaður (sem ekkert bendir reyndar til) og samtímis nýtur Kirsan góðs af því að vera besti vinur aðal. Samstarf þeirra teygir sig langt aftur, enda var Kirsan um árabil forseti í Kalmykíu, sem er hluti af rússneska sambandsríkinu. Íbúar í Kalmykíu eru flestir blásnauðir en Kirsan rakaði saman auðævum þau 17 ár sem hann sat í embætti, 1993-2010.

Kirsan var kjörinn forseti FIDE árið 1995 og hefur staðið af sér þrjú mótframboð, nú síðast skellti hann Garry Kasparov á þingi FIDE í Tromsö, fyrr í ágúst.

Kasparov er blótsyrði í Kreml, svo vinirnir Kirsan og Pútín áttu sameiginlegra hagsmuna að gæta. Rússnesk sendiráð um allan heim voru tannhjól í  kosningavél Kirsans, sem  vann stórsigur á hinum mikla Kasparov og hans snjalla liði. Við Rauða torgið hefur oft verið dregin fram vodkaflaska af minna tilefni.

En Kirsan fékk ekki langan tíma til að fagna sigrinum á Kasparov.

Ekkert tilboð hafði borist í heimsmeistaraeinvígi Carlsens og Anands, sem búið var að bóka í nóvember 2014. Málið var orðið hið vandræðalegasta fyrir Kirsan og FIDE, þegar bjargvætturinn Pútín kom til skjalanna.

11. júní að FIDE tilkynnti formálalaust að einvígi Carlsens og Anands yrði í Sochi. Síðan eru 69 dagar.

Fresturinn sem FIDE gaf Carlsen og Anand til að skrifa undir samning vegna einvígisins rann út á föstudaginn 29. ágúst. Þá hafði Carlsen ekki skrifað undir og FIDE hótaði að svipta hann titlinum. Nú hefur fresturinn verið framlengdur til 7. september.

En hvað gerist ef Kirsan sviptir Carlsen krúnunni?

r11_sergey_karjakin_russia_060

Karjakin. Tilvalinn heimsmeistari enda nýtur hann velþóknunar í Kreml.

Mjög margt. Í fyrsta lagi er líklegast að Sergey Karjakin tefli einvígið við Anand um heimsmeistaratitil FIDE. Í slíku einvígi er Rússinn Karjakin trúlega sigurstranglegri en Anand. Heimsmeistaratitillinn fer þá ,,heim“ til Rússlands, sem vitanlega væri Pútín mjög að skapi.

Carlsen verður hinsvegar frjáls eins og fuglinn. Því er spáð að hann muni efna til einvígis við Fabiano Caruana um nýjan heimsmeistaratitil. Carlsen og Caruana eru númer 1 og 2 á heimslistanum. Anand og Karjakin eru númer 5 og 8.

Skákheimurinn mun sem sagt klofna.

Áhugaverðasta spurningin er þessi: Hversu langt er Kirsan reiðubúinn að ganga? Er hann tilbúinn að stofna FIDE í hættu og sjá á bak mörgum bestu skákmönnum heims?

Það virðist óhugsandi að FIDE svipti besta skákmann heims krúnunni. Carlsen missir þá kannski kórónuna en verður sleginn til riddara í Evrópu — og Bandaríkjunum.

Því Carlsen hefur satt að segja mun meiri áhuga á Bandaríkjunum en Rússlandi.

Hann er þessa dagana í St. Louis í Bandaríkjunum á sterkasta skákmóti sögunnar.

Að mótinu stendur bandaríski auðkýfingurinn, mannvinurinn og skákfrömuðurinn Rex Sinquefield sem ausið hefur milljónum dollara í stórmót jafnt sem grasrótarverkefni í þágu skákgyðjunnar. Þetta er félagsskapur sem er Carlsen að skapi.

Og hvað gerist næst?

Sao Paulo 2012 Round 3 Fabiano Caruana

Caruana. Endar þetta allt með einvígi hans og Carlsens um nýjan heimsmeistaratitil?

Magnus Carlsen hefur nú fengið vikufrest til að skrifa undir samkomulag um einvígið í Sochi. Sama dag lýkur Sinquefield Bikarmótinu í St. Louis. (Þar hafa nú verið tefldar 3 umferðir af 10 og Carlsen hefur aðeins 1 vinning en Caruana fer með himinskautum.)

En þetta er gálgafrestur, því ekki verður séð hvernig hægt er að finna málamiðlun.

Það er næsta víst, eins og Bjarni Fel hefði sagt, að Carlsen mun ekki fara til Rússlands.

Og Kirsan virðist ósveigjanlegur.

Hér virðist þurfa inngrip æðri máttarvalda. Og hér gæti líka verið leikur á borði fyrir Íslendinga…

Frægasta einvígi skáksögunnar var haldið í Reykjavík 1972 þegar Fischer og Spassky gerðu upp kalda stríðið í Laugardalshöll. Enginn viðburður í rúmlega aldarfjórðungssögu lýðveldisins hafði vakið slíka athygli heimsins. Mánuðum saman var Ísland á forsíðum heimsblaða og í kastljósi fjölmiðla. Einvígið kom Íslandi á heimskortið.

fischer-spassky72c

,,Einvígi allra tíma“ var haldið í Reykjavík 1972. Kominn tími til að endurtaka leikinn?

Íslendingar geta nú höggvið á hnútinn og boðist til að halda einvígi Carlsens og Anands. Báðir hafa þeir heiðursmenn teflt á Íslandi, og báðum er í mun að einvígið fari fram. Heimalönd þeirra koma tæpast til greina (Anand tapaði á heimavelli í fyrra og Carlsen gengur ekki sérlega vel á stórmótum í Noregi) svo Ísland er tilvalin málamiðlun!

Raunhæft?

Allt (eða næstum því) er hægt. Það er reyndar óraunhæft að Íslendingar geti haldið einvígið í nóvember, enda þarf mikinn undirbúning og fjármagn. En á þessari stundu bendir ekkert til að einvígi Anands og Carlsens fari fram í nóvember, hvorki í Sochi né annarsstaðar. Eigi að forða klofningi og sundrung í FIDE verður einfaldlega að fresta einvíginu og finna því stað í öðru landi en Rússlandi.

Og þar hlýtur skáklandið Ísland, vettvangur ,,Einvígis allra tíma“, að koma sterklega til álita. Það væri sögulegt!

Facebook athugasemdir