Einar Benediktsson: Síðasta þjóðskáldið

Einar Benediktsson - Mynd: Heimilisritið

Skáldið sem orti um allt.

Setningarávarp Guðmundar Andra Thorssonar á Afmælismóti Einars Benediktssonar, sem haldið var á veitingahúsinu Einari Ben laugardaginn 1. nóvember 2014.

Einar Benediktsson var hið síðasta í röð stórskálda 19. aldar. Hann var líka fyrsta þjóðskáld 20. aldarinnar en um leið hið síðasta. Hann orti ljóð sem rúmuðu allt. Ljóðlínurnar urðu þess vegna stundum svolítið langar og sumt fólk sem er ekki í nógu góðu hugarformi kvartar yfir því að það verði lafmótt af því að lesa þessar ógnarlöngu línur með öllum þessum mikilúðlegu orðum.

Hann orti um hafið og himininn, draugagang og breiskleika, fossana, og jörðina og Guð, umsvifin og skáldskapinn og fyrirheitin, mannkynssöguna og lögmál tilverunnar sem hann taldi sig sjá í öldugangi úthafsins.

Hann orti um heimsborgirnar og hann orti um verksmiðjur. Hann orti um sósíalismann og kapítalismann.

Hann orti um nútímann. Hann orti um allt. Hann orti meira að segja um tyggigúmí, fyrst íslenskra skálda. Það er í hinu stórkostlega ljóði hans um Fifth Avenue í New York – Fimmta tröð: „Í Jórvík nýju er jaxlað hraðar / jórturleðrið en annars staðar“. Hann skynjar þarna æsilegt andrúmsloft heimsborgarinnar en sér líka í gegnum það: „Mér fannst þetta líf allt sem uppgerðarasi / og erindisleysa með dugnaðarfasi“.

Þegar Einar Benediktsson yrkir um náttúruna er hann gjarnan eins og skáld sem gengur fyrir konung sinn og flytur honum drápu. Hann gengur niður að sjó, lyftir örmunum og hrópar upp í særokið:

5th_avenue

,,Fimmta tröð“.

Til þín er mín heimþrá, eyðimörk ógna og dýrðar … Hann stendur andspænis Dettifossi og hrópar: „Syng Dettifoss. Syng hátt mót himins sól …“ Hann kemur siglandi til Íslands og með honum taka að bærast orð: „Ég sé þig – ég heyri þig, heiðageimur / í hafmóðu undir kvöld….“ Og svo framvegis.

Andspænis náttúruöflunum er hann eins og skákmaður sem byrjar á því að tefla fram kóngspeðinu í fyrstu línunum; og stundum enda ljóð hans sem sigri eftir glæsilega fléttu – eins og til dæmis Messan á Mosfelli sem endar á línunum: „Og það voru hljóðir og hógværir menn / sem héldu til Reykjavíkur“ og stundum enda ljóðin í ákalli eftir sambandi, eða kannski öllu heldur, viðleitni til að færa í orð eitthvað óheyrilegt, einhverja undursamlega reynslu, stórkostlega vitrun sem hann verður að segja frá:

Það er einhver bylgja sem brýst mér í sál.

Hún beinist frá öllum jarðarálfum.

Mín innsta hugsun, hún á ekki mál,

en ósk og bæn sem hverfur mér sjálfum …

eins og segir í ljóðinu Öldulíf. Kannski má kalla svona niðurstöðu nokkurs konar stórmeistarajafntefli.

pabbi

Benedikt Sveinsson, faðir Einars, var foringi í sjálfstæðisbaráttunni en skáldgáfuna fékk Einar trúlega frá móður sinni.

„Upp með taflið, ég á leikinn!“ hrópar hann upp í byrjun ferilsins sem skáld og umsvifamaður og það sem fylgdi var bæði fagurlega fléttað og fullt af mannviti og þrótti; „Vort heimslíf er tafl fyrir glöggeygan gest,“ sagði hann svo í Væringjum, sem hann orti nokkru síðar, á þeim árum þegar hann var í mestum umsvifum erlendis og verður vart betur lýst þeim stellingum sem hann var í andspænis kaupsýslumönnunum á heimstorgunum, sem hann taldi sig eiga allskostar við.

Einar Benediktsson fæddist árið 1864. Foreldrar hans standa hvort með sínum hætti fyrir ýmislegt af því sem hann tók sér fyrir hendur í lífinu.

EiginkonaMóðir hans Katrín Einarsdóttir frá Reynistað var skáldmælt og Einar þakkar henni skáldgáfur sínar og snilldartök á íslenskri tungu eins og getið er um í ljóðinu Móðir mín – en hún orti til sonar síns frægar línur: „Ef að þótti þinn er stór / þá er von að minn sé nokkur / sama blóðið er í okkur / dropar tveir en sami sjór.“

Faðir Einars, Benedikt Sveinsson var hins vegar lögfræðingur og fjáraflamaður sem stóð í margvíslegum umsvifum en umfram allt var hann foringi í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar og ræðuskörungur sem hreif alla með vængjaðri málsnilld.

Einar úskrifaðist stúdent úr lærða skólanum árið 1884. Hann átti við mikil veikindi að stríða á árunum um tvítugt og mótaði sú reynsla eflaust skáldgáfu hans, en lögfræðiprófi lauk hann frá Kaupmannahafnarháskóla 1892. Hann kemur svo hingað heim um þrítugt, kemst í álnir, giftist Valgerði Zoega nokkrum árum síðar, þegar hann var þrjátíu og fimm ára en hún átján og þau eignuðust sex börn.

reykjavik 1900

Nútíminn að lötra í garð í Reykjavík um aldamótin 1900. Einar vildi gjörbreyta íslensku samfélagi.

Einars er einkum minnst sem skálds nú og fyrir að vekja athygli erlendra fjárfesta á íslenskum auðlindum, og strandaði einungis á íslenskum ráðamönnum, að fyrirætlanir hans um virkjanir urðu ekki að veruleika fyrr en löngu síðar, en hann lét að sér kveða á ótal öðrum sviðum: Hann var frumkvöðull í blaðaútgáfu, stofnaði fyrsta dagblaðið hér á landi, Dagskrá, og hann stofnaði Landvarnaflokkinn, sem var róttækasta aflið í sjálfstæðisbaráttunni og barðist gegn Uppkastinu 1908 af mikilli elju og rann síðar inn í Sjálfstæðisflokkinn, þar sem enn gætir áhrifa frá þessum flokki í andstöðunni við aðild að ESB.

einar_ben_bokasafn

Ellimóður í Herdísarvík.

Sumir segja að Einar Benediktsson hafi verið einhvers konar loddari; ljóð hans virðist djúp en séu bara full af orðahröngli; umsvif hans hafi falist í því einu að skruma um ágæti Íslands; þetta viðhorf mætist allt í þjóðsögunni um sölu Norðurljósa, sem að vísu eru einn ábatasamasti atvinnuvegur Íslendinga um þessar mundir.

Allt er þetta fjarri sanni. Áform Einars voru raunhæf; hann vildi opna landið fyrir erlendu auðmagni en fór full geyst í sakirnar fyrir Íslendinga: hann sá fyrir sér strompa og stórborgir, stórfé og milljónir af fólki; það Ísland varð ekki til – nema í ljóðheimi Einars Benediktssonar og þegar við sjáum bláhvíta fánann skynjum það Ísland sem aldrei varð.

Ljóðin hans eru af öllu tagi: sum innileg og látlaus, sum stór og með þungum slætti. Þau fjalla um náttúruna, hugvitið, ástina, þrána, vélarnar og borgina, tímana, völdin og guð – allt það sem tekur því að yrkja um, já og meira að segja tyggigúmíið líka. Hann orti ljóð sem rúma allt. Hann orti eins og sá sem á leikinn og ýtir kóngspeðinu af stað.

Facebook athugasemdir