Grænlensk gleði á laugardag

1796866_660773397315966_780374315_oHrókurinn og Kalak bjóða til Grænlandsgleði í Pakkhúsi Hróksins við Reykjavíkurhöfn, laugardaginn 19. september milli klukkan 14 og 16. Heiðursgestir dagsins er Dines Mikaelsen, veiðimaður og listamaður frá Tasiilaq, og börnin frá litlu þorpunum á austurströnd Grænlands sem hér hafa dvalið að undanförnu til að læra sund og kynnast íslensku samfélagi.

Dines Mikaelsen er fæddur 1977 og er kominn af nafnfrægum veiðimönnum á Austur-Grænlandi. Hann hefur frá unga aldri gert sér far um að varðveita austur-grænlenska tungu, hefðir og menningu og var aðeins 12 ára þegar út kom í Þýskalandi bók með sögum hans og teikningum frá Austur-Grænlandi. Dines er líka þekktur fyrir snilld sína í útskurði, og mun sýna gestum á laugardaginn vinnubrögð grænlenskra handverksmanna. Þá mun Dines sýna myndir frá hinu stórbrotna umhverfi Austur-Grænlands, allt frá mannlífi og náttúru til ísbjarnarveiða.

535506_150313578464224_1208692451_nGrænlensku börnin sem hér eru stödd á vegum Kalak, vinafélags Íslands og Grænlands, koma frá sex þorpum á austurströndinni og eru 11 ára gömul. Þau munu syngja fyrir gesti og jafnframt spreyta sig í fjöltefli við Hrafn Jökulsson, Í tilefni dagsins munu Flugfélag Íslands og Hrókurinn færa börnunum taflsett að gjöf.

Pakkhús Hróksins er í vörugeymslu Brims hf., Geirsgötu 11, og eru allir hjartanlega velkomnir. Hægt verður að kynna sér ferðir Flugfélags Íslands til Grænlands, en FÍ hefur verið helsti bakhjarl Hróksins og Kalak um árabil. Á Facebook-síðu Hróksins verður efnt til samkeppni þar sem vinningur verður ferð fyrir tvo til Grænlands.

Facebook athugasemdir