Flugfélagshátíðin í Nuuk 2015: Skákveislan byrjuð í höfuðborg Grænlands

Heimsókn til Sukisaar Saarfik. Frá vinstri: Augusta Nathansen, Marie Egede, Börge Egede, Juliana Frederiksen

Heimsókn til Sukisaar Saarfik í Nuuk. Frá vinstri: Augusta Nathansen, Marie Egede, Börge Egede, Juliana Frederiksen

Skákfélagið Hrókurinn stendur fyrir Flugfélagshátíðinni í Nuuk, höfuðborg Grænlands, dagana 19. til 26. maí. Grunnskólar, athvörf, sjúkrahús og heimili fyrir börn verða heimsótt, og efnt til skákmóta og fjöltefla í samvinnu við skákfélagið í Nuuk.

Hrókurinn hefur staðið fyrir landnámi skákarinnar á Grænlandi síðan árið 2003 og hafa liðsmenn félagsins farið um 50 sinnum til Grænlands. Liðsmenn Hróksins líta svo á að Íslendingar eigi bestu nágranna í heimi, og vilja stuðla að auknum samskiptum nágrannaþjóðanna á sem flestum sviðum.

Hátíðin í Nuuk er sú fjórða sem Hrókurinn efnir til á Grænlandi á þessu ári. Áður hefur skákveislum verið slegið upp í Kulusuk, Tasiilaq og Ittoqqortoormiit.

11

Fjöltefli í Nuuk Center

Leiðangursstjóri er Róbert Lagerman, varaforseti Hróksins. Hann og Arnljótur Sigurðarson, tónlistarmaður, liðsmaður Hróksins og félagi í Vinaskákfélaginu, heimsækja athvörf, heimili og sjúkrahús 19.-21. maí.

  • Föstudaginn 22. maí klukkan 14 mun Róbert skákmeistari tefla fjöltefli í Nuuk Center. Hann skorar á íbúa Nuuk á öllum aldri að koma og mæta sér við skákborðið. Þátttaka er ókeypis og allir fá glaðning.
  • Laugardaginn 23. maí kl. 14 verður Flugfélagsmótið haldið í Nuuk Center. Tefldar eru skákir með 10 mínútna umhugsunartíma, 7 umferðir. Sigurvegarinn fær veglegan bikar og mörg verðlaun eru í boði. Mótið er öllum opið og þátttaka ókeypis.
  • Sunnudaginn 24. maí kl. 14 er komið að hátindi hátíðarinnar, þegar Steffen Lynge og Mikael Mikiki tefla úrslitaeinvígi um meistaratitil Nuuk 2015. Þeir urðu jafnir og efstir á nýafstöðnu meistaramóti Skákfélags Nuuk og nú verður barist til þrautar!

Góðir gestir eru í föruneyti Hróksins. Margrét Pála Ólafsdóttir og Omar Salama frá Hjallastefnunni taka þátt í hátíðinni, en Hjallastefnan hefur tekið virkan þátt í starfi Hróksins í þágu barna og ungmenna á Grænlandi. Omar Salama er leikskólakennari, meðal okkar bestu skákmanna og hefur náð undraverðum árangri við þjálfun ungra barna.

Aðrir leiðangursmenn eru Hrafn Jökulsson forseti Hróksins og Jóhanna Engilráð Hrafnsdóttir, sem fagnar sex ára afmæli meðan á hátíðinni stendur. Feðgarnir Jón Grétar Magnússon og Jökull Jónsson eru tæknistjórar og ljósmyndarar leiðangursins. Jón Grétar er nú að fara í sína þriðju ferð á árinu á vegum Hróksins og hafa hinar frábæru myndir hans frá Grænlandi flogið víða.

Kristjana Guðmundsdóttir Motzfeldt

Kristjana Guðmundsdóttir Motzfeldt hefur stýrt undirbúningi í Nuuk, en hún er heiðursforseti Hróksins á Grænlandi. Þá veitir sendiráð Íslands í Nuuk ómetanlega aðstoð við undirbúning og framkvæmd.

Flugfélag Íslands er aðalbakhjarl hátíðarinnar í Nuuk, en FÍ hefur unnið með Hróksmönnum frá upphafi 2003 að útbreiðslu skáklistarinnar á Grænlandi, og er mikilvægasti samherji Hróksins við þetta mikilvæga og gefandi samfélagsverkefni, þar sem markmiðið er að skapa gleðistundir og auka vináttu Íslands og Grænlands.

Meðal annarra bakhjarla Flugfélagshátíðarinnar í Nuuk 2015 eru Kjarnafæði, Nói Síríus, Osta- og smjörsalan, Ísspor, Grænn Markaður, HENSON, Sögur útgáfa, Ittu-NET og Nuuk Center.

Hægt er að fylgjast með hátíðinni á heimasíðu Hróksins, hrokurinn.is og á Facebook-síðu félagsins.

Liðsmenn Hróksins hlakka til að hitta gamla vini í Nuuk og eignast nýja. Allir eru hjartanlega velkomnir á viðburði hátíðarinnar.

Facebook athugasemdir