Hikaru Nakamura (2780) og Levon Aronian (2791) tefla nú 20 skáka einvígi í borginni Saint Louis í Missuri í Bandaríkjunum. Tefldar verða fjórar kappskákir og 16 hraðskákir og fær sigurvegarinn betri helminginn af $100.000 verðlaunafé. Einvígið hófst í gær.
Fyrir einvígið hafa þeir félgar teflt 23 kappskákir. Þar hefur Aronian yfirhöndina með 9 sigra gegn 5 sigrum Nakamura og 9 skákir hafa endað með jafntefli. Í atskák snýst málið við því þar hefur Nakamura yfirhöndina með 5 sigra gegn 3 sigrum Aronian og 5 skákir hafa endað í jafntefli.
Aronian var mættur á fimmtudaginn og tefldi hraðskákeinvígi við ameríska stórmeistarann og Yasser Seirawan sem ásamt þeim Maurice Ashley og Jennifer Shahade sér um beinar útsendingar frá einvíginu. Yasser byrjaði vel og komst í 5-2! en Ari tók þá við sér og vann fjórar í röð. 6-5 fyrir Ara.
1. umferð einvígisins gekk þó ekki jafn vel, því Aronian fór bókstaflega niður í logum eftir að hafa verið með ágæta stöðu; Hann hugsaði lengi vel í miðtaflinu og lenti í gríðarlegu tímahraki sem varð til þess að hann lék af sér og sá ekki til sólar eftir það.
Nakamura leiðir því 1-0.
2. umferð hefst kl. 20.
Dagskrá einvígisins
Föstudagur, 21. nóvember, 20:00 | Kappskák 1. umferð |
Laugardagur, 22. nóvember, 20:00. | Kappskák 2. umferð |
Sunnudagur, 23. nóvember, 20:00 | Kappskák 3. umferð |
Mánudagur, 24. nóvember, 20:00. | Kappskák 4. umferð |
Þriðjudagur, 25. nóvember, 20:00 | Hraðskák (16 skákir) |