Krakkarnir í Barnaskólanum í Reykjavík voru í sólskinsskapi í dag þegar við veittum viðtöku fötum og skóm í söfnunina okkar. Mörg falleg bréf og myndir fylgdu með, innpakkaðar gjafir og handunnar bækur — kærleikskveðjur til barnanna á Grænlandi. Íris Helga Baldursdóttir skólastjóri og hin eina sanna Magga Pála fóru fremstar í glöðum og kraftmiklum hópi.
Fatasöfnun Hróksins fyrir börn á Austur-Grænlandi, sem hófst í lok ágúst, hefur gengið framúrskarandi vel. Fjölmargir grunnskólar hafa tekið þátt í verkefninu, og þannig hafa mörg hundruð börn lagt sitt af mörkum í þágu málstaðarins — og allir með bros á vör.
Auk Barnaskólans í Reykjavík hafa eftirtaldir skólar tekið þátt í söfnuninni: Rimaskóli, Naustaskóli Akureyri, Þelamerkurskóli, Dalvíkurskóli, Stórutjarnarskóli, Grenivíkurskóli, Nesskóli, Stöðvarfjarðarskóli og Grunnskóli Fáskrúðsfjarðar.
Fötin eru flokkuð í Pakkhúsi Hróksins við Reykjavíkurhöfn í húsnæði sem Brim hf. leggur Hróknum til. Fjölmargir hafa hjálpað til við að flokka og pakka, og er jafnan góður andi í Pakkhúsinu. Þar er auk þess reglulega slegið upp skákviðburðum, enda afar skemmtileg og hentug aðstaða til taflmennsku. Þannig var efnt til Flugfélagssyrpu Hróksins, fimm móta seríu, þar sem keppt var um ferð til Grænlands.
Þegar er búið að senda hátt í 200 kassa af fötum til Grænlands, og búið að pakka miklu til viðbótar. Flugfélag Íslands, Norlandair, Norðursigling og Landflutningar flytja fötin endurgjaldslaust.
Frumkvæði að söfnuninni kom frá skólastjórnendum og vinum Hróksins í Ittoqqortoormiit, sem er 450 manna þorp við Scoresby-sund. Ittoqqortoormiit er á 70. breiddargráðu, þúsund kílómetra frá næsta byggða bóli. Hrókurinn hefur staðið fyrir skákhátíðum í bænum alla páska mörg undanfarin ár, og liðsmenn félagsins eiga þar marga góða vini.
Undirtektir við fatasöfnun Hróksins voru stórkostlegar frá fyrsta degi, og fljótlega var ákveðið að láta börn í öðrum þorpum á austurströndinni njóta góðs af.
Á miðvikudag verður opið í Pakkhúsi Hróksins milli 13 og 15. Öll aðstoð við flokkun og pökkun er vel þegin. Heitt á könnunni, og auðvitað hægt að grípa í skák.
Pakkhús Hróksins er í vöruskemmtu Brims hf. við Geirsgötu 11, sem áður hýsti t.d. heildverslun Jóns Ásbjörnssonar.
Fánar Hróksins og Grænlands blakta tignarlega yfir byggingunni.
Allir velkomnir!