Frábærri skákhátíð í Nuuk að ljúka

ATT00002Brian Sörensen varð efstur heimamanna á Grænlandsmóti Einars Ben, sem Hróksliðar stóðu fyrir í Nuuk Center um helgina. Mótið var liður í TELE-POST skákhátíð Hróksins sem staðið hefur undanfarna viku, með stuðningi Flugfélags Íslands og fleiri aðila. Grænlandsmótið var kennt við skáldið og skákáhugamanninn Einar Benediktsson (1864-1940) sem lét sig málefni Grænlands miklu varða.

Síðustu daga hafa Hróksmenn heimsótt leikskóla, sjúkrahús, athvörf og barnaheimili, auk þess að efna til viðburða í samvinnu við Skákfélag Nuuk.  Mörg íslensk fyrirtæki sendu grænlenskum börnum og ungmennum glaðning, m.a. 66°NORÐUR, Nói Síríus, 12 tónar, Igló og Indí og Varma.

11Hátíðinni lýkur í dag með annarri heimsókn Hróksliða í  athvarf fyrir börn sem ekki geta verið heima hjá sér vegna erfiðra aðstæðna. Hjónin Vivi og Isavaraq Petrussen reka tvö heimili fyrir 19 börn í Nuuk og Tasiilaq. Þangað fara Hróksliðar klyfjaðir af nýjum og hlýjum fötum, taflsettum og fleiri gjöfum. Síðan verða Hróksmenn gestir Péturs Ásgeirssonar sendiherra sem býður Íslendingum í Nuuk til kaffisamsætis í tilefni af fullveldisdegi Íslands.

ATT00001Hrókurinn og Flugfélag Íslands hófuárið  samvinnu um skáklandnám á Grænlandi og aukin tengsl landanna á sem flestum sviðum, og hefur FÍ síðan stutt starf Hróksins á Grænlandi með ráðum og dáð. Alls hafa liðsmenn Hróksins farið í um 40 ferðir til Grænlands, og árið 2015 verða farnar 5-6 ferðir til vina okkar í vestri.

Leiðangursmenn Hróksins að þessu sinni voru Hrafn Jökulssson, Róbert Lagerman og Tómas Veigar Sigurðarson. Þeir nutu dyggrar aðstoðar íslenska sendiráðsins í Nuuk, skákfélagsins á staðnum og fjölmargra einstaklinga.

Hróksmenn vilja nota þetta tækifæri til að koma á framfæri djúpu þakklæti til allra sem lagt hafa lið við að gera frábæra hátíð að veruleika.

3

1

Facebook athugasemdir