
Helgi Áss Grétarsson stórmeistari hefur verið með í öllum þremur mótum Flugfélagssyrpunnar. Þröstur Þórhallsson mætti til leiks eins og Sesar á þriðja mótinu: Kom, sá og sigraði.
Stórmeistarinn Þröstur Þórhallsson (2432) var í banastuði á 3. mótinu í Flugfélagssyrpunni, sem fram fór í hádeginu á föstudag í Pakkhúsi Hróksins. Þröstur sigraði í öllum skákum sínum, hlaut 5 vinninga, en með 4 vinninga komu Helgi Áss Grétarsson (2488), Dagur Arngrímsson (2400), Héðinn Steingrímsson (2543) og Ingvar Þór Jóhannesson (2349).
Héðinn hefur forystu í heildarkeppninni, þegar þremur mótum af fimm er lokið, en allt getur ennþá gerst. Sigurvegari er sá sem nær bestum heildarárangri í þremur mótum. Héðinn er kominn með 13,5 vinning en Helgi Ólafsson, Hjörvar Steinn Grétarsson og sigurvegari dagsins eiga allir möguleika á að skáka Héðni á endasprettinum. Til mikils er að vinna: Ferð fyrir 2 til Grænlands með Flugfélagi Íslands.
Keppendur voru 27 og var mótið bráðskemmtilegt og spennandi. Greinilegt er að skákmenn kunna vel að meta að geta tekið þátt í skemmtilegum og snaggaralegum hraðskákmótum í hádeginu.
Næsta mót í Flugfélagssyrpunni fer fram föstudaginn 3. október.
Lokastaðan á 3. mótinu í Flugfélagssyrpu Hróksins:

Björgvin Kristbergsson tók sér frí úr vinnu til að geta verið með. Hann stóð sig frábærlega og uppskar 2 vinninga.

Hver er þessi bleiki?! Héðinn Steingrímsson í þungum þönkum. Er mjög sigurstranglegur í Flugfélagssyrpunni. Hefur teflt á öllum þremur mótunum og uppskorið 13,5 vinning af 15. Á þess kost að bæta árangurinn enn frekar í 2 síðustu mótunum og gulltryggja Grænlandsferðina.

Kempur tvær. Vestfirðingurinn Einar S. Einarsson, heiðursfélagi Skáksambands Íslands og einn helsti skákfrömuður okkar síðustu áratugi, og tónsnillingurinn Arnljótur Sigurðsson sem er af aristókratískum ættum á Norðurlandi.

Hinn þaulreyndi meistari Sæbjörn Guðfinnsson stóð sig með prýði á mótinu og gerði m.a. jafntefli við Björn Þorfinnsson. Hann mátti hinsvegar játa sig sigraðan gegn Héðni Steingrímssyni í 1. umferð.

Finnur Kr. Finnsson verður áttræður í febrúar á næsta ári. Frábær liðsmaður íslenskrar skákhreyfingar í áratugi.

Guðmundur Jónas Haraldsson er lykilmaður við skipulagningu og framkvæmd margra stórviðburða á vegum Hróksins. Leikstjóri, leikari og tónlistarmaður m.m.

Bragi Halldórsson hefur um árabil verið meðal okkar bestu skákmanna. Hér fylgist stórmeistarinn og lögspekingurinn Helgi Áss Grétarsson með næsta leik Braga…

Gunnar Björnsson, forseti Skáksambandsins, tefldi af hörku, stjórnaði mótinu af mildi og sló á létta strengi að venju. Hér er forsetinn óvenju alvörugefinn að sjá.

Góð saman: Friðrik Örn Egilsson, Sæbjörn Guðfinnsson, Kristján Örn Elíasson, Guðfinnur Kjartansson — og kát grænlensk hefðarkona.

Alþjóðlegi meistarinn Dagur Arngrímsson varð fyrstur til að leggja Héðin Steingrímsson stórmeistara að velli í Flugfélagssyrpu Hróksins.

Kristján Örn Elíasson, einn af stofnendum Hróksins, og Stefán Bergsson framkvæmdastjóri Skákakademíu Reykjavíkur. Þarna hafði Stefán betur í epískri skák.

Ágúst Örn Gíslason er skæður sóknarskákmaður og lagði m.a. Arnljót Sigurðsson, sem er mesti fórnarskákmaður reykvískra kaffihúsa þessi misserin.

Pakkhús Hróksins er frábær skákstaður. Þar er tekið á móti fötum í söfnun fyrir börn á Austur-Grænlandi.