Skákheimurinn syrgir nú tvo skákmeistara sem dóu á lokadegi Ólympíuskákmótsins í Tromsö. Kurt Meier lést við skákborðið á fimmtudag og um kvöldið lést Alisher Anarkulov frá Úsbekistan á hóteli í Tromsö. Anarakulov var fæddur 1968 og tefldi með liði Alþjóðasambands heyrnarlausra skákmanna.
Kurt Meier var 67 ára og tefldi á 2. borði fyrir Seychelles-eyjar. Meier var ættaður frá Sviss en giftur konu frá Seychelles-eyjum og skipaði sonur þeirra 1. sæti sveitarinnar. Þeir feðgar voru einu íbúar eyjanna með alþjóðleg skákstig. Íbúar Seychekkes-eyja, sem eru í Indlandshafi um 1500 kílómetra undan suðaustur-strönd Afríku, eru tæplega 100 þúsund.
Vincent Meriton, sem m.a. fer með ráðuneyti íþróttamála í ríkisstjórn Seychelles-eyja, vottaði fjölskyldu Meiers djúpa samúð og bauð fram hjálp og aðstoð. Kona Meiers var í Tomsö ásamt Peter syni þeirra, sem hefur 2039 skákstig.
Kurt Meier kvaddi við skákborðið. Hann stóð sig best allra í liðinu á mótinu.
Anarkulov hafði 2222 skákstig og tefldi á 4. borði með sveit heyrnarlausra, sem lenti í 70. sæti af rúmlega 180. Anarkulov stóð sig með sóma á mótinu og fékk 5 vinninga af 10 mögulegum.
Samkvæmt upplýsingum frá Tromsö bendir ekkert til þess að dauða meistarans frá Úsbekistan hafi borið að með saknæmum hætti.