Flugfélagshátíð Hróksins í Kulusuk lauk á fimmtudag með trommudansi Anda Kuitse, sem er einn kunnasti listamaður Grænlands. Kulusuk, sem er næsta nágrannaþorp Íslands, hefur iðað af skáklífi og gleði í vikunni og á miðvikudag tóku öll börnin í grunnskólanum þátt í meistaramóti í skák.
Hátíðin hófst formlega á þriðjudag með skákkennslu fyrir börnin í grunnskólanum, sem eru 45 að tölu. Að því loknu var efnt til Ísspor-fjölteflis Róberts Lagerman og Hrafns Jökulssonar, en auk þeirra var Jóhanna Engilráð Hrafnsdóttir, 6 ára, meðal leiðangursmanna Hróksins að þessu sinni.
Meistaramótið á miðvikudag var æsispennandi og bráðskemmtileg. Hin 14 ára gamla Mikilina Maratse fór með sigur af hólmi, Enos Utuaq hreppti silfrið en Jootut Maratse og David Siniale urðu jafnir í 3. sætinu. Öll fengu börnin vinninga og verðlaun, og var gleðin allsráðandi.
Á hátíðinni hófst dreifing á 300 taflsettum sem Flugfélag Íslands leggur Hróknum til í gjafir handa börnum á Grænlandi, og 100 til viðbótar sem velunnarar félagsins lögðu til.
Við lok hátíðarinnar lýsti Justine Boassen skólastjóri mikilli ánægju með hátíðina og starf Hróksins í Kulusuk, en liðsmenn félagsins hafa margoft komið þar í heimsókn, og voru síðast á ferðinni í febrúar á þessu ári.
Hróksmenn heimsóttu líka leikskólann í þorpinu og færðu börnunum vandaðan prjónafatnað frá prjónahópi Rauða krossins í Reykjavík.
Samhliða skákhátíðinni var efnt til sýningar í skólanum á myndum sem stúlkur í 1. bekk Barnaskólans í Reykjavík teiknuðu fyrir börnin í Kulusuk, sem þökkuðu fyrir sig með því að teikna og lita bráðskemmtilegar myndir sem sýndar verða í ýmsum skólum á Íslandi á næstunni.
Hróksmenn hafa nú skipulagt fimm leiðangra til Grænlands á árinu og fleiri eru á döfinni í vetur. Hrókurinn þakkar öllum sem lögðu lið við hina vel heppnuðu Flugfélagshátíð í Kulusuk. Meðal bakhjarla voru FÍ, HENSON, Ísspor, Hjallastefnan, Penninn, Kjarnafæði, Einar Ben restaurant og Nói Síríus.