Fidel Castro, meistari Friðrik og Þráinn Bertelsson

logo66Þegar 17. Ólympíuskákmótið hófst í Havana, 23. október 1966, skrifaði eitt af dagblöðunum á Kúbu: ,,Á þessari stundu er land okkar eitt risavaxið taflborð.“ Kúba var föðurland Capablanca, þriðja heimsmeistarans. Hann var trúlega mestur snillingur og náttúrutalent skáksögunnar. Fischer dáði Capablanca umfram aðra.

Kúbverjar tjölduðu öllu til. Kommúnistar höfðu náð völdum á eyjunni árið 1961, og þeir höfðu staðið uppi í hárinu á Bandaríkjamönnum. Þetta var í kalda stríðinu, og Kúba var eitt af helstu bitbeinum stórveldanna. Ólympíuskákmótið 1966 var stórviðburður í mannfélaginu á Kúbu.

Sovétríkin sigruðu — auðvitað — en Ísland varð í 11. sæti af 52. Frábær árangur.

Formaður undirbúningsnefndar Ólympíumótsins var sjálfur Fidel Castro, aðalritari miðstjórnar kúbverska kommúnistaflokksins. Castro var þá fertugur, og átti eftir að ríkja í áratugi á eyjunni hans Capablanca.

Sveit Íslands á Ólympíumótinu í Havana leiddi 31 árs stórmeistari: Friðrik Ólafsson.

Friðrik var fyrsta íslenska undrabarnið.

Hann fæddist 26. janúar 1935 og byrjaði kornungur að tefla á mótum með fullorðnum (körlum). Ekki tíðkaðist að börn (eða konur) tefldu á skákmótum, og sáralítið var um skákkennslu fyrir ungmenni.

Friðrik var kominn í hóp bestu skákmanna Íslands á táningsaldri. Og á sjötta áratugnum varð hann ekki bara langbesti skákmaður Íslands — hann varð einn af þeim bestu í heiminum. Hann var með í baráttunni um heimsmeistaratitilinn. Hann sigraði Fischer, Tal og Petrosjan — seinna bætti Friðrik höfuðleðrinu af Karpov í safnið.

Fridrik og FidelFriðrik stóð sig með miklum sóma á Ólympíumótinu í Havana. Vann 8, gerði 7 jafntefli og tapaði 3. 63,9 prósent.

Meistarinn tók ekki bara vinninga og góðar minningar með frá Kúbu. Friðrik fékk líka eitt af taflborðunum, en þau voru sérsmíðuð í tilefni af ólympíumótinu.

Við vitum ekki nákvæmlega hvaða skákir voru tefldar á borðinu sem Friðrik og Þráinn Bertelsson sitja við.

Kannski sat Tal við þetta borð, reykti af áfergju, og galdraði? Hann fékk 12 vinninga af 13 fyrir Sovétmenn á þessu móti…

Þráin þarf vart að kynna fyrir lesendum. Hann er ástsæll rithöfundur og kvikmyndaleikstjóri, auk þess að hafa fórnað fjórum árum í löggjafarstörf. Hann er gamall aðdáandi Friðriks, og það var svo sannarlega glatt á hjalla þegar þessir góðu snillingar hittust í fyrsta skipti nú um daginn.

 

Sögurnar flugu — yfir borðið frá Havana.

Facebook athugasemdir