Gleðin ríkir á skákhátíð Hróksins á Grænlandi

Liðsmenn Skákfélagsins Hróksins hafa síðustu viku staðið fyrir skákhátíð í Nuuk, höfuðborg Grænlands. Í dag var fjöltefli í verslunarmiðstöðinni Nuuk Center þar sem tugir heimamanna á öllum aldri spreyttu sig á móti Hróksmönnum.

Hátíðin hófst á miðvikudag með heimsókn Hróksliða í Sukisaar Saarfik, sem er athvarf fyrir fólk með geðraskanir. Þar voru afhentar gjafir frá prjónahópi Rauða krossins í Reykjavík, sem fara í jólapakka handa tugum einstaklinga. Þaðan lá leiðin á heimili fyrir börn, sem ekki geta verið heima hjá sér vegna erfiðra aðstæðna. 19 börn á aldrinum 1 til 15 ára fengu veglega jólapakka, og Hrókurinn mun í framhaldinu senda athvarfinu föt úr söfnun Hróksins á Íslandi.

Hróksliðar heimsóttu fæðingardeild sjúkrahússins í Nuuk, þar sem Ella Skifte yfirhjúkrunarfræðingur tók við gjöfum handa framtíðarfólki Grænlands. Þá var leikskólinn Puliaq heimsóttur þar sem um 40 börn fengu gjafir frá Íslandi.

Þá hafa Hróksmenn að sjálfsögðu hitt vini sína í Skákfélagi Nuuk, sem er virkur þátttakandi í hátíðinni. Á laugardag verður Grænlandsmót Einars Ben haldið í Nuuk Center, en samnefndur veitingastaður er einn af bakhjörlum hátíðarinnar. Helstu styrktaraðilar eru grænlenska fyrirtækið TELE-POST og Flugfélag Íslands auk þess sem utanríkisráðuneytið á Íslandi styrkir hátíðina. Mörg íslensk fyrirtæki gefa verðlaun og vinninga, m.a. Nói Síríus, 12 tónar og Ísspor.

Þetta er fjórða ferð Hróksins til Grænlands á þessu ári, en alls hafa liðsmenn félagsins farið í um 40 ferðir til Grænlands, að boða fagnaðarerindi skáklistarinnar og vináttunnar.

Á morgun, laugardag, verður verkefnaáætlun Hróksins á Grænlandi 2015 kynnt. Á dagskránni eru ferðir til allra þorpa á austurströnd Grænlands en jafnframt verða haldnar hátíðir á Suður- og Vestur-Grænlandi.

 

MYNDIR:

1

1.

Ung stúlka á skákhátíð Hróksins í Nuuk.

2

2.

Frá heimsókn Hróksins í athvarf fyrir fólk með geðraskanir. Prjónahópur Rauða krossins í Reykjavík sendi glaðning sem fer í jólapakka handa tugum einstaklinga.

3

3.

Hjónin Isavaraq og Vivi Petrussen reka heimili í Nuuk og Tasiilaq fyrir 19 börn á aldrinum 1-15 ára, sem ekki geta verið heima hjá sér vegna erfiðra aðstæðna. Öll börnin fá veglega jólapakka.

4

4.

Grænlensk börn á skákhátíð Hróksins.

5

5.

Hrafn Jökulsson forseti Hróksins og Charlotte Mønsgaard Hansen, framkvæmdastjóri hjá TELE-POST sem er aðalbakhjarl hátíðarinnar

6

6.

Skákmeistari framtíðarinnar.

7

7.

Pétur Ásgeirsson sendiherra gerði jafntefli við Róbert Lagerman skákmeistara.

8

9

  1. og 9.

Börnin í Puliaq-leikskólanum fengu glaðning frá Íslandi.

10

10.

Grænlenskar skákdrottningar.

Facebook athugasemdir