Senn líður að upphafi nýs skákárs. Tilvalið er því að renna lauslega yfir það sem verður í boði næstu vikur:
25. ágúst fer Meistarmót Hugins fram í Reykjavík – Mótið er átta umferða kappskákmót sem lýkur þann 9. september. Teflt er á mánudögum, þriðjudögum og miðvökudögum. Fjölbreytt verðlaun eru í boði! Tilvalið mót fyrir þá sem koma ryðgaðir undan sumri.
29. – 31. ágúst fer svo hið bráðvinsæla Framsýnarmót fram á Laugum í Þingeyjasveit. Mótið er hefðbundið helgarmót, tefldar verða fjórar atskákir á föstudagskvöldinu, tvær kappskákir á laugardeginum og ein á sunnudeginum. Gríðarsterkur keppendalisti liggur þegar fyrir.
29. ágúst verður fyrsta skemmtikvöld Taflfélags Reykjavíkur fyrir 20 ára og eldri! Þá fer fram hvorki meira né minna en Íslandsmót taflfélaga í Fischer Random! Skemmtikvöldin eru frábær skemmtun og gleðin við völd þótt oft sé barist hart á reitunum 64.
Alla mánudaga kl. 13 eru svo æfingar hjá Vin. Vinaskákfélagið og Hrókurinn standa að vikulegum æfingum í Vin, sem er athvarf á vegum Rauða krossins. Gott er að koma í Vin, þar er notalegt og vingjarnlegt andrúmsloft. Allir eru velkomnir á æfingar, byrjendur jafnt sem meistarar. Þátttaka í æfingum og mótum er ókeypis.
Bent er á skákdagatal hróksins en þar verða alltaf nýjustu upplýsingar um skákmótahald landsins. Allir geta sent upplýsingar um skákviðburði á hrafnjokuls@hotmail.com og þeir fara samstundis í dagskrána.